Myndir & Stuð

Í þessari viku höfum við verið svo heppinn að Guðmundur Einar hefur tekið frábærar myndir af krökkunum. Það hefur krafist aðeins meiri vinnu og því hafa ekki komið inn myndir til þessa, en þær ættu að vera að koma inn hvað á hverju.

Annars eru allir hrikalega hressir hér við Eiðavatn, leiðtogakvöldvakan gekk stórkostlega vel og nú í dag er nóg að gera: Úrslit fáranleikanna, sigurvegarar Brennó-mótsins keppa við leiðtoga og margt fleira.

Feykihress fjórði flokkur

Síðustu dagar hafa verið frábærir í sumarbúðunum við Eiðavatn.
Í gær, miðvikudag, var hálfgerður sunnudagur hér en þá tóku krakkarnir virkan þátt í að undirbúa guðsþjónustu hér sem sr.Jóhanna leiddi. Hópurinn stóð sig með stakri prýði og úr varð einstök stund, hlý og róleg. Enda mátti alveg við rólegheitunum því um morguninn var farið á kanóa og báta og fengu allir sem vildu að prófa.
Í seinni útiveru dagsins var haldið út í rústir og farið í miðaleikinn klassíska.
Kvöldvökurnar hafa haldið áfram að vekja mikla lukku og það er engin vöntun á hlátursköstum hér við Eiðavatn.
Nú í dag, fimmtudag, verður haldið út á tjörn með hópinn allan í góða veðrinu, með dásamlegt nesti frá henni Kristjönu okkar. Tilhlökkunin er mikil og ekki finnst börnunum verra að vita af því að í kvöld sé leiðtogakvöldvaka, en hún hefur reynst áskrift að góðri skemmtun í gegnum tíðina.

Fjórði flokkur mættur í sumarbúðir

Þá er fjórði flokkurinn þetta sumarið mættur og hann er jafnframt sá fjölmennasti. Þrátt fyrir það gekk gærdagurinn einstaklega vel, allir tóku virkan þátt í dagskránni og náði hópurinn strax vel saman í leik og starfi. Jón Jónsson þýðandi mætti til leiks ásamt öðrum í leikflokki sumarbúðanna og saman lærðu hann og börnin um merkingu þess að vera þýðingarmikill. Jón á eflaust eftir að dúkka upp aftur á næstu dögum, þetta vafðist aðeins fyrir honum svona í byrjun. Eftir fræðslustund gerði hvert herbergi skilti og greinilegt að hópurinn er kærleiksríkur því mikið var um hjörtu og aðrar fallegar skreytingar. Kubbmótið var tekið alvarlega í eftirmidaginn og mikið keppnisskap sem ríkti, en þar háðu herbergin erfiðar viðureignir hvert við annað. Að loknum kvöldmat var svo dúndur kvöldvaka þar sem var mikið um hlátur, leiki og gaman! Í morgun voru þeir allra sprækustu vaknaðir áður en leiðtogar komu að vekja herbergin, en það var þó ró yfir öllum, bara kúrt í sófa og lesið Andrés. Nú eru Fáránleikarnir í fullum gangi og spennandi að sjá hver sigrar skósparkið, blinda vítaspyrnu, kartöfluhlaup o.s.fr. Það er allavega augljóst að fjórði flokkurinn er fullur af orku og gleði!

Stuð, stuð, stuð

Síðustu dagar hafa verið dásamlegir hér við Eiðavatn.
Miðvikudagurinn byrjaði á bátaferð í hólmann, sem gjarnan er kallaður Fjaðurey hér á bæ.
Hátíðarhádegismatur var í tilefni guðsþjónustu sem haldin var eftir hádegi og Davíð Þór Jónsson leiddi.
Krakkarnir tóku fullan þátt í guðsþjónustunni og undirbúningi hennar en skipt var í þrjá hópa að þessu sinni: skreytingahóp, leiklistarhóp og bænahóp.
Úr varð dásamleg guðsþjónusta, enda stóðu krakkarnir sig með stakri prýði.
Fimmtudagurinn var ekki síður sérstakur en leiðangur krakkanna út að tjörn var það sem stóð upp úr. Eftir hádegi var lagt af stað í góða göngu sem endaði við tjörnina góðu þar sem farið var á kanó.
Kristjana og Guðný voru svo góðar að gera handa okkur nesti og var það snætt með bestu lyst.
Um kvöldið var síðan leiðtogakvöldvakan þar sem sprell, spaug og leikþættir leiðtoganna gerðu virkilega gott mót.
Frábærir dagar og ótrúlegt að hugsa til þess að síðasti dagurinn með þessum frábæra flokk sé í vændum.

Annar dagur, alltaf snilld

Þriðjudagurinn hefur verið hin mesta skemmtun hér við Eiðavatn. Þrátt fyrir að full hvasst sé kannski þá bætir sólskinið það algjörlega upp.
Krakkarnir tóku daginn snemma og voru margir hverjir meira að segja vaknaðir áður en leiðtogarnir tóku til við að vekja kl.8:30. Þeir krakkar gerðu hinsvegar vel og áttu kósý stund í afslöppun við lestur og rólegheit. Eftir fánahyllingu var boðið upp á morgunmat, meðal annars hina víðfrægu sumarbúðablöndu.
Fáranleikarnir, sem eru frekar fáranleg útgáfa af ólympíuleikunum, fylgdu í kjölfar morgunverðarins.
Eftir keppni í hinum ýmsu fáranlegu íþróttum tók við dásamlegur hádegismatur; fiskur og franskar.
Jón Jónsson kíkti í fræðslustund og horfði með krökkunum á leikrit sem leiðtogarnir voru búnir að undirbúa.
Þá var í dag bakað brauð og fékk hver og einn að móta eins og sér sýndist. Eins var haldin hárgreiðslukeppni þar sem krakkarnir sýndu listir sínar. Þær voru margar frumlegar greiðslurnar sem litu dagsins ljós þar.
Nú er brennómót í fullum gangi og enn nóg eftir á dagskrá dagsins. Svaka stuð og allir hinir hressustu.

3. flokkur í þrusustuði!

Þá er þriðji flokkurinn mættur hingað við Eiðavatn. Hörkuduglegir og hressir krakkar sem eru búnir að eiga góðan fyrsta dag. Við komum saman inn á sal fyrir hádegi og kynntum okkur sumarbúðirnar og hvort annað. Allir fengu að segja nafn sitt, afmælisdag og uppáhaldsmat. Það var mikið stuð og var Hjalti sumarbúðastjóri ánægður með hve vel krakkarnir tóku í dálæti hans á rjómaís.
Jón Jónsson þýðandi mætti keikur til leiks og spjallaði við hópinn og lærði hvað það þýddi að vera þýðingarmikill. Kubbmót var haldið í útiverunni og um kvöldið var haldin algjör stuðkvöldvaka af stúlkunum í herbergi 1.
Börnin voru sátt og sæl þegar þau héldu í háttinn eftir viðburðaríkan dag. Það er greinilegt að það er mikil stuðvika í vændum hér við Eiðavatn.


Hörkufjör á heimavist

Þó veðrið hafi verið þungbúið voru allir hér á Eiðum hinir hressustu í dag.
Við vöknuðum og snæddum prýðilegan morgunverð að venju, áttum góða morgunstund þar sem við ræddum meðal annars boðskap huggunarspámannsins Jesaja og héldum svo út í góða hreyfingu.
Eftir hádegi hélt hópurinn af stað með nesti í ferðalag. Haldið var að tjörninni og fengu börnin að róa kanó. Allir sem vildu fengu að prufa og höfðu gaman af.
Kristjana og Guðný kenndu hópnum hvernig á að þæfa ull og hafa börnin nú fallega hlýja og óvenju mjúka steina til að taka með sér heim. Um kvöldið létu leiðtogarnir til sín taka - kvöldvakan var svakaleg og upp í rúm skriðu þreytt og sæl börn.

Algjör veisla

Í dag var „sunnudagur" hér á Eiðum. Hópurinn skipulagði guðsþjónustu sem Davíð Þór leiddi og voru krakkarnir ýmist í bænahóp, leiklistarhóp, tónlistarhóp eða skreytingarhóp.
Stundin var afskaplega vel heppnuð og áttu krakkarnir vel skilið allar kræsingarnar sem Kristjana og Guðný reiddu fram í dag úr eldhúsinu.
Um morguninn var haldið í báta út á vatni og fengu krakkarnir að prufa að róa og sýndu þar gríðarlega takta. Kubbmót var haldið í seinni útiverunni og var spennan mikil.
Þá var aðeins brotið upp á hefðbundna dagskrá og krökkunum leyft að horfa á síðari hálfleik og vítaspyrnukeppni í undanúrslitaleik Spánar og Portúgals, en við tengdum beina útsendingu við skjávarpa.
Fagnaðarlætin voru gríðarleg hjá áhangendum Spánar en stuðningsmenn Portúgals voru öllu svekktari. Grínið og glensið sem ríkti á kvöldvöku kvöldsins varð þó til þess að leikurinn gleymdist fljótt og hláturinn ómaði, enda tekið upp á ýmsu.
Kvöldið endaði eins og önnur á hugleiðingu, hugljúfri tónlist og bænum fyrir svefninn.
Nú eru allir sofnaðir og sáttir eftir frábæran dag hér við Eiðavatn.
Að endingu er rétt að minnast á það að einhver vandræði hafa verið með símann inn á skrifstofu hjá sumarbúðastjóra sem hafa orðið til þess að hann hefur ekki virkað eins og hann á að virka (síminn, þeas. ekki sumarbúðastjórinn - hann er í ágætis gír!). Er beðist velvirðingar á þessu hér með.

Stuð & Stemmning - 2. dagur, 2. flokkur!

Kvöldvaka gærkvöldsins var í meira lagi eftirminnileg en stúlkurnar á herbergjum 7, 9 og 10 leiddu hana og sýndu góða takta. Endaði kvöldvakan síðan á limbo keppni, en annar eins liðleiki hefur vart sést.
Eins og venja er hér við Eiðavatn endaði kvöldvakan á hugljúfri stund, sungin voru lög og Hjalti sumarbúðastjóri ræddi við börnin um ljósið eftir að Kristjana hafði sýnt krökkunum allt að því töfrabrögð með steinum tveimur.
Allir sofnuðu sáttir og sælir og góð ró var yfir nóttina.

Í dag, þriðjudag, hefur allt gengið eins og í sögu. Eftir morgunmat var haldið út í hina ótrúlegu Fáranleika, sem eru einhvers konar mótsvar okkar við Eiðavatn við ólympíuleikunum. Fáranleikarnir heppnuðust alveg fáranlega vel í þetta sinnið. Skór flugu af fótum sparkara, hlaupið var með egg (og engin brotin!), metárangur náðist í brúsahaldi og svona mætti lengi áfram telja.
Eftir hádegi var fræðslustund þar sem leiðtogar fóru á kostum í endurgerð á dæmisögu úr Matteusarguðspjalli. Var það haft að orði af einum snillingi í hópnum að leikritið væri öllu skiljanlegra en dæmisagan en viðkomandi þótti orðalagið heldur barnalegt í Biblíunni, enda ekki að undra; hún væri svo gömul!
Eftir fræðslustundina var farið í bakstur og fékk hvert og eitt barn tækifæri til að móta sitt deig og úr varð ýmis konar glæsilegt brauð. Þá var komið að þeim fasta lið sem brennó mótið er hér við Eiðavatn, en sigurvegarar mótsins fá að reyna sig á móti leiðtogunum í lok vikunnar, sem er auðvitað sérstaklega spennandi.
Þá er í hópnum afmælisbarn, hann Árni á afmæli í dag og hefur fengið að njóta sín vel og allir hafa notið góðs af fæðingardegi hans - súkkulaðikaka í kaffitímanum og lífið gæti ekki verið betra!

2. flokkur mættur á svæðið! 1. dagur.

Þá er 2. flokkur kominn til okkar að Eiðavatni. Hér er á ferðinni mikill fyrirmyndarhópur, svo stilltur er hann að við kynningu þennan morguninn á starfsemi sumarbúðanna efaðist sumarbúðastjóri um það hvort hópurinn væri almennt mættur á svæðið eða ekki - athyglisgáfan var slík.
Eftir kynningu á sumarbúðunum var boðið upp á dásamlegan hádegisverð ala Kristjana & Guðný. Þá var fyrsta fræðslustundin tekin með trompi og sýndi krakkarnir mikinn skilning á efninu þó þeim hefði þótt persóna Jóns Jónssonar hin furðulegasta.
Póstkassagerð var í aðalhlutverki í föndrinu en eftir það fékk hópurinn að kíkja í rústirnar hér rétt hjá sumarbúðunum þar sem farið var í stórskemmilegan leik.
Hláturinn ómar um sumarbúðirnar, allir eru hressir, kátir og spenntir fyrir vikunni framundan.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband