Algjör veisla

Í dag var „sunnudagur" hér á Eiðum. Hópurinn skipulagði guðsþjónustu sem Davíð Þór leiddi og voru krakkarnir ýmist í bænahóp, leiklistarhóp, tónlistarhóp eða skreytingarhóp.
Stundin var afskaplega vel heppnuð og áttu krakkarnir vel skilið allar kræsingarnar sem Kristjana og Guðný reiddu fram í dag úr eldhúsinu.
Um morguninn var haldið í báta út á vatni og fengu krakkarnir að prufa að róa og sýndu þar gríðarlega takta. Kubbmót var haldið í seinni útiverunni og var spennan mikil.
Þá var aðeins brotið upp á hefðbundna dagskrá og krökkunum leyft að horfa á síðari hálfleik og vítaspyrnukeppni í undanúrslitaleik Spánar og Portúgals, en við tengdum beina útsendingu við skjávarpa.
Fagnaðarlætin voru gríðarleg hjá áhangendum Spánar en stuðningsmenn Portúgals voru öllu svekktari. Grínið og glensið sem ríkti á kvöldvöku kvöldsins varð þó til þess að leikurinn gleymdist fljótt og hláturinn ómaði, enda tekið upp á ýmsu.
Kvöldið endaði eins og önnur á hugleiðingu, hugljúfri tónlist og bænum fyrir svefninn.
Nú eru allir sofnaðir og sáttir eftir frábæran dag hér við Eiðavatn.
Að endingu er rétt að minnast á það að einhver vandræði hafa verið með símann inn á skrifstofu hjá sumarbúðastjóra sem hafa orðið til þess að hann hefur ekki virkað eins og hann á að virka (síminn, þeas. ekki sumarbúðastjórinn - hann er í ágætis gír!). Er beðist velvirðingar á þessu hér með.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband