2.flokkur, 2.dagur

Hér við Eiðavatn er stemmningin að ná algjöru hámarki! Dagurinn byrjaði á því að við fengum að taka þátt í sýningu sem Ólöf Björk Bragadóttir og fleiri úrvals listamenn á Héraði og nágrenni standa að: Óskatré framundan, en hópurinn fékk að mála tréplatta sem munu mynda hús nornarinnar í sögunni um Hans og Grétu. Sýningin fer fram í Hallormsstaðaskógi og verður opnun kl.16 þann 15.júní næstkomandi, kjörið að kíkja á þessa sýningu þá eða einhvern tímann seinna í sumar en sýnt verður út sumarið.
Eftir hádegi var svo haldið í ótrúlega ævintýraferð, en þá fer helmingur hópsins út á vatn á árabáta á meðan hinn helmingurinn tók sér góða göngu út á tjörn þar sem var farið á kanó.
Báðir hóparnir skemmtu sér prýðilega og ekki var verra að njóta nestisins frá Kristjönu út í fallegri náttúrunni.
Að þessari ævintýraferð lokinni var haldin fræðslustund þar sem hann Bóas póstberi kíkti í heimsókn aftur með félögum sínum.
Nóg af stuði og nóg af stemmningu hér við Eiðavatn og alveg öruggt að það verða sælir krakkar sem fara að sofa í kvöld, vel lúin eftir frábæran dag.

2.flokkur mættur - stuð og stemmning!

Þá er 2. flokkur sumarsins mættur og fjörugri hópur er vanfundinn, því get ég lofað.
Krakkarnir mættu hressir til leiks og eftir góða og skemmtilega kynningu þar sem allir kynntu sig og sögðu smá af sér þá tók við dásamleg máltíð ala Kristjana og Guðný.
Það verður enginn svikinn af úrvalsmatnum þeirra, það er alveg ljóst.
Eftir hádegismat tók við fræðslustund og þar sáu krakkarnir Bóas bréfbera mæta á svæðið, hrikalega hress en svolítið áttavilltur - það er ekkert grín að reyna að rata til Nasaret.
Föndurstundin var skemmtileg en þar fengu krakkarnir að mála krukkur sem eiga eftir að koma meira við sögu í vikunni. Að lokum voru svo gerð dýrðarinnar skilti á herbergin en á þau munu leiðtogarnir smella stjörnum fyrir góða umhirðu í vikunni.
Þá tók við smá kaffitími, þó reyndar enginn hafi fengið sér kaffi (nema kannski Arnar leiðtogi) og núna eru allir úti í þrusu ratleik.
Hörkufjör - og nóg framundan!

Sól og sæla, stuð stuð stuð

Ævintýraflokkurinn er í miklu stuði. Sólin skín enn og allir vel sáttir og sælir með það.
Í gærkvöldi voru herbergi 4 og 10 með kvöldvöku - mikið var hlegið sem fyrr, sérstaklega sló síðasti leikurinn algjörlega í gegn og krakkarnir fengu sér hlæjandi kvöldhressingu.
Krökkunum brá heldur betur svo þegar þau voru nýskriðin undir sæng og voru orðin róleg og meira en til í að leggja sig, því þá komu leiðtogarnir og kölluðu á hópinn: Nú átti ekki að fara að sofa strax eftir allt saman heldur var óvænt vidjókvöld á dagskrá! 
Það leiddist engum og úr varð kósý vidjó stund fram á nótt. 
Nú í dag eru allir kannski smá eftir sig, enda búið að vera svo mikið stuð og stemmning á okkur.
Það hefur þó ekki stoppað hópinn í því að taka þátt í að skapa myndlist úti undir handleiðslu hennar Lóu, myndlistarkona- og kennara, en Lóa er að setja saman sýningu sem opnar í Hallormsstaðaskógi 15.júní. Hvetjum alla til að kíkja þangað og kíkja á þessi glæsilegu listaverk.
Eftir hádegi undirbjó hópurinn síðan guðsþjónustu sem fór fram í miklum hita, sól og sælu, út í náttúrukapellunni okkar hér úti skammt frá húsinu. 
Núna er svo í gangi brennómótið sívinsæla, sem er heldur betur góð skemmtun í svona veðri og ekki síður góð upphitun fyrir enn eina dýrindismáltíðina frá Kristjönu okkar.


Sjallalallala ævintýrin enn gerast! - 1.flokkur 2013 dagur 2

Hér við Eiðavatn er yndislegt að vera. Fuglarnir syngja fallega þessa daganna enda næg ástæða til; veðrið er frábært og við höfum fengið hingað til okkar í sumarbúðirnar frábæran hóp af fjörugum krökkum. 
Hér vinna allir saman að því að gera tímann sem eftirminnilegastan.
Í gærkvöldi var kvöldvaka sem herbergi 3, 8 og 9 sáu um. Mikið var hlegið og haft gaman - skemmtilegir leikir og söngvar réðu ferðinni. Krökkunum var síðan komið mikið á óvart þar sem haldið var svo út í Eiðahólmann sem oftar en ekki er kallaður Fjaðurey í seinni tíð. 
Þetta var mikið og skemmtilegt ferðalag. Þegar hópurinn sneri til baka beið okkar svo heitt kakó og skonsur ala Kristjana - verður varla betra!
Þetta var afskaplega kósý stund hjá okkur öllum rétt fyrir svefninn og það var ánægður hópur sem sofnaði í gærkvöldi.
Í dag hefur dagskráin verið þrususkemmtileg, búið er að halda fáranleika - alltaf jafn gaman af þeim.
Fræðslustund var eftir hádegi og Þórey Birna leiddi okkur áfram í skemmtilegu föndri. 
Að því loknu var stokkið af stað í Eiðavatn, í þetta sinn að vaða og njóta sólargeislanna. Nóg af D-vítamíni í því! 
Enn er nóg af ævintýrum framundan, svo það má sannarlega segja að þetta sé eins og í laginu:
Sjallalallala ævintýrin enn gerast! 

Fyrsti dagur 1.flokks!

Ævintýraflokkurinn í ár er mættur í góðu stuði! Óhætt er að segja að vikan hafi farið vel af stað enda er þetta veður ótrúlegt; þvílík rjómablíða!
Dagskráin í dag hófst á smá samhristingi þar sem hópurinn stillti strengi sína. Eftir úrvals hádegismat ala Kristjana og Þórey Birna var haldið út á tjörn þar sem allir sem vildu fengu að reyna sig á þá kanóa sem við erum með þar. Kristjana og Þórey Birna höfðu útbúið fyrir okkur dásamlegt nesti sem við nutum svo út í fallegri náttúrunni.
Þegar heim var komið tók enginn annar en Sigurður Ingólfsson á móti okkur og smellti nokkrum myndum af fyrir Austurgluggann. Módelhæfileikar hópsins leyndu sér ekki. 
Nú er kubbmót úti í sólinni og verður spennandi að sjá hvaða herbergi ber sigur úr býtum.
Dagskrá kvöldsins hefur svo að geyma ýmsar óvæntar uppákomur!

Það er ljóst að þetta verður frábær vika í sumarbúðunum við Eiðavatn!

Nýjungar sumarið 2013

Frumkvöðlaflokkur verður nú í fyrsta skipti fyrir 7-8 ára krakka (fædda 2005 og 2006). Frumkvöðlaflokkurinn er styttri en almennir flokkar eða 4 dagar (3 nætur), 18.-21. júní. Hann er tilvalinn fyrir þá sem eru að prófa sumarbúðirnar í fyrsta eða annað skipti! Í boði verða frábær verkefni, leikir og dagskrá fyrir þennan aldurshóp og auðvitað líka nægur tími til að leika sér og uppgötva umhverfið. - Verð: 24.500 kr.

Leiklistarflokkur verður einnig haldinn í fyrsta skipti dagana 23.-28. júní fyrir 10-13 ára krakka (fædda 2000-2003). Þar fær sköpunargáfan að njóta sín því að hluta dagsins verður varið í að æfa leikrit eða búa til stuttmynd! Afraksturinn verður svo sýndur foreldrum við lok flokksins. Að sjálfsögðu verða öll hin ævintýrin í sumarbúðunum á sínum stað og nægur tími til að fara út á bát, halda kvöldvökur og fara í alls konar leiki. - Verð: 34.000 kr.

MUNIÐ 10% AFSLÁTT EF PANTAÐ ER FYRIR 1. MAÍ!

Einnig er veittur 10 % systkinaafsláttur. - Sjá nánar flokkaskrána hér fyrir neðan! 


Flokkaskrá sumarið 2013

Sumarbúðir við Eiðavatn verða starfræktar á vegum Þjóðkirkjunnar í sumar eins og mörg undanfarin ár.

Markmiðið er nú sem fyrr að bjóða börnum og unglingum upp á ógleymanlega sumardvöl í fögru umhverfi, styrkja sjálfsmynd þeirra með fjölbreyttum verkefnum og bjóða þeim fræðslu um kristna trú.

Flokkaskrá sumarið 2013

TímiLengdAldurFæðingarárVerð
1. flokkur4.-7. júní4 dagar12-14 ára1999-200124.500Ævintýraflokkur
2. flokkur10.-14. júní5 dagar8-12 ára2001-200529.500 
3. flokkur18.-21. júní4 dagar7-9 ára2004-200624.500Frumkvöðlaflokkur
4. flokkur23.-28. júní6 dagar10-13 ára2000-200334.000Nýjung – Leiklistarflokkur!
       

Birt með fyrirvara um breytingar t.d. vegna aðsóknar

Skráning hefst 10. apríl í síma 892 3890 eða í tölvupósti: kirkjumidstod.austurlands@kirkjan.is

Við skráningu þarf að koma fram: Nafn, heimilisfang og kennitala barns – Nafn, sími og netfang forráðamanns.


Sumarbúðastuð sem aldrei fyrr

Hér við Eiðavatn er gleðin enn við völd. Fimmti flokkur fer á kostum og alltaf er verið að taka upp á einhverju skemmtilegu.
Í gærkvöldi voru krakkarnir sendir upp í rúm eftir stórskemmtilega kvöldvöku. En þegar upp í rúm var komið kom fljótt í ljós að ekki var allt með felldu, því leiðtogarnir voru búnir að skipuleggja óvænt vidjókvöld. Horft var á myndina Big Fish, krakkarnir fengu popp og djús og allir skemmtu sér vel - þó úthaldið hafi verið mismikið enda langur dagur að baki.
Fimmtudagsmorguninn byrjaði á því að Hjalti sumarbúðastjóri hvarf óvænt eftir morgunmatinn.
Krakkarnir fóru því í hlutverk björgunarsveitarmanna og héldu af stað í leit. Blessunarlega var nóg um vísbendingar sem að leiddi börnin áfram út í rústir þar sem þau fundu Hjalta og komu honum heim heilum á höldnu. Var þetta afskaplega lærdómsríkt og skemmtilegt.
Eftir hádegi var svo haldið af stað út að tjörn þar sem farið var á kanó. Kristjana og Guðný voru búnir að gera handa öllum nesti sem var svo borðað í Guðs grænni náttúrunni. Dásamlegt.
Þegar inn var komið eftir þennan leiðangur fengu krakkarnir að spreyta sig á því að þæfa, afskaplega róandi svona eftir langan dag og mikinn hamagang.
Í kvöld er svo komið að leiðtogakvöldvökunni sem verður engin smá bomba í þetta sinnið, en auk fastra liða verður hæfileikakeppni og diskótek í kvöld!
Sumarbúðastuð sem aldrei fyrr!

Hólminn sóttur heim - hörkufjör

Fimmti flokkur hefur staðið sig ótrúlega vel það sem af er vikunnar. Ótrúlega duglegur hópur og þægilegur til alls samstarfs.
Í gær hélt dagskráin áfram og var farið meðal annars í hið klassíska brennó-mót en sigurvegarar þess fær að spreyta sig á móti leiðtogum á föstudaginn. Leiðtogarnir eru kokhraustir en krakkarnir ekki síður viss um möguleika sína á móti „gamla" fólkinu.
Stemmningin var mikil á kvöldvökunni, hver leikurinn á fætur öðrum og mikið hlegið.
Krökkunum var síðan komið algjörlega í opna skjöldu strax að kvöldvöku lokinni en þá voru þau rekin af stað að klæða sig og haldið var af stað út í hólmann, sem gjarnan er kallaður Fjaðurey.
Þegar út í hólma var komið var kveiktur lítill varðeldur og áttum við góða stund saman í miðnætursólinni.
Hún Kristjana kann að taka á móti ævintýrafólki en þegar heim var komið biðu okkur skonsur og kakó. Dásamlegt, alveg hreint.
Nú í dag, miðvikudag, er sparidagur hér. Þegar þessi orð eru skrifuð er hópurinn úti í frisbó, sem er einhverskonar blanda af frisbó og fótbolta - feykispennandi leikur sem aldrei hefur verið spilaður hér við Eiðavatn áður. 
Á eftir verður svo guðsþjónustu sem krakkarnir munu undirbúa og er ekki nokkur vafi á því að sú þjónusta verði falleg.

5. flokkur mættur - nú hefjast ævintýrin!

Þá er fimmti flokkurinn kominn til okkar í sumarbúðirnar.
Þessi hópur virðist ætla sér að toppa sumarið glæsilega - þvílíkt fyrirmyndarfólk.
Gærdagurinn byrjaði heldur betur ævintýralega en fræðslan var færð til svo krakkarnir gætu skellt sér strax á báta. Það þótti engum leiðinlegt og eiginlega varð spennan og skemmtunin bara meiri eftir því sem vindurinn varð meiri. Sumir enduðu á því að fara að vaða í vatninu og úr varð hin mesta skemmtun.
Þegar inn var komið og búið að gæða sér á yndislegum kleinum var haldin fræðslustund og föndur.
Kvöldvakan var til fyrirmyndar en um hana sáu stelpurnar í herbergjum 9. og 10.
Tónlistarvalið var litríkt en það er óhætt að segja að Euphoria, eurovisionlagið sænska, hafi slegið í gegn.
Nú eru krakkarnir nýlagðir af stað í Fáranleikana og ljóst að toppdagskrá með toppkrökkum verði hér alla vikuna.
Meðal annars er stefnt á óvænta ævintýraferð í kvöld!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband