Færsluflokkur: Bloggar

Ævintýraflokkur að basla, en ekki í basli

Það var notalegt gærkvöldið hjá ævintýraflokknum, strákarnir héldu út á tjörn á kanóa á meðan stúlkurnar fóru á árabátum út í Fjaðurey. Báðir hóparnir nutu sín vel og þegar heim var komið beið rjúkandi heitt kakó til að ylja og kúmenbrauð með.
Hópurinn sofnaði vært og rótt eftir viðburðaríkan dag.
Í dag hélt hópurinn í Fáranleika sem er fastur liður hér í sumarbúðunum. Hádegismaturinn var ekki af verri endanum; kjúklingur og franskar. Borðskreytingar Jónu Bjargar slógu í gegn og hópurinn klappaði duglega fyrir matráðskonunum okkar.
Eftir hádegi vann hópurinn með tréplatta, hver með sinn fékk tækifæri til að þróa og vinna hann áfram og úr á eftir að verða afskaplega gott sæti - fullkomnir til að eiga rólega stund í íhugun.
Það er hinsvegar engin íhugun í gangi hér í búðunum núna því eftir skúffukökukaffitíma hélt hópurinn út að vaða og basla um í vatninu. Er hér að rætast langþráður draumur en hópurinn er búinn að biðja oftar en einu sinni og oftar en tvisvar um að fá að vaða hér og það var ákveðið að það væri nú ekki almennilegur ævintyraflokkur ef krakkarnir fengu ekki að dýfa eins og tveimur tásum ofan í vatn!
Framundan er svo dúndur kvöldvaka sem herbergi 3 og 7 mun sjá um.

 

2.flokkur, ævintýraflokkur!

Í gær mætti ævintýraflokkurinn keikur á svæðið og hefur staðið sig frábærlega enn sem komið er. Ævintýralega vel jafnvel.
Ævintýrin byrjuðu strax eftir frábæran hádegismat þar sem haldið var á árabáta og var það mikil skemmtun og fannst hópnum það afskaplega spennandi að fá að spreyta sig í því að róa.
Hópurinn er þó sem betur fer líka góður í því að vera einmitt rólegur og átti stórskemmtilega fræðslustund með hópeflisleikum þar sem við kynntumst öll hvort öðru betur.
Herberg 1, 8 og 10 sáu um fyrstu kvöldvökuna og gerðu það vel, mikið hlegið og gott stuð.
Það var sáttur hópur sem sofnaði og það segir sína sögu um stemmnnguna að það áttu allir afskaplega auðvelt með að sofna.
Þegar börnin vöknuðu kl.8:30 í morgun vissu þau ekki í þennan heim né annan; enda allt í rugli!
Dagurinn byrjaði nefnilega með vidjókvöldi og kvöldhressingu (að morgni til) og í framhaldinu var boðið upp á kvöldmat í hádeginu. Sannkallaður rugl dagur!
Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka sem herbergi 2 og 9 sáu um í glampandi sólskini. Í framhaldinu var boðið upp á morgunmat, klukkan að ganga 15:30.
Og nú er hópurinn í brennómóti og eftir hádegismatinn í kvöld, þá verður farið í kanóa og út á báta. Ævintýralegt í meira lagi og aldrei að vita hvað gerist hér við Eiðavatn!

 

Myndir, myndir, myndir

Hér má finna nokkrar myndir úr flokknum sem sýna og sanna svo um munar að mikil stemmning er búin að vera:
https://www.flickr.com/photos/132422697@N08/

 

Næst síðasti dagurinn!

Það er búið að vera mikið fjör - því hér eru jú fjörugir krakkar - og gengið stórslysalaust þó óvenju mikið hafi verið um heimsóknir á heilsugæsluna í þessum flokki; mest hefur það þó verið hláturkrampar og ofsakæti og allir sáttir; sérstaklega veiðimennirnir í flokknum sem hafa mokað inn bleikjum.

asi ad leika

Rétt er að láta vita af því að flickr-síða sumarbúðanna er virk núna og mun betra að skoða myndir af sumarbúðastarfinu þar í bili - við hlöðum myndum þar inn eins og við getum. Í dag var verið að veiða og ratleikurinn klassíski tókst vel - en eftir hádegi fórum við á kanóa á Tjörninni hér innfrá. Við höfum komist hjá mestu rigningunum og allir bera sig vel; jafnvel okkar slasaðasta fólk ;) enda ekkert nema ævintýri í gangi hér.

Þó venjulega teygist á því að börnin séu með heimþrá hefur ekki borið á því að ráði eftir heimsóknina í gær - og varla að morgundagurinn verði nóg fyrir alla; sum ætla reyna skrá sig aftur í sumar, en aðra farið að hlakka til að koma aftur að ári.

Við sendum bestu kveðjur frá krökkunum öllum og setjum inn nokkrar myndir hingað þegar færi gefst á því. Sumarbúðafólkið. 


Hæ, hó og jibbí jei!

Já, hér við Eiðavatn er gríðarlega góð stemmning enda dagarnir viðburðaríkir.
17.júní hefur hér í dag verið haldinn hátíðlegur og byrjuðu börnin daginn á því að kíkja á árabáta, fara að veiða (og búið að veiða heila tvo fiska, sem er algjört met!), spila kubb og í fótbolta. Kl. 12 var hátíðarmatur, kjúklingur og franskar og Kristjana og Jóna Björg búnar að gera salinn svo afskaplega glæsilegan.
Hóparnir undirbjuggu í framhaldi guðsþjónustu sem sr. Davíð Þór Jónsson leiddi, og fengust þau ýmist við myndlist og skreytingar, tónlist, leiklist og bænagerð.
Gafst þetta afskaplega vel og var mjög skemmtilegt.
Foreldrar voru boðnir sérstaklega velkomnir um miðdaginn og var það skemmtileg nýjung að fá þá í heimsókn í miðjum flokki. Boðið var upp á kökur og kaffi og sýndu börnin foreldrunum tímabundin heimkynnin.
Í framhaldinu hélt hópurinn út í rústir að skoða sig um og fara í leiki.
Allir hópar fá að skipuleggja kvöldvökur og hafa þær verið ávísun að miklu stuði. Framundan er ein slík í kvöld að kvöldverði loknum og óhætt að lofa áframhaldandi stemmningu!

 

Heimsókn á 17.júní!

dscn0768.jpgHeil og sæl, - það er búinn að vera viðburðaríkur dagur hjá okkur annan daginn hér í sumarbúðunum með mörgum ævintýrum... fleiri myndir koma inn á morgun en við viljum vekja athygli á því að foreldrum gefst tækifæri á að heimsækja okkur á morgun í tilefni af 17.júní. Það er nýlunda hér í búðunum og vonum við að það gefist vel.

Foreldrum er velkomið að kíkja við í kringum kaffitímann þegar guðsþjónusta hefur farið fram og er gert ráð fyrir að um stutt stopp verði að ræða fyrir þau sem eiga heimangengt. 

Guðþjónustan er samt öllum opin og hefst um klukkan 14.00 og kaffið er klukkan 15.00. Við gerum ráð fyrir að foreldrar séu síðan að yfirgefa svæðið fyrir klukkan 16.00.

Hittumst heil og gleðilegan þjóðhátíðardag! 

Sumarbúðastarfsfólkið.

 

1. dagur 1. flokks 2015

Já og þá eru sumarbúðirnar við Eiðavatn 2015 hafnar með glæsibrag, enda ekki að undra þegar jafn frískur og fjörugur hópur mætti og sá sem hingað kom í gær, mánudaginn 15.júní.
Hópurinn er heldur betur búinn að standa sig þennan fyrsta sólarhring sinn í búðunum, alveg hreint með prýði.
Þegar allir höfðu lokið við að koma sér vel fyrir var starfsemi sumarbúðanna kynnt fyrir hópnum inn á sal auk þess sem allir fengu tækifæri til að kynna sig, segja nafn sitt, aldur, afmælisdag, hvaðan þau kæmu og hvaða kvikmyndapersóna þau væru ef þau ættu að velja.
Mörg skemmtileg svörin spruttu fram og það var spenntur hópur sem fékk sér hakk og spaghetti ala Kristjana Björnsdóttir í hádegismatinn.
Að hádegismat lokið var brennómót haldið, en brennó er þjóðaríþrótt, ef svo má að orða komast, sumarbúðanna. Kaffitíminn var ekki síður góður og í fræðslustundinni eftir kaffitímann fengu krakkarnir tækifæri til að búa til skilti með nafni herbergisins og herbergisfélaganna.
Í fræðslunni fengu þau einnig að takast á við skemmtilegt myndlistarverkefni þar sem útlínur hvers og eins í hópnum voru rissaðar í stórt karton og verður áfram unnið á skemmtilegan hátt með þetta verkefni.
Kvöldmaturinn var Eiða-skyr (sérstaklega gott (þið takið kannski eftir því að það er sannkallaður veislumatur hér)) og pizzasnúðar. Herbergi 1 og 10 sáu um kvöldvöku í framhaldinu og var mikið hlegið og sungið.
Það var því þreyttur en ánægður hópur sem lagðist í rúmin hér við Eiðavatn í gærkvöldi.
Nú er þriðjudagsmorgun og hópurinn úti í fáranleikum þessa stundina - alveg fáranlega gaman!

Myndir af flokknum eru síðan væntanlegar í kvöld eða fyrramálið, ásamt fleiri blogg-færslum.

 

Fjórði dagur hjá fjörugum flokki

Enn gengur allt vel hjá flokkinum okkar fjöruga.
Loks viðraði vel til siglinga og hélt flokkurinn á kanóa og árabáta í morgunsárið. Allir þeir sem höfðu áhuga fengu tækifæri til að spreyta sig út á vatni eða tjörn og var það afskaplega sáttur hópur ungmenna sem mætti í hádegismat í framhaldinu. Í boði var steiktur fiskur - vel viðeigandi!
Að hádegisverði loknum var haldið áfram að fylgjast með ævintýrum Jósefs og eiga krakkarnir skilið orðu fyrir áhuga sinn og einbeitingu. Sérstaklega í ljósi þess hve dugleg þau voru að hlusta á Hjalta þegar hann talaði við þau um trúarleg tákn í myndlist (einhver hefði nú farið að hrjóta...).
Eftir kaffitímann var haldið út til þess að klára brennó-mótið - allt þar til þessi hellidemba skall á sem nú syngur úti. Framundan er kvöldvaka í boði stúlknanna í herbergjum 6 og 7, en fyrst er það pizza í kvöldmatinn. Þetta versnar ekkert, þetta sumarbúðalíf.

Þriðji dagur, sparistuð

Þvílíkur dagur!
Miðvikudagurinn mætti okkur fagur, en örlítið vindasamur eins og við áttum eftir að komast að því að eftir morgunmat var haldið í gönguferð út á tjörn. Gangan þangað er alltaf yndisleg, falleg náttúran allt í kring og frískandi andrúmsloftið.
Þegar hópurinn kom út á tjörn var stefnan að fara á kanó - en vindurinn blés, maður minn! Svo mjög að við komust ekki úr stað og enduðum á að grípa í veiðistangir og góða skapið og njóta náttúrunnar saman í rokinu sem flaug hópnum svöngum heim í hádegismat, sem var ekki af verri endanum. Kjúklingur og franskar, takk fyrir kærlega!
Hópurinn tók í framhaldi til við að undirbúa guðsþjónustu. Sumir brugðu sér í hlutverk leikarans og tóku þátt í leikhópi, aðrir skrifuðu og fluttu fagrar bænir. Sumir sungu með tónlistarhóp, aðrir skreyttu salinn glæsilega. Guðsþjónustan, sem  sr.Brynhildur okkar leiddi, var því hin glæsilegasta og krakkarnir sýndu magnaðan dugnað í þátttöku sinni.
Í framhaldinu var messukaffi - súkkulaðikaka og kanilsnúðar. Gourmet líf, gott fólk.
Í þessum skrifuðu orðum er hópurinn úti í Brennó-mótinu sívinsæla og treystum við því að kappið muni ekki bera fegurðina ofurliði. Kvöldvakan í kvöld er í höndum strákanna í herbergjum 3,4 og 5 og verður vafalaust dýnamísk skemmtun í alla staða.
Stemmningin hér á bæ er því eins og segir í laginu:
Gleði, gleði, gleði.

Annar dagur, alltaf stuð

Hópurinn hér við Eiðavatn er hinn hressasti. Við vöknuðum kl.8:30 við fagran söng Boga og Arnars, þar sem þeir félagar góluðu: Góðan dag!
Í morgunmat var margt góðgætið að finna, alltaf er sumarbúðablandan vinsælust.
Eftir góðan morgunmat var haldið út í ratleik. Hópurinn kepptist við að ná réttum svörum og gekk svo rosalega vel að við urðum hreinlega að gefa öllum íspinna í verðlaun.
Hádegismaturinn var lostæti en þá fengum við hakk og spaghetti, eða naglalakk og hakkettí eins og sumir kalla það. Kubbmót tók við eftir hádegið, leikir og almenn útivist. Við fengum frá Kristjönu dýrindisnesti til að taka með okkur í litlu fallegu útikapelluna okkar út í rjóðri.
Þegar inn var komið tók við fræðslustund, en leikritin um Jósef eru gríðarlega vinsæl þessa vikuna.
Bogi sagði okkur í framhaldinu frá heimsóknum sínum til Afríku og stóðu börnin sig afskaplega vel í því að hlusta, enda magnaður hópur sem kann bæði að vera í svaka stuði en eins að slaka á og njóta í rólegheitum.
Nú í kvöld verður í kvöldvaka í boði snillinganna hér í sumarbúðunum svo það er óhætt að lofa því að skemmtunin heldur ótrauð áfram!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband