Stuð & Stemmning - 2. dagur, 2. flokkur!

Kvöldvaka gærkvöldsins var í meira lagi eftirminnileg en stúlkurnar á herbergjum 7, 9 og 10 leiddu hana og sýndu góða takta. Endaði kvöldvakan síðan á limbo keppni, en annar eins liðleiki hefur vart sést.
Eins og venja er hér við Eiðavatn endaði kvöldvakan á hugljúfri stund, sungin voru lög og Hjalti sumarbúðastjóri ræddi við börnin um ljósið eftir að Kristjana hafði sýnt krökkunum allt að því töfrabrögð með steinum tveimur.
Allir sofnuðu sáttir og sælir og góð ró var yfir nóttina.

Í dag, þriðjudag, hefur allt gengið eins og í sögu. Eftir morgunmat var haldið út í hina ótrúlegu Fáranleika, sem eru einhvers konar mótsvar okkar við Eiðavatn við ólympíuleikunum. Fáranleikarnir heppnuðust alveg fáranlega vel í þetta sinnið. Skór flugu af fótum sparkara, hlaupið var með egg (og engin brotin!), metárangur náðist í brúsahaldi og svona mætti lengi áfram telja.
Eftir hádegi var fræðslustund þar sem leiðtogar fóru á kostum í endurgerð á dæmisögu úr Matteusarguðspjalli. Var það haft að orði af einum snillingi í hópnum að leikritið væri öllu skiljanlegra en dæmisagan en viðkomandi þótti orðalagið heldur barnalegt í Biblíunni, enda ekki að undra; hún væri svo gömul!
Eftir fræðslustundina var farið í bakstur og fékk hvert og eitt barn tækifæri til að móta sitt deig og úr varð ýmis konar glæsilegt brauð. Þá var komið að þeim fasta lið sem brennó mótið er hér við Eiðavatn, en sigurvegarar mótsins fá að reyna sig á móti leiðtogunum í lok vikunnar, sem er auðvitað sérstaklega spennandi.
Þá er í hópnum afmælisbarn, hann Árni á afmæli í dag og hefur fengið að njóta sín vel og allir hafa notið góðs af fæðingardegi hans - súkkulaðikaka í kaffitímanum og lífið gæti ekki verið betra!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband