Fjörugur fimmtudagur hjá fyrsta flokki!

Fyrsti flokkurinn átti svo sannarlega fjörugan fimmtudag.
Það voru fastir liðir að venju: Dagurinn byrjaði á fánahyllingu og morgunmat.
Eftir morgunmatinn var komið að tiltekt dagsins, en það hlýtur að vera erfitt að finna jafn dugleg börn og eru í þessum flokk. Herbergin eru búin að vera algjörlega til fyrirmyndar í vikunni og eiga börnin lof skilið fyrir frammistöðu sína í þeim efnum.
Síðar um morguninn voru haldnir fáranleikar, þar sem meðal annars var keppt í blindandi vítaspyrnukeppi, eggjaboðhlaupi, skósparki, ólívuspýtingum og fleiri alveg fáranlegum íþróttum.
Eftir dásamlegan hádegisverð var komið að miklu ferðalagi. Góð ganga, kíkt á kanóa á tjörninni þar sem allir sem vildu fengu að róa, nesti snætt, spjallað og rætt, í sólinni sæl og kát.
Fræðslustund fór því fram seinni part dags en eftir hana var farið í föndur dagsins þar sem öll börnin fengu að kíkja út, finna sér stein og mála hann síðan. Það er ekki orðum ofaukið að hér séu listamenn á ferðinni.
Það var flatbaka í kvöldmatinn og það leiddist engum. Kvöldvakan sló svo algjörlega í gegn en þar léku leiðtogarnir við hvurn sinn fingur.
Eftir stutta kvöldhugleiðingu frá sumarbúðastjóra héldu börnin þreytt en sátt upp í rúm, meira en tilbúin til þess að hvíla sig eftir viðburðaríkan dag.
Starfsmenn sumarbúðanna eru í skýjunum eftir vikuna - allt starfið hefur gengið framar björtustu vonum og það er þátttöku- og framkvæmdagleði barnanna að þakka.

3. dagur, 1. flokkur: Hvort er eiginlega miðvikudagur eða sunnudagur?!

Dagurinn í dag hefur verið dásamlegur, enda hátíðardagur mikill hér í sumarbúðunum.
Hefð er fyrir því að kalla miðvikudaginn hér í sumarbúðunum við Eiðavatn „sunnudag", enda skipuleggjum við og höldum guðsþjónustu hér þar sem börnin eru í aðalhlutverki.
Sr. Jóhanna var prestur í guðsþjónustunni og mun hugleiðing hennar án nokkurs vafa lengi lifa í minni barnanna. En eins og áður sagði voru börnin í aðalhlutverki; í leiklistarhóp, tónlistarhóp, bæna- og lestrarhóp og skreytingarhóp. Allir stóðu sig prýðilega og áttu vel skilið þær dásamlegu veitingar sem Guðný og Kristjana buðu upp á í dag. Meðal annars fengu börnin að bragða brauð sem þau sjálf mótuðu og bökuðu á þriðjudeginum. Brauðið var gott og lambasteik dagins alls ekki síðri!
Strákarnir á herbergi 1. sáu um kvöldvökuna og fóru á kostum, enda vel sáttir eftir sigur í brennómóti dagsins. Það var mikið hlegið, þá sérstaklega þegar Hr. Kanína kíkti í heimsókn en sá karakter gleður börnin meira en flest.
Kvöldið endaði að venju á stuttri hugleiðingu í bland við hugljúfa kvöldsálma, áður en haldið var í háttinn.
Allir sáttir og sælir eftir daginn, en bíða spenntir eftir áframhaldandi ævintýrum.



Sumarið 2012 hafið! Fyrstu tveir dagar 1.flokks

Jæja, þá er sumar í sumarbúðum hafið hér við Eiðavatn!
1. flokkur mætti sprækur til leiks mánudaginn 18. júní og hefur staðið sig ótrúlega vel fyrstu tvo daga sína. Þetta hafa verið frábærir dagar, enda breytist sumt ekki hér við Eiðavatn; maturinn er dásamlegur, umhverfið ótrúlegt og allir hressir og kátir, sama hvort um er að ræða leiðtoga eða börn.
Mánudagurinn byrjaði á móttöku og kynningu á sumarbúðunum. Eftir hádegismat var fræðslustund, en hana leiddi Davíð Þór ásamt Hjalta Jóni sumarbúðastjóra.
Stjarna fræðslustundarinnar var þó líklega Jón Jónsson þýðandi, persóna úr leikriti vikunnar sem Björn leiðtogi lék eftirminnilega og vakti mikla kátínu hjá börnunum.
Eftir útiveru og kvöldmat var komið að stúlkunum í herbergi 9. og 10. að leika listir sínar en þær sáu um kvöldvökuna fyrsta kvöldið. Heppnaðist kvöldvakan hreint ótrúlega vel og allir fengu að hlæja nóg.
Á hverju kvöldi enda svo allir á því að eiga rólega kyrrðarstund saman á sal þar sem sögð er stutt hugleiðing, hugljúfir kvöldsálmar sungnir og farið með bæn fyrir svefninn.

Þriðjudagurinn hófst á heldur betur hressandi hátt, en eftir morgunmat var lagt af stað í leiðangur.
Farið var í göngutúr að tjörn og þegar að tjörn var komið fengu börnin að róa á kanó.
Krökkunum fannst það ekki lítið skemmtilegt og voru fljót að ná lagi á þeirri íþrótt að róa.
Svangir göngugarpar mættu í enn eina dásamlega máltíðina hjá Kristjönu og Guðnýju það hádegið.
Fræðslustundin var á sínum stað og leikritið hélt áfram að gefa og gleðja.
Davíð Þór ræddi við börnin um mikilvægi þess að leyfa ljósi sínu að skína, en það má segja að ljósið hafi verið þema dagsins því Hjalti sumarbúðastjóri talaði eins um ljósið í kvöldhugleiðingu sinni.
Börnin voru öll sammála um það að hver og einn væri einstakur og hefði margt fram að færa, voru raunar ekki lengi að kenna leiðtogunum sitt hvað í öllum umræðum dagsins.
Kvöldvakan var ekki síðri annað kvöldið hjá strákunum í herbergjum 3. og 4. heldur en hún hafði verið það fyrsta. Mikið hlegið, mikið stuð.
Það má með sanni segja að hér við Eiðavatn sé gaman að vera, enda sofa allir nú, þegar þessi orð eru skrifuð, vært með bros á vör.



Fáni sumarbúðanna á Eiðavatni 2011 tilbúinn!

 

Öll börnin sem voru hjá okkur í sumar eiga sitt handafar hér á fánanum. P4300313


Sunnudagur- sparidagur

Dagurinn byrjaði á hefðbundinn hátt með morgunmat og fáránleikum. En frá hádegi héldum við sunnudag hátíðlegan, ekki af því að við séum orðin rugluð heldur er hefð fyrir því að hafa einn sparidag í hverjum flokki. Öll börnin og leitogarnir klæddu sig í betri fötin. Við fengum hátíðlegan hádegismat, sem börnin borðuðu vægast sagt með bestu lyst. Sagan segir að sum hafi farið fjórar ferðir. Og ís í eftirrétt.
Við undirbjuggum og vorum með guðsþjónustu og glæsilegar tertur í messukaffinu. Eftir kaffi var hópmyndataka í sparifötunum. En eftir það máttu börnin fara í sín venjulegu föt og ærslast á ný.
Þá var haldið brennómót 4. flokks. Úrslitin koma í ljós á morgun, en sigurliðið fær að keppa við lið leiðtoga á föstudag og er það að margra mati hápunktur vikunnar.
Eftir kvöldmat héldu síðustu herbergin kvöldvöku og svo var farið í háttinn eftir hugleiðingu og bænastund.
Við erum svo ánægð með þennan hóp. Okkur finnst þau svo kraftmikil og jákvæð og góður mórall í hópnum.

Dagur 2- og veðrið heldur áfram að leika við okkur :D

Morguninn byrjuðu börnin við fagran söng Hjalta aðstoðarsumarbúðarstjóra, sem vekur börnin með alveg nýjum og áður óþekktum morgunvísum. Það leggst yfirleitt vel í mannskapinn, en sum hefðu nú alveg verið til í að kúra lengur. Um leið og þau áttuðu sig á veðurblíðunni voru þau þó fljót að hendast í föt, fánahyllingu og morgunnæringu.
Í fyrri útiverunni skiptum við hópnum á báta og kanóa og verður að segjast eins og er að það gekk mun betur að róa í logninu í dag, en rokinu í gær. Öll börn komu þurr, þreytt og hungruð í hádegismatinn hennar Kristjönu. Við elskum matinn hennar og það kláraðist allt, hver einasta fiskibolla, hver einasta heimabakaða rúgbrauðssneið, hver einasta kartafla og hvert einasta hrísgrjón. Ef börnin væru ekki svona vel upp alinn hefðu þau sleikt diskana.
Eftir mat ákváðum við leiðtogarnir að nýta góða veðrið sem best. VIð snérum dagskránni á hvolf og fórum að vatninu að vaða. Fræðslan fór svo fram eftir kaffi, einnig úti.
Eftir kvöldmat og kvöldvöku, þar sem leikir og sprell héldu áfram, fórum við í rjóður-kirkjuna okkar og vorum með hugleiðingu fyrir háttinn.
Eftir þennan stórkostlega útivistardag erum börnin líka full heilbrigðri þreytu og lögðust glöð í koddan sinn.
Við hlökkum til ævintýra morgundagsins.

Fyrsti dagur 4. flokks!

Loksins loksins kom sumarið- auðvitað með 4. flokki. Við áttum alveg hreint frábæran dag, með frábærum hóp. Við settum sumarbúðirnar á hefðbundinn hátt, fengum fræðslu og vegna sérstakrar veðurblíðu eyddum við svo mestum hluta dagsins utandyra. Fórum í hópleiki og svo var hópnum skipt á bátana og kanóana. Eftir alla útiveruna og leikina voru börnin glorhungruð og borðuðu kvöldmatinn með bestu lyst.
Fastir dagsskrár liðir voru auðvitað á sínum stað og kvöldvakan var hress eins og hefðir gera ráð fyrir, með söng, leikjum og miklum hlátrasköllum.
Nú eru öll börn komin í ró og flest sofnuð, spennt fyrir morgundeginum.

Fimmtudagur í sumarbúðunum

Það var dimmt yfir þegar krakkarnir vöknuðu kl. hálf níu á fimmtudagsmorgni. En það breytti því þó ekki að mikil stemning var í krakkahópnum eins og fyrr. Eftir hina föstu liði morgunsins var farið í hina sívinsælu fáránleika þar sem keppt er í ýmsum skrýtnum íþróttum, s.s. blindandi vítaspyrnu, tuskukasti, breiðasta brosinu, rúsínuspýtingum og fl. Í hádegismat fengum við borgfirska soðna ýsu sem rann ljúflega niður hjá öllum börnunum. Eftir hádegismatinn var fræðslustundin góða og er óhætt að segja að börnin haldi vel athyglin á meðan fræðslan fer fram. Síðan var farið í skotbolta, og þeir sem komu með veiðstöng renndu fyrir fisk. Það er óhætt að fullyrða að það hafi verið ósköp lítið að hafa því enginn beit á. En veiðiferðin var skemmtileg og mikið ævintýri sem því fylgdi. Eftir ljúffenga pizzu var kvöldvaka í umsjón leiðtogana og var mikið hlegið að fyndnyum leikþáttum og skrýtnum búningum. Að því loknu fengu allir íspinna og fórum við svo út í rjóðrið okkar þar sem við áttum rólega stund fyrir svefninn. Var þetta góður dagur og börnin fljót að sofna.
Nú er runninn upp síðasti dagurinn. Það verður söknuður af þessum góðu börnum sem hafa verið mjög glöð og jákvæða þessa daga hjá okkur. Við þökkum fyrir samveruna og vonumst til að þau komi aftur til okkar að ári.


Þriðji dagur þriðja flokks - kanó, kjöt og kátir krakkar

Gærdagurinn (miðvikudagur) rann upp eins og fyrri dagar bjartur og fagur. Ekki voru margir vaknaðir þegar Hjalti ræsti mannskapinn kl. 8.30. Hófst dagurinn með venjubundnu sniði, þar sem fáninn var hylltur og fengið sér morgunverð. Þá tók við mikil ganga út að stórri tjörn hér sunnan við sumarbúðirnar, en þar eru nokkri kanóar sem krakkarnir fengu að leika sér á. Á meðan annar helmingurinn var í indjánaleik á tjörninni, sleiktu aðrir sólina á bakkanum og er óhætt að segja að það hafi verið hálfgerð Mexíco-stemning hjá okkur. Þegar heim var komið, drifu sig allir í fínni föt, settust svo við flott veisluborð þar sem stekt lambalæri var á borðum. Hófst þá undirbúningur að hátíðarmessu, þar sem allir lögðu sitt af mörkum til að messan yrði sem flottust, kór var skipaður, leikhópur lék Guðspjallið, lesarar lásu ritningarlestra og svo var hópur sem gerði salinn að kirkju. Messukaffið samanstóð af marengs, súkkulaðiköku og sírópslengju. Eftir kaffi var farið í mikið kapphlaup í númeraratleik sem gengur út á að finna með með númerum sem komið hafið verið fyrir í kringum húsið, leysa skemmtilegar þrautir. Það lið sem var fyrst til að finna 55 miða vann. Var mikið fjör og mikið kapphlaup í blíðunni hjá okkur í gær. Við tók pylsuveisla og kvöldvaka þar sem var mikið hlegið og sprellað eins og fyrri kvöld. Við breyttum svo út af vananum og áttum rólega kvöld stund í rjóðri hér skammt frá, þar sem börnin nutu náttúrunnar, veðurblíðunnar og góðrar stundar í lok dags. Það voru því sæl og þreytt börn sem gengu til náða rétt um kl. 22 í gærkvöld.

Við erum ákaflega glöð með hópinn, hann er skemmtilegur og gaman að hafa hvert og eitt barn með okkur í sumarbúðunum.


Annar dagur þriðja flokks

Það voru flestir vaknaðir og spenntir að takast á við verkefni nýs dags þegar Hjalti ætlaði að ræsa mannskapinn. Fyrsti heili dagurinn rann upp hlýr og fagur, þó sólin hafið aðeins látið bíða eftir sér. Að sjálfsögðu var fáninn okkar hylltur, þá var gengið til morgunverðar. Voru margir í hópnum sem fengu sér hafragraut í morgunmat, aðrir kornflögur en þó er sumarbúðarblandan (sem er blandað saman Coca puffs og Cherios) vinsælust. Eftir morgunmatinn tók við bátafjör eins og myndirnar okkar frá því í dag sýna svo glögglega þegar róið var út í Fjaðurey. Eftir hádegið tók svo við fræðsla með hressandi og skemmtilegum leikþætti og svo var föndruð falleg bókamerki sem foreldrar munu líta augum á föstudag.  Eftir kaffið var farið í gönguóvissuferð og ævintýraleiki út í rústunum og þar fengum við blankandi sól og spánarblíðu. Fórum við meðal annars í ratleik og spiluðum Kubb. Að kvöldverði loknum var kvöldvaka þar sem var fíflast, sprellað og umfram allt mikið hlegið. Það voru sæl börn sem lögðust til hvílu nú rétt fyrir kl. 22.

Við erum ákaflega glöð með krakkana sem taka þátt í sumarbúðunum. Þetta er fjölbreyttur hópur, en umfram allt eru þau kurteis og skemmtileg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband