Margt brallað á miðvikudegi

Fyrsta nótt barnanna í 1. flokki á Eiðum gekk ótrúlega vel. Vissulega þurftu sumir sinn tíma til að sofna en allir sváfu svo vært alla nóttina.
Bogi aðstoðarsumarbúðastjóri vakti hópinn kl. 8:30 með ljúfum gítartónum og morgunmatur var fram borinn kl. 9.
Þar sem nokkuð hefur rignt í dag hefur dagskráin að hluta til verið inni. Í morgun fór þannig fram hárgreiðslukeppni sem mjög margir tóku þátt í, fótboltaspilsmót á ganginum og perlur o.fl. föndur í boði.
Við fengum svo í heimsókn gestaleiðtoga, hana Hlín, sem stjórnaði Kubb-móti úti sem flestir kepptu í þrátt fyrir vætuna.

Hádegismatur dagsins var ljúffengur, steiktur fiskur en með honum borðuðum við m.a. heimabakað rúgbrauð.
Síðan var komið að fræðslustund dagsins þar sem sagan um Jósef hélt áfram í bland við söngva og bænir. Það er gaman að sjá hvað krakkarnir taka vel eftir og eru dugleg að svara þegar við spyrjum þau út úr sögu dagsins.
Í föndurstund dagsins var unnið að gerð vinabanda og herbergisfélagar unnu saman að merkispjöldum á dyrnar hjá sér.

Eftir heimabakað góðgæti í kaffitímanum hófst tiltekt á herbergjum sem menn sinntu af ótrúlegu kappi enda stjörnugjöf í húfi! Svo var kominn tími á að klæða sig í regnfötin og skella sér í meiri útivist. Æsispennandi brennómót fór fram á vellinum og knattspyrnutaktarnir rifjaðir upp að auki. Þrátt fyrir svalt og vott veður vildu margir síðan fara að vaða í vatninu í stígvélum og öðru tilheyrandi og reyndist það hin besta skemmtun.
 
Tortillur með öllu sem til heyrir voru í kvöldmatinn og svo skemmtileg kvöldvaka í umsjón herbergja 2, 5 og 10.
 
Bogi sagði okkur svo sögu úr Biblíunni fyrir svefninn og sýndi okkur smá biblíu-galdur :-)
Langflestir voru fljótir að sofna að þessu sinni.

Komnar eru myndir í albúmið 1. flokkur 2014!
 
Með sumarbúðakveðju, leiðtogarnir

Sumarbúðir 2014 rúlla af stað!

Kæru foreldrar, vinir og aðrir sem lesa!

Í morgun mætti fyrsti sumarbúðaflokkur ársins 2014 hingað til okkar í Eiða, frábærir og frískir krakkar sem ætla að dvelja hér fram á laugardag og njóta lífsins.

Dagurinn hófst með kynningu og samhristingi þar sem farið var í nokkra skemmtilega leiki á sal til að hrista hópinn saman. Svo var það fyrsti matartíminn þar sem við gæddum okkur á hakki og spagettíi.

Eftir hádegið fórum við í góða gönguferð inn að litlu tjörnunum þar sem kanóarnir okkar biðu og vildu langflestir spreyta sig við að róa slíku farartæki. Gekk það nú bara ágætlega - frumraun hjá mörgum í bransanum - sumir lentu í brasi í sefinu, en allir komu kátir og heilir í land að lokum.

Engan skal undra að kryddbrauðið og  jógúrtkakan í kaffitímanum rann ljúflega niður eftir kanó-gönguna. Síðan var komið að fræðslustund þar sem fyrsti hluti Jósefssögunnar úr Gamla testamentinu var leikinn og rætt um hann, sungnir söngvar o.fl. Eftir það unnið við föndur dagsins, myndaramma fyrir mynd af einhverjum sem okkur er kær, enda minnir sagan okkur á gildi fjölskyldubanda og vináttu.

Skyr og nýbakaðir pizzasnúðar sameinuðust í kvöldmatnum en á kvöldvöku stýrðu herbergi 1 og 9 skemmtilegum leikjum auk þess sem Arnór Snær og Aron Steinar sýndu frumlegan galdur! Deginum lauk með ávaxtahressingu og helgistund fyrir svefninn. Háttatími var kl. 22 og saga lesin á herbergjum, flestir fljótir að sofna en nokkrir lengur eins og gengur. Allir sofnuðu þó að lokum enda viðburðaríkur dagur að baki.

Því miður klikkuðum við á myndavélinni í dag en lofum að vera dugleg með hana á morgun og setja hér inn myndir annað kvöld.

Kveðja, Þorgeir, Bogi, Dagbjört, Snjólaug, Arnar Freyr, Kristjana og Jóna Björg.


Gleði, gleði, gleði

Gleðin, hún er hér!
Hér við Eiðavatn hefur verið mikil gleði í vikunni og ekki síst í dag á sjálfan sparidaginn okkar.
Þvílíkur veislumatur sem hefur verið á boðstólum í allan dag og ekki sér fyrir endann á veislunni.
Í morgun fóru krakkarnir í skemmtilega ferð hér út í rústir, þar sem þau virtu fyrir sér þennan furðulega stað og fóru í leiki. Eftir dásamlegan hádegismatinn var farið að undirbúa guðsþjónustu sem að sr. Þorgeir Arason leiddi. Bænahópur las pistil dagsins, tónlistarhópur leiddi söng og leiklistarhópur sýndi guðspjall dagsins í formi leikþátts. Afskaplega skemmtileg og góð stund sem við áttum öll saman. Krakkarnir tóku bæði virkan þátt og hlustuðu vel.
Það var svo leiklistin sem átti hug okkar allan núna seinnipartinn, en farið var í góða leiki og sérstaklega voru gerðar einbeitingaræfingar, það verða vel einbeittir snillingar sem snúa heim aftur nú á föstudaginn.
Rétt í þessu var hópurinn að halda út í veiðiferð og hver veit - kannski veiða þau eitthvað gott í matinn?

Í kvöld er á dagskránni kvöldvaka og svo á að koma öllum hópnum á óvart með vidjókvöldi - einhvern veginn grunar okkur að það muni verða virkilega óvænt ánægja!

Mánudagsgleði við Eiðavatn

Hópurinn er heldur betur í góðum gír hér á Eiðavatni. 
Dagurinn byrjaði alveg fáranlega, enda fáranleikarnir svokölluðu á dagskrá. Krakkarnir nutu góða veðursins og spreyttu sig í undarlegum íþróttum á borð við eggjaboðhlaup, blindandi vítaspyrnu og cheerios-gisk.
Eftir yndislegan hádegismat (fiskurinn hérna í sumarbúðunum er alveg ótrúlega bragðgóður) tók við fræðslustund sem fór að miklu leiti í leiklistarsmiðjuna okkar. Krakkarnir sýndu mikla hæfileika þar og sköpunargleði.
Í þessum skrifuðu orðum fer fram brennómót niðrá fótboltavelli og er óhætt að lofa svo áframhaldandi stuði, enda verður kvöldvökugleðin á sínum stað í kvöld.

Fyrsti dagur 4.flokks

Sunnudagar til sælu, sannlega. Nú er hér mættur fjórði flokkur sumarsins og þetta er heldur betur samansafn af snillingum, það sér hver maður um leið. 
Dagurinn hefur rúllað vel af stað, frábært veðrið hjálpar þar mikið til - þó það hafi verið ögn hvasst út á vatni en við byrjuðum dagskránna núna eftir hádegi á því að kíkja í árabátana. Krakkarnir stóðu sig gríðarlega vel í að róa enda sumir greinilega reynsluboltar í þeim efnum. 
Eftir sannkallað sælkerakaffi, skonsur og skúffukökur, tók hópurinn til við að gera skilti til að merkja herbergin. Því næst á að af stað í áframhaldandi útiveru í dásamlegu veðri. Hver verður kubbmeistarinn 2013? Það verður spennandi að sjá.
Kvöldið lítur svo vel út - urrandi hress kvöldvökuskemmtun framundan.

Sæludagur í sumarbúðum

Lífið gengur sinn gang hér í sumarbúðunum við Eiðavatn.
Nú í dag var sérstakur dagur en eftir hádegið undirbjuggu krakkarnir guðsþjónustu; leik, söng og bænir. Allt gekk ótrúlega vel og var sérstaklega gaman að fá hann Sr.Vigfús til að leiða stundina.
Maturinn er alltaf jafn ótrúlega góður og hefur þessi dagur verið sérstök veisla, enda svokallaður sparidagur. Þá fóru allir krakkarnir í sturtu, hrein og fín föt og nutu þess að borða úrvals kjúkling.
Myndir voru teknar af hópnum við þetta tilefni sem rata munu svo á síðuna.
Nú í morgun voru fáranleikarnir haldnir hátíðlegir - ótrúlega skrýtnir ólympíuleikar þar á ferð.
Mál málanna einmitt núna er hinsvegar kvöldvaka leiðtoganna en krakkarnir eru virkilega spenntir fyrir að sjá hvaða grín og glens leiðtogarnir hafa að geyma upp í erminni.

2. dagur hjá 3.flokki - ennþá meira stuð!

Já það vantar ekki fjörið hér í sumarbúðirnar.
Það má segja að dagurinn í dag hafi verið hálfgerður bátadagur því við byrjuðum í morgun á því að kíkja út á árabátana og núna var hópurinn að koma inn eftir skemmtilega ferð á tjörn þar sem allir fengu að prufa að róa á kanó.
Báðar ferðirnar gengu ótrúlega vel, enda krakkarnir hressir, duglegir að hlusta og læra.
Póstberinn Bóas er búinn að slá í gegn í vikunni og kíkti aftur í heimsókn í fræðslustundinni. Þar læra börnin ýmislegt mikilvægt um gildi lífsins, það er sungið og horft á leikþáttinn um Bóas og félaga.
Kvöldvakan í gær var algjör hlátursbomba og óhætt að fullyrða að kvöldið í kvöld verður jafn hressilegt.
Á meðan þessi orð hér eru skrifuð leggja börnin lokahönd á óskasteina sem þau hafa þæft alveg sjálf, reyndar með smá hjálp frá snillingunum Þóreyju Birnu og Kristjönu.
Hópurinn er sæmilega dasaður eftir þennan viðburðaríka dag og hlakkar til að gæða sér á gómsætum kvöldmatnum ala Kristjana.

3.flokkur mættur í hús, nú verður gaman!

Nú er hingað mættur 3.flokkur sumarsins. Þetta er ótrúlega flottur hópur af ungu fólki sem ætlar sér greinilega að gera góða viku með okkur starfsfólkinu.
Dagurinn byrjaði á því að við kynntumst öll og fórum í skemmtilega leiki. Svo kynntumst við aðalkonunum hér í sumarbúðunum: Kristjönu og Guðnýju. Þær gáfu okkur dýrindishádegismat og það voru saddir krakkar sem mættu í fyrstu fræðslustundina. Bóas póstburðarmaður var í ægilegum vandræðum og hópurinn hló nú mikið af grey kallinum. Eftir góða fræðslustund tók við ýmiskonar skemmtilegt föndur, meðal annars var hin klassíska skilta gerð þar sem krakkarnir bjuggu til skilti á herbergin sín.
Eftir kaffitímann var síðan haldið út í rústir, heldur betur spennandi ferðalag þar á ferð. Þar var farið í litaleik og fleiri góða út í náttúrunni. Allir að njóta góða veðursins, þó að blási smá.
Vikan lítur dásamlega út, hópurinn er sprækur og viðmótsljúfur og gefur heldur betur fögur fyrirheit.

Fjör á fimmtudegi

Áfram rúllar lífið hér á Eiðum og enn er gleðin við völd.
Dagurinn byrjaði á veiðiferð hjá öllum þeim sem tóku veiðistöng með sér. Því miður veiddum við ekkert að sinni, nema þá góða stemmningu og skemmtilega lífsreynslu.
Aðrir nældu sér líka í stemmningu og lífsreynslu niðrá velli þar sem var gripið í marga skemmtilega leiki. Stórfiskaleikurinn sló algjörlega í gegn þegar stórfiskurinn Hjalti sumarbúðastjóri mætti á svæðið og tók góðan sprett eftir snöggum krökkunum.
Maturinn hér í sumarbúðum er alltaf jafn bragðgóður og það er fátt sem að toppar fiskibollurnar hennar Kristjönu. Fræðslustund var eftir hádegi þar sem börnin fræddust um lífsgöngu Jesú og enn á ný lét Bóas sjá sig. Þórey Birna leiddi föndurstundina og sýndu börnin lipra myndlistartakta.
Taktarnir voru ekki síðri í hárgreiðslukeppninni sem síðan tók við en þar litu margar stórkostlegar greiðslurnar dagsins ljós. Sumar flippaðar, aðrar fágaðar.
Já, það er óhætt að segja að alltaf sé eitthvað spennandi og skemmtilegt í gangi hér við Eiðavatn!

Guðsþjónustu-stuðdagur

Hér við Eiðavatn er enginn venjulegur dagur. Hún Kristjana okkar á nefnilega afmæli og við hófum öll daginn á því að syngja fyrir hana afmælissönginn, hátt og snjallt.
Að morgunverði loknum tók við föndur sem Þórey Birna leiddi áfram af mikilli snilli og verður spennandi að sjá hvað mun spretta út frá því...
Fáranleikar voru síðan haldnir, en það eru alveg fáranlegar íþróttagreinar á borð við ólívuspýtingar, blindandi vítaspyrnu og eggjaboðhlaup sem ráða ferðinni þar.
Hádegismaturinn var alveg spari - kjúklingur og franskar, enda guðsþjónusta haldin seinni partinn.
Hópurinn undirbjó guðsþjónustuna: Sumir voru í leiklistarhóp, aðrir í bænahóp, eins var hægt að vera í tónlistarhóp og að lokum í skreytingarhóp. Allir hópar stóðu sig með prýði og úr varð hin fallegasta stund.
Það er ekki leiðinlegt að fá vöfflur og skúffukökur svo í kaffinu, ónei!
Dagskráin heldur svo áfram, næst á dagskrá er kubbmót og því fylgir æsispennandi kvöld, kátína á kvöldvöku - bókað mál!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband