Sumarbúðir 2014 rúlla af stað!

Kæru foreldrar, vinir og aðrir sem lesa!

Í morgun mætti fyrsti sumarbúðaflokkur ársins 2014 hingað til okkar í Eiða, frábærir og frískir krakkar sem ætla að dvelja hér fram á laugardag og njóta lífsins.

Dagurinn hófst með kynningu og samhristingi þar sem farið var í nokkra skemmtilega leiki á sal til að hrista hópinn saman. Svo var það fyrsti matartíminn þar sem við gæddum okkur á hakki og spagettíi.

Eftir hádegið fórum við í góða gönguferð inn að litlu tjörnunum þar sem kanóarnir okkar biðu og vildu langflestir spreyta sig við að róa slíku farartæki. Gekk það nú bara ágætlega - frumraun hjá mörgum í bransanum - sumir lentu í brasi í sefinu, en allir komu kátir og heilir í land að lokum.

Engan skal undra að kryddbrauðið og  jógúrtkakan í kaffitímanum rann ljúflega niður eftir kanó-gönguna. Síðan var komið að fræðslustund þar sem fyrsti hluti Jósefssögunnar úr Gamla testamentinu var leikinn og rætt um hann, sungnir söngvar o.fl. Eftir það unnið við föndur dagsins, myndaramma fyrir mynd af einhverjum sem okkur er kær, enda minnir sagan okkur á gildi fjölskyldubanda og vináttu.

Skyr og nýbakaðir pizzasnúðar sameinuðust í kvöldmatnum en á kvöldvöku stýrðu herbergi 1 og 9 skemmtilegum leikjum auk þess sem Arnór Snær og Aron Steinar sýndu frumlegan galdur! Deginum lauk með ávaxtahressingu og helgistund fyrir svefninn. Háttatími var kl. 22 og saga lesin á herbergjum, flestir fljótir að sofna en nokkrir lengur eins og gengur. Allir sofnuðu þó að lokum enda viðburðaríkur dagur að baki.

Því miður klikkuðum við á myndavélinni í dag en lofum að vera dugleg með hana á morgun og setja hér inn myndir annað kvöld.

Kveðja, Þorgeir, Bogi, Dagbjört, Snjólaug, Arnar Freyr, Kristjana og Jóna Björg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband