Færsluflokkur: Bloggar

4.flokkur mættur fjörugur á svæðið

4.flokkur mætti í sumarbúðirnar í dag. Hópurinn er stór, öflugur og ekki síður stórglæsilegur. 
Eftir að allir voru búnir að koma sér fyrir var haldið inn á sal og hópurinn hristi sig rækilega saman. 
Eftir að allir fengu að kynna sig og kynnast öðrum var haldið í hádegismat. Yndislegur fiskur, karrýsósa, hrísgrjón, kartöflur, salat - gæti ekki verið betra. 
Að hádegisverði loknum fengum við að verða vitni að ævintýrum Jósefs sem við ætlum að fylgjast með í vikunni. Börnin fylgdust vel með og voru afskaplega dugleg við að svara hinum ýmsu spurningum. 
Í framhaldinu fórum við út í eina krónu og að því loknu var tekið við skiltagerð, en hvert herbergi fær sitt skilti auðvitað. 
Kaffitíminn var sérstaklega ljúffengur, sódakaka og kryddbrauð klikkar auðvitað alls ekki. 
Nú er hópurinn í ævintýraferð, út í rústum. Þangað er alltaf spennandi að kíkja. 
Eftir kvöldmatinn verður kvöldvöku stemmning í boði herbergja 1,2 og 3 og það er klárt mál að þar verður eytt nóg af orku. Enda vel við hæfi enda fylgja rólegheit par excellance eftir kvöldvöku og allir halda sáttir í svefninn.

Yndisleg vika með frábærum hóp

Tíminn flýgur og upp er risinn fagur föstudagur. 
Gærdagurinn var með besta móti. Við fengum sérstaklega góða heimsókn; hún Sigga Lára, leiklistarséní með meiru, kíkti á okkur og fór með okkur í hinar ýmsu leik- og spunaæfingar. 
Í gær var enginn venjulegur fimmtudagur, því það var sparidagur. Kristjana hóf veisluna í hádeginu með kjúlla og fröllum. Pakksaddur hópurinn fór í framhaldinu í brjóstsykursgerð með Boga sælgætisgerðarmanni. Niðurstaðan var prýðileg, algjört sælgæti! 
Í framhaldinu var guðsþjónusta sem presturinn okkar frábæri Þorgeir leiddi. Krakkarnir tóku allir virkan hóp með leikriti, bænalestri og tónlistarflutningi. Guðsþjónustukaffið var ekki af verri endanum; dýrindis súkkulaðikaka. 
Nú þótti kominn tími á að nýta veðrið sem var yndislegt. Því hélt hópurinn niður að vatni og tók til við að vaða og njóta sín. Kjörið að eyða smá orku áður en kvöldmaturinn mætti á svæðið: ilmandi flatbökur!
Leiðtogakvöldvakan var gríðarlega hress og mikið var hlegið. Vinsælasta atriðið var þó án nokkurs vafa frá Kristjönu í lok kvöldvökunnar, en hún ákvað þá að bjóða upp á rjómaís. 


Nú í dag hefur hópurinn notið þess að kanna leiklistarhæfileika sína enn frekar undir handleiðslu Siggu Láru og er í þessum skrifuðu orðum verið að þróa áfram leikrit.
Þessi vika endar því dásamlega, enda  vel við hæfi; dásamlegur hópur.

Hörkufjör á heimavist

Það er frábær hópur ungmenna sem er lagstur til hvílu hér við Eiðavatn, eftir langan og skemmtilegan dag. 
Sumarbúðablandan er alltaf jafn vinsæl í morgunsárið og ekki síður var gladdi það hópinn að heyra að halda ætti á kanó eftir morgunmatinn. Út að tjörn var haldið og fengu allir að spreyta sig og létu ekki örlítinn vind slá sig út af laginu. 
Fiskurinn í hádeginu var ekki bara vel steiktur, hann var í alla staði yndislegur - þvílíkt lostæti. Kristjana hættir ekki að toppa sig. 
Eftir hádegismat héldu krakkarnir áfram að fylgjast með afdrifum Jósefs; sá kann að koma sér í vandræði og nýttur leikhæfileikar leiðtoganna vel í að koma til skila þessari sígildu sögu. 
Í framhaldinu var Hjalti með hressan og fræðandi fyrirlestur um tákn og birtingarmyndir þeirra í daglegu lífi og ekki síst hvernig þau birtast okkur í myndlistinni. Krakkarnir eiga heiður skilið fyrir athygli sína og þátttöku. Eftir skemmtilega hópeflisleiki tók hópurinn til við að þæfa ull utan um bænasteina. Afskaplega róandi stund og afköstin fögur. 
Ratleikur dagsins var að loknum kaffitíma og skemmti hópurinn sér með prýði. 
Þá var kvöldvaka kvöldsins hin hressasta en öll herbergin komu að henni með einum eða öðrum hætti. Mikið hlegið og það var ljóst eftir helgistund kvöldsins að krakkarnir voru heldur betur búnir að eyða orku í gleði þennan dag, enda tóku allir því nokkuð fagnandi að leggjast upp í rúm og hvíla sig fyrir frábæran fimmtudag.

Dagur 2: Hörkustuð og hamingja

Hér við Eiðavatn er blessuð blíðan og öllum líður vel.
Dagurinn byrjaði á sérstaklega góðum morgunmat og morgunstund í framhaldinu. Í morgunstundinni var meðal annars kíkt í skemmtilega leiklistarleiki.
Brennó-mótið var á sínum stað í hressandi útiveru og hakk og spaghetti klikkar ekki í hádeginu.
Eftir hádegi tók við frábær fræðsla í boði Boga um tónlist og trú. Ýmsir tónlistarmenn og hljómsveitir komu þar við sögu: Kanye West, Depeche Mode, Johnny Cash, U2 og fleira gríðarlega skemmtilegt.
Nú sperra allir hér við Eiðavatn eyrun á annan hátt en áður þegar dægurlagatónlistin ómar úr viðtækjunum.
Eftir þessa gríðarlega skemmtilegu fræðslu var kíkt í ýmsa góða leiklistarleiki, meðal annars traust-lestina sem var sérstaklega vinsæl!
Eftir alla þessa skemmtilegu leiki var ekki síður skemmtilegt að fá dýrindis kökur ala Kristjana enda mikilvægt að fá smá orku fyrir ratleik.
Ratleikurinn reyndi á ýmsa hæfileika og nú er komið að kvöldmat.
Eftir kvöldmat ætla stúlkurnar í herbergjum 8,9 og 10 að halda stuðinu uppi á kvöldvöku. Það vantar ekki fjörið hér við Eiðavatn!

Listaflokkur mætir í hús!

Listaflokkur var boðinn velkominn í dag og augljóst er að hér er um að ræða lífsglaðan og öflugan hóp barna.
Eftir skemmtilega hópeflisstund þar sem farið var í hressilega leiki, sem reyna á leikræna tjáningu þátttakenda, og börnin voru kynnt fyrir starfseminni hér í sumarbúðum var komið að hádegismat: fiskibollur ala Kristjana, takk fyrir!
Það var lagt af stað í ferðalag í framhaldinu, á árabátum hvorki meira né minna. Haldið var í Eiðahólmann, öðru nafni Fjaðurey, og skoðuðu krakkarnir sig um og rákust meðal annars á fuglsunga sem skoppaði um hólmann.
Svangir ferðalangar fengu yndislega hjónabandssælu (galdurinn er í kókosnum vill sumarbúðastjóri meina) og kryddbrauð. Að því loknu fékk hópurinn listræna útrás og skapaði glæsileg herbergisskilti, hvert með sínu nafni.
Núna er hópurinn enn að njóta þess blíða veðurs sem okkur hefur mætt í dag, að þessu sinni á fótboltavellinum þar sem keppt er í kubb.
Í kvöld fellur það í skaut kappanna í herbergi 4 að undirbúa og stýra kvöldvöku, sem verður vafalaust skemmtun á heimsmælikvarða.
Hér við Eiðavatn eru því allir í góðum gír; þakklátir fyrir fallegt veður sem umlykur fallega náttúru og frábæran hóp. Nánasta framtíð er klárlega björt; þetta verður góð vika.


Alla leið frá Kenya og yfir í kanó

Eins og segir í laginu: Sjalalalala - ævintýrin enn gerast!
Það má með sanni segja að ævintýrin gerist hér enn. Morguninn byrjaði grenjandi. Blessunarlega voru það ekki krakkarnir, heldur rigningin úti. Þvílík demba!
Því fengu krakkarnir að ferðast í huganum á hlýrri slóðir eftir morgunmatinn. Haldið var alla leið til Kenya og Eþíópíu, en hann Bogi okkar hefur þangað farið nokkrum sinnum. Bogi sagði okkur frá ferðum sínum, sýndi myndir, myndbönd og minjagripi. Krakkarnir voru virkilega áhugasamir, alveg til fyrirmyndar.
Eftir þessa heimsókn, alla leið til Afríku, tóku krakkarnir þátt í Ævintýralegri spurningakeppni þar sem þau voru spurð út í vikuna. Síðasta spurningin var án nokkurs vafa sú einfaldasta en jafnframt sú besta, enda náðu allir að svara henni hárrétt: Hvaða flokkur er það sem hefur verið algjörlega til fyrirmyndar hér við Eiðavatn í vikunni?
Auðvitað Ævintýraflokkurinn 2014.
Eftir hádegismat, yndislegan steiktan fisk, var haldið út á tjörn þar sem allir fengu að spreyta sig á kanó. Hópurinn tók með sér dýrindis nesti frá Kristjönu og Guðbjörgu og var enginn svikinn af þessari útiveru. Yndislegt.
Nú styttist í ratleik sem hefur verið sérstaklega settur saman fyrir þennan flokk; þetta er í fyrsta sinn við Eiðavatn sem þessi tiltekni ratleikur hefur verið spilaður og er hann þó nokkuð ólíkur þeim sem hafa verið hér í gegnum tíðina. Mjög spennandi. Eftir ratleik bíða krakkanna ilmandi flatbökusneiðar og ekki er verra að fá ís í eftirrétt!
Kapparnir í herbergjum 7,9 og 10 sjá um kvöldvöku og að henni lokinni verður diskótek, hvorki meira né minna. Orðið á götunni er að DJ Boogie Boogie muni haldi uppi stuði.
Stuðið verður kannski örlítið á rólegri nótunum, en engu síður jafn fallegum, á helgistund um kvöldið.
Við leyfum okkur að fullyrða að allir fari sáttir og sælir að sofa í kvöld við Eiðavatn.

Hátíð og húllumhæ

Hér í sumarbúðunum við Eiðavatn er það enn gleðin sem öll völd hefur.
Hópurinn vaknaði eldhress við fagurt gítarspil og söng Boga. Ekki amalegt það.
Þá tók við morgunverðurinn og alltaf er sumarbúðablandan jafn vinsæl.
Eftir góða morgunstund saman þar sem hópurinn stillti strengi sína var haldið út á vatn og fengu allir að reyna sig á árabátunum. Ljóst er að hér er öflugur siglingahópur á ferðinni, þó sumum hafi gengið verr að skila sér aftur í land en öðrum, enda ævintýralegt að taka sér sinn tíma í að komast til baka (sér í lagi hafi maður verið upptekinn við að kanna hólmann).
Dagarnir hér við Eiðavatn eru allir sérstakir, en þessi er sérstaklega sérstakur. Enda er í dag mikill hátíðardagur: sparidagurinn sjálfur. Því fengum við dýrindis kjúkling og franskar í hádegismat. Að hádegisverði afstöðnum var tekið til við að undirbúa guðsþjónustu en krakkarnir spiluðu þar lykilhlutverk:
sá um tónlist, bænir, ritningalestur, leikrit, skreytingar og fleira til.
Góðri guðsþjónustu fylgir gjarnan glæsilegt messukaffi og ekki vorum við svikin af því. Kristjana og Guðbjörg eru alveg að toppa sig þessa daganna.
Brennómótið er ómissandi þáttur af sumarbúðaupplifuninni og var hart tekist á, en þó bar kappið ekki fegurðina ofurliði.
Eftir kvöldmat er stórleikur á dagskránni: Eiða-Quidditch! Eiða-Quidditch er sérstök útgáfa af kappleiknum Quidditch sem að spilar stórt hlutverk í sögunum af Harry Potter.
Þá verður eins boðið upp á að horfa á stórleik dagsins á HM: England - Uruguay.
Kvöldvakan verður í umsjá herbergja 5,6 og 8. Hláturinn mun vafalaust óma um húsið og sungið verður dátt.
Rúsínan í pulsuendanum er svo óvænt vidjókvöld sem tekur við að lokinni kvöldhressingu. Það vantar svo sannarlega ekki stuðið og stemmninguna hér við Eiðavatn. 


Ævintýraflokkur - 1. dagur

Hingað er kominn öflugur hópur, sannkallaður ævintýraflokkur. 
Dagurinn byrjaði ævintýralega, því hvað er ævintýralegra en að kynnast nýjum vinum? Hópurinn hristi sig saman með skemmtilegum leikjum og að því loknu var dýrindis lasagna borið fram ala Kristjana Björnsdóttir. 
Enginn svekktur með það.  
Bogi er maður margra hæfileika og sýndi það og sannaði eftir hádegi þegar hann leiðbeindi hópnum í brjóstsykursgerð. Meðfram því leiddi Hjalti mannréttindafræðsluleikinn ‘Taktu skref áfram’, sem gaf krökkunum tækifæri til að samsvara sig með fólki í ólíkum aðstæðum og sköpuðust virkilega skemmtilegar samræður út frá honum sem sýndu svo ekki um munaði að í þessum hópi ævintýralegra einstaklinga eru allir meðvitaðir og þenkjandi varðandi hinu ýmsu siðferðilegu álitaefni. 
Þá var eins leikjasmiðja úti þar sem allir fengu næga útrás. 
Kaffitíminn er alltaf yndislegur hér við Eiðavatn, þó merkilega lág prósenta íbúa drekki í raun kaffi. Sem er reyndar auðvitað hið besta mál, svona miðað við meðalaldurinn hér í sumarbúðunum. 
Eiða-Kubb er ekkert venjulegt kubb og því fengu krakkarnir að kynnast. Í Eiða-Kubb þarf maður að takast á við sérstakar þrautir og útkoman oft hin skrautlegasta. 
Uppáhaldstími unglinganna er sá frjálsi og hann er alltaf nýttur vel í allskyns leiki. 
Kvöldmaturinn var dýrindis súpa og ekki veitti af því að fá smá auka orku, því eftir kvöldmat þurfti að undirbúa kvöldvöku. Kvöldvakan var leidd af stúlkunum í herbergi 1,2,3 og 4 og var mikið hlegið, enda skemmtunin gríðarleg! 
Í framhaldinu var hin notalegasta helgistund fyrir svefninn og var hópurinn sáttur og sæll þegar hann hélt í rúmið að loknum fyrsta deginum. Ýmis ævintýri liggja þó í loftinu og ljóst að þessi dagur var aðeins upphitun fyrir það sem koma skal. 

Brjóstsykursgerð, diskótek og blessuð blíðan

Lífið leikur við okkur hér við Eiðavatn.
Það er ljóst að vikan hefur gengið vel, hér hefur mótast sannur samfélagsandi og góður taktur í hópnum.
Svo sakar ekki að hafa þetta dásamlega veður.
Hjalti og Jóna mættu á svæðið nú í morgun og óhætt er að segja að vel hafi verið tekið á móti þeim.
Eftir góða útiveru í morgun og frábæran hádegismat (fiskibollur ala Kristjana, gæti ekki verið betra) var komið að virkilega skemmtilegum dagskrárlið en þá tók Bogi aðstoðarsumarbúðastjóri sig til og fór með hópinn í brjóstsykursgerð, en Bogi hefur gjarnan verið kallaður Bogi Brjóstsykur, svo hæfileikaríkur er hann við þessa miklu list.
Kaffitíminn var sérstaklega glæsilegur, enda afmælisbarn í hópnum: Eyþór Magnússon fagnar hér í dag 8 ára afmæli sínu. Hópurinn söng hátt og snjallt fyrir kappann og fékk hann að gjöf kórónu sem hafði að geyma nöfn allra krakkanna.
Í þessum skrifuðu orðum er í gangi spennandi ratleikur. Að kvöldverð loknum tekur við síðasta kvöldvaka flokksins og mun hún enda með diskóteksstemmningu par excellance.
Það er því óhætt að fullyrða að það verði sátt, sæl og afkastamikil börn sem leggjast í háttinn nú í kvöld.

Sparidagur, messa, sull og veiði!

Þriðji dagur 1. flokks er að kvöldi kominn. Dagurinn hófst með því að fáni var dreginn að húni og morgunmatur snæddur en síðan haldið í báta- og veiðiferð. Reyndust margir býsna seigir ræðarar í flokknum og ekki síður veiðimenn. Einn þeirra, Daníel Freyr, reyndist fengsæll og fékk allgóðan urriða.

Þegar inn var komið skellti liðið sér í fínu fötin því að nú var "sunnudagur" eða sparidagurinn okkar haldinn hátíðlegur. Boðið var upp á hamborgarhrygg með frönskum, sósu og grænmeti sem rann ljúflega niður í mannskapinn. Þegar búið var að láta sjatna var komið að undirbúningi guðsþjónustu sem allir tóku þátt í, í fjórum hópum. Þau Sóley Katrín, Helgi Sigurður, Friðrik Dagur og Hinrik 
lásu ritningarlestur og frumsamdar bænir, aðrir léku guðspjallið um Miskunnsama Samverjann sem leikþátt, enn aðrir spiluðu og sungu í tónlistarhópnum og svo voru það þeir sem röðuðu stólum og skreyttu salinn.

Eftir guðsþjónustu var að sjálfsögðu boðið upp á gott messukaffi, heimabakaðar súkkulaðikökur og ostaslaufur. Notuðum við tækifærið og sungum afmælissönginn fyrir matráðskonuna Kristjönu. Þegar hér var komið sögu var sólin heldur betur tekin að skína og ekkert í stöðunni annað en að demba sér út í Eiðavatn, busla og jafnvel synda!

Nú eru allir komnir upp úr, flestir búnir í sturtu, margir að leika sér eða sleikja sólina úti á stétt og við hlökkum til kakósúpunnar í kvöldmatnum :-)

Nokkrar myndir frá deginum komnar í albúmið, fleiri koma í kvöld.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband