Sparidagur, messa, sull og veiði!

Þriðji dagur 1. flokks er að kvöldi kominn. Dagurinn hófst með því að fáni var dreginn að húni og morgunmatur snæddur en síðan haldið í báta- og veiðiferð. Reyndust margir býsna seigir ræðarar í flokknum og ekki síður veiðimenn. Einn þeirra, Daníel Freyr, reyndist fengsæll og fékk allgóðan urriða.

Þegar inn var komið skellti liðið sér í fínu fötin því að nú var "sunnudagur" eða sparidagurinn okkar haldinn hátíðlegur. Boðið var upp á hamborgarhrygg með frönskum, sósu og grænmeti sem rann ljúflega niður í mannskapinn. Þegar búið var að láta sjatna var komið að undirbúningi guðsþjónustu sem allir tóku þátt í, í fjórum hópum. Þau Sóley Katrín, Helgi Sigurður, Friðrik Dagur og Hinrik 
lásu ritningarlestur og frumsamdar bænir, aðrir léku guðspjallið um Miskunnsama Samverjann sem leikþátt, enn aðrir spiluðu og sungu í tónlistarhópnum og svo voru það þeir sem röðuðu stólum og skreyttu salinn.

Eftir guðsþjónustu var að sjálfsögðu boðið upp á gott messukaffi, heimabakaðar súkkulaðikökur og ostaslaufur. Notuðum við tækifærið og sungum afmælissönginn fyrir matráðskonuna Kristjönu. Þegar hér var komið sögu var sólin heldur betur tekin að skína og ekkert í stöðunni annað en að demba sér út í Eiðavatn, busla og jafnvel synda!

Nú eru allir komnir upp úr, flestir búnir í sturtu, margir að leika sér eða sleikja sólina úti á stétt og við hlökkum til kakósúpunnar í kvöldmatnum :-)

Nokkrar myndir frá deginum komnar í albúmið, fleiri koma í kvöld.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilegt blog og myndir, gaman að fylgjast með hérna :)

Adda Birna (IP-tala skráð) 12.6.2014 kl. 21:34

2 identicon

Takk kærlega, gott að fá að sjá myndir og heyra fréttir :-)

Hildur (IP-tala skráð) 12.6.2014 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband