Fjórði dagur - fáránleikar og fornar slóðir

Krakkarnir voru vaktir að venju kl. 8.30 á þessum skýjaða fimmtudegi. Eins og siður er hjá leiðtogunum í sumarbúðunum er búið að grannskoða veðurspá fyrir hvern dag og af þeirri rannsóknarvinnu töldum við víst að rigna myndi á okkur í dag. En til allrar hamingju brást veðurspáin og datt ekki dropi úr lofti fyrr en eftir kvöldmat þannig að ekkert var að því að verja góðum hluta af deginum úti í Guðs grænni náttúrunni. Eftir fánahyllingu og morgunmat var skundað niður á fótboltavöll þar sem var keppt í svokölluðum fáránleikum, en þar er keppt í furðulegum íþróttum eins og skósparki, vítaspyrnukeppni með bundið fyrir augun, hestbakskapphlaupi og fleirum slíkum furðugreinum. Það má sjá myndir frá þessum leikum í albúmi 4. Í hádegismat fengum við steiktan fisk með grænmeti og mæltist vel fyrir hjá börnunum. Eftir hádegismat var hin venjubunda fræðsla, þar sem leiðtogarnir fóru með mikinn leiksigur í sögunni af Jósef og bræðrum hans. Að því loknu tók við föndurstund, þar sem krakkarnir máluðu skálarnar sem þeir leiruðu í fyrradag og þegar málningarvinnunni lauk hófst mikil fjöldaframleiðsla á vinaböndum sem hafa reynst góðar gjafir í leynavinaleiknum sem hefur staðið yfir alla vikuna.
Að þessu sinni var kaffitíminn með harla óvenjulegum hætti. Klukkan hálf fjögur fengu allir bakpoka sem innihélt stóra pizzasnúða og kókómjólk og héldu í leiðangur að gömlum torfbæjarrústum sem eru skammt frá sumarbúðunum. Var þar farið í skemmtilegan ratleik og nestið borðað. Í ratleikinn komu nokkrir óboðnir en engu að síður velkomnir gestir, þar sem þrír gæsaungar röltu sér til okkar og  fylgdust grannt með þessum skemmtilegu og líflegu krökkum hlaupa um rústirnar og var engu líkara en ungarnir vildu líka taka þátt. Gæsaungarnir hafa reyndar verið mjög fyrirferðamiklir hjá okkur, því í gærkvöldi komu fimm ungar til okkar heim í sumarbúðir og voru ófáanlegir að fara aftur til sinna blóðforeldra, þannig að Bogi og Hildur, urðu steggur og gæs í nokkra klukkutíma uns þau náðu að sameina fjölskylduna á ný seint í gærkvöld.
Eftir rústaferðina góðu var komið heim í grjónagraut og slátur og þá tók við kvöldvaka  sem herbergi 8 og 9 sáu um. Það var að sjálfsögðu mikið líf og fjör á vökunni, mikið hlegið, sungið og trallað. Dagurinn endaði svo sem kvöldkaffi þar sem voru niðurskornir ávextir og áttum svo rólega stund í salnum. Krakkarnir voru ekki lengi að sofna eftir líflegan dag.

Takk fyrir allar skemmtilegu kveðjurnar sem þið hafið sent okkur. Eins og nokkrir foreldrar hafa  bent á komu sjónvarpsmenn til okkar í sumarbúðirnar og tóku myndir af okkur þegar við vorum á bátunum á vatninu. Fréttina má sjá í heild sinni með því að smella hér.

Í dag voru settar inn fleiri myndir á síðuna okkar. Albúm 3 og albúm 4 voru sett inn í dag og innihalda myndir frá því í gær og í dag. Að sjálfsögðu megið þið hala niður myndunum úr sumarbúðunum í tölvurnar ykkar og nota að ykkar vild -  gerið það endilega sem allra fyrst.

Krakkarnir eru orðnir spenntir að taka á móti foreldrum sínum á morgun og bjóða þeim upp á kaffi sem verður hér á milli kl. 15.30 og 16 á morgun. Vikan hefur gengið áfallalaust fyrir sig með öllu og ákaflega skemmtilegur hópur sem kveður sumarbúðirnar á morgun. Um það eru allir sammála, bæði leiðtogar og stúlkurnar í eldhúsinu sem töluðu um að það væri eftirtektarvert hversu kurteis börnin væru.  Við vonum svo sannarlega að sem flestir komi aftur á næsta ári og eigi hér aftur skemmtilega viku.

 


Veisludagur

Í dag var veisludagur í sumarbúðunum. Það er að sjálfsögðu venja að hafa einn hátíðisdag í hverjum flokki, en nú var enn meira tilefni til að gera sér glaðan dag, því hún Anna Karen á níu ára afmæli í dag. En dagurinn hófst venju samvkæmt með því að vekja börnin. Reyndar voru nokkrar hnátur vaknaðar áður en formleg vakning fór fram. Þær voru án efa spenntar fyrir viðfangsefnum dagsins, en þó helst að geta setið og spjallað við hvora aðra inni á herbergjunum. Eftir fánahyllingu og morgunmat var hópnum skipt. Þeir sem komu með veiðistangir fóru út á árabáta með Óla og Mörtu og renndu fyrir fisk. Aflinn þennan morguninn var einn silungur sem verður án efa steiktur eða grillaður þegar heim verður komið.

Hinn hópurinn fór í hina ýmsustu leikin niður á fótboltavelli, skotbolta og slíka sígilda leiki. Þegar heim var komið var farið í sparifötin og gengið í veislumat. Meðan krakkarnir hömuðust, hömuðust Kristjana og Guðný í eldhúsinu við að búa til fyrir okkur dýrindis bayone skinku með heimalöguðu kartöflugratíni, grænmeti, rauðkáli og ljúfri sósu. Allir fengu svo ís með sinni uppáhaldssósu á eftir. Þá tók við undirbúningur fyrir messuna og var skipt í leikhóp, sönghóp, lesara og skreytingahóp. Allir stóðu sína plikt með stakri prýði og gekk guðsþjónustan vel fyrir sig og var hún ákaflega skemmtileg. Þá tók við hátíðar- og afmæliskaffið. Við sungum fyrir afmælisbarnið og blés hún á níu kerti afmæliskökunnar.

Eftir kaffið var tekið hið árlega og ávallt æsispennandi brennómót á milliherbergja, sigurliðið mun svo spila við leiðtogana á föstudaginn, fyrir heimferðina. Svo var pylsupartí í kvöldmatinn og svo var kvöldvaka í umsjá herbergja 3 og 4. Sem fyrr voru léttir og skemmtilegir leikir fyrirferðamiklir þar sem valdir voru sjálfboðaliðar í ýmis verkefni, þeim og öllum til mikillar skemmtunar.

Krakkarnir eru ákfalega skemmtilegir og engin leiðindi eða vesen hafa komið upp. Þannig að við njótum þess að eiga hér þetta skemmtilega samfélag. Þess má til gamans geta að í hádeginu í dag kom viðtal við nokkra krakka úr sumarbúðunum á Ríkisútvarpinu. Það má hlusta á þér hér


Annar dagur - skír og fagur!

Eins og flestir vita var dagurinn bjartur og fagur, sólin skein í heiði og hár bærðist ekki á höfði þegar við risum á fætur þennan fagra morgun.  Þar sem við vitum að við  búum á Íslandi og getum ekki reiknað með mörgum svona dögum að þá var ákveðið að nýta veðrið til hins ítrasta.
Krakkarnir voru vaktir klukkan hálf níu og var farið í kjölfarið út að fánastöng þar sem fáni okkar var hilltu og svo snæddur morgunverður þar á eftir. Að venju var sumarbúðablandan (coca puffs og cherioos) langvinsælust á borðum, en þó voru nokkrir sem fengu sér hollan og góðan hafragraut. Eftir hinn staðgóða morgunverð var öllum boðið að fara út á árabáta og kanóa. Voru margir þreyta sína frumraun á þessu sviði og gekk misjafnlega að ramba á réttu áttina og stýra fleyjunum. En allir höfðu gaman af og ekki síst vegna þess að meðan sjóararnir síkátu sigldu á Eiðavatni fengum við heimsókn frá fréttamanni og myndatökumanni RÚV. Tóku þeir nokkra tali og vonumst við til þess að þetta verði sýnt í einhverjum fréttatímanum í vikunni. Að sjóferðum loknum komust allir heilir á höldnu á þurrt land, án sjóveiki og sjóriðu og höfðu því allir góða lyst á hádegismatnum, hakki og spaghetti með heinz tómatsósu. Höfðu margir á orði að þetta væri þeirra uppáhald. Að hádegismatnum loknum var fræðslustund sem byggðist upp á söngvum, leikriti og föndri. Krakkarnir útbjuggu leirskálar sem síðar verða málaðar. Síðan var sólin sleikt við ýmiskonar iðju úti á stétt.
Að loknu kaffi var aftur haldið niður að vatni, og að þessu sinni var krökkunum boðið að vaða í vatninu, enda sólin skinið allan daginn og náð að hita vatnið um nokkrar gráður. Þrátt fyrir það þótti mörgum vatnið ekki sérlega hlýtt og voru snögg upp úr aftur. Öðrum þótti vaðið mikið sport og höfðu heilmikið úthald. Þegar allir höfðu bleytt vel í kroppnum komu þau upp í búðir þar sem við tók heit sturta og Kristjana ráðskona kom færandi hendi og gaf öllum krökkunum og leiðtogum íspinna. Það þarf kannski ekki að taka það sérstaklega fram, en ísinn gerði mikla lukku.
Í kvöldmatinn var svo kakósúpa. Ein stúlkan í hópnum sagði að kakósúpa væri hennar uppáhald en hún hefði ekki fengið svoleiðis síðan á leikskóla og á svipbrigðum hennar að dæma mætti ætla að það væru mörg ár síðan hún hefði verið þar. En kakósúpan með tvíbökum og þríbökum kláraðist upp til agna. Eftir kvöldverð sáu krakkarnir  í herbergi 5 og 10 um kvöldvökuna sem mæltist mjög vel fyrir og var mikið hlegið og klappa á þeirri kvöldvöku.

Það er skemmtilegt að fá kveðjur frá ykkur í athugasemdakerfið. Nokkrar myndir hafa verið settar inn í myndalabúmið og fleiri á leiðinni. Veðurspá morgundagsins er ákaflega góð, þannig að við munum væntanlega nýta okkur það til góðs!


Fyrsti dagur fyrsta flokks

Það var um og uppúr kl. 10 sem fyrst börn þessa sumar fóru að streyma að í sumarbúðirnar við Eiðavatn. Börnin í þessum flokki eru á aldrinum 7-9 ára. Eins og venja er aðstoðuðu foreldrarnir sín börn við að koma sér fyrir í herbergjunum, koma fötum og farangri á sinn stað, kveðja og kyssa bless. Fyrst var stuttur samhristingur, þar sem allir kynntu sig, hvaðan þau komu og hvað þeim þætti best að borða. Þá var hádegismatur og að þessu sinni voru dýrindi fiskibollur með hrísgrjónum, kartöflum og karrýsósu í matinn. En fyrir þá sem ekki vita, að þá eru þær Kristjana og Guðný miklir meistarakokkar og allir borðuð sinn mat með bestu list. Eftir matinn sáu krakkarnir fyrsta hluta leikritsins um Jósef og bræður hans sem sagt er frá í Gamla testamentinu. Þá tók við föndur þar sem við útbjuggum leðurlyklakippur og óhætt að segja að í hópnum leynist margir framtíðarlistamenn í leðurvinnslu. Eftir kaffið var mjög hressandi talnaratleikur þar sem hlaupið var um í blíðskaparveðrinu og leitað af tölum. Var mikil keppnisharka í mannskapnum, og meira segja svo mikil að margt merkilegra fannst en spjöld og tölur, því að auki fundust þrjú hreiður, eitt með níu eggjum og í hinum tveimur var að finna nokkra þrastarunga. Það vakti mikla spennu í hópnum. Eftir skyr og nýbakað brauð stýrðu stelpurnar í herbergjum eitt og tvö með kvöldvöku. Þar var mikið hlegið og skemmtunin mikil. Þessi fyrsti dagur í fyrsta flokki var alveg hreint fyrsta flokks og lofar góðu fyrir framhaldið.  Myndir koma væntanlega inn á morgun frá fyrstu tveimur dögunum.


Sumarbúðirnar sigla af stað

Þá er farið að styttast í að sumarbúðirnar við Eiðavatn hefji starf sitt. Starfsfólkið er mætt á svæðið og farið að undirbúa komu barnanna, þannig að dvölin verði börnunum sem best!
Starfsfólkið er búið að koma sér fyrir og vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi svo dvölin verði börnunum sem best. Það er mikið til sama starfsfólk og var í fyrrasumar, þannig að hér kunna allir vel til verka og hlakka mikið til að taka á móti börnunum sem koma á morgun. Veðurspáin lofar góðu, þannig allt ætti að leggjast á eitt til að allir eigi hér góða daga við Eiðavatn.

Á meðan flokkarnir eru í gangi verða sjálfsögðu settar inn fréttir á bloggið okkar á hverju kvöldi og jafnvel myndir frá deginum, þannig að við hvetjum alla til fylgjast vel með síðunni okkar.

Einnig er rétt að benda á að enn eru nokkur pláss laus í ævintýraflokkinn sem hefst í næstu viku. Það er sannkallað ævintýri að taka þátt í ævintýraflokknum og eitthvað sem enginn ætti að missa af!


Ævintýraflokkur 2010 - ekki missa af þessu!


Sumarbúðir 2010

Flokkar Tímabil Aldur Verð
Flokkur 1 7.-11. júní 7-9 ára 27.000 kr
Flokkur 2 14.-18. júní 12-14 ára 27.000 kr Ævintýraflokkur!
Flokkur 3 21.-25. júní 7-9 ára 27.000 kr
Flokkur 4 28. - 2. júlí 10-13 ára 27.000 kr
Flokkur 5 5.-9. júlí 8-12 ára 27.000 kr
Mæting barna kl. 10:30 á mánudegi, börnin sótt kl. 15:30-16:00 á föstudegi.

ATH! Innritunargjald óafturkræft er kr. 3000. Ganga þarf frá greiðslu fyrir dvölina eigi síðar en 10 dögum áður en flokkurinn hefst. Greiðslukortaþjónusta.

Tekið er við skráningum á netfangið: kirkjumidstod.austurlands@kirkjan.is.

Í tölvupóstinum þarf að koma fram:

Flokkur
Nafn barns
Heimilisfang
Póstnúmer og staður
Fæðingardagur og ár
Nafn forráðamanns
Netfang forráðamanns
Sími forráðamanns
Hvort óskað er eftir sérstökum herbergisfélaga


Ferðadagur í sumarbúðum!

Dagurinn var tekinn snemma sem endranær. Krakkarnir hoppuð í fötin kl. 8.30 og voru mætt út á fánastöng hálftíma síðar. Hafragrauturinn hennar Kristjönu verður vinsælli með hverjum morgninum, en þó eru sumir ennþá á amerísku línunni og fá sér kornflakes eða cheerios. Að þessu sinni höfðum við fræðsluna fyrir hádegi vegna ferðalagsins sem var haldið í eftir kröftuga kjötsúpu í hádeginu. Við hófum ferðina að  venju að fara í Esso-skálann þar sem allir fengu bland í poka fyrir sínar 300 kr. Var úrvalið fjölbreytt og misóhollt. Þá var haldið í Selskóginn þar sem við rólur og önnur leiktæki voru prófuð áður en við fórum í magnaðan leik. Leikurinn gengur út á að allir fá festar í sig klemmur, gular eða grænar eftir liðum, og síðan hlaupa þau um skóginn og reyna að stela klemmum af hvoru öðru. Mikil keppni og spenna skapaðist í leiknum. Við borðuðum nýbakað pizzasnúða í Selskóginum og drukkum með Frissa Fríska. Að Selskógi loknum héldum við í sundið þar sem var tekist á eins og myndirnar bera með sér, var allt í léttum dúr og vildu fæstir fara upp úr lauginni þegar til átti að taka. Þá komum við heim í grjónagrautinn og svo var kvöldvaka í umsjá herbergja 7 og 8. Heppnaðist hún frábærlega eins kvöldvökurnar sem hafa verið undanfarin tvö kvöld. Á morgun ætla leiðtogarnir svo að sjá um kvöldvökuna og ríkir spenna fyrir því. En dagurinn heppnaðist frábærlega, engin rigning að ráði og frekar hlýtt. Allir fara nú glaðir upp í, þreyttir eftir kraftmikinn dag!


Annar dagur í fimmta flokki

Allir sváfu vært þegar Sigga vakti börnin kl. hálf níu. Þau voru þó ekki lengi að spretta framúr enda flest full tilhlökkunar til að takast á við verkefni dagsins. Fyrst var að sjálfsögðu fánahyllingin þar sem vel var tekið undir hinn fagra fánasöng, ,,fáni vor sem friðarmerki“. Þá var haldið í morgunverðinn. Þar sem vel viðraði á okkur í dag og nærri því logn ákváðum við að skella okkur í björgunarvestin og halda út á Eiðavatn. Var farið á öllum flotanum og skiptust krakkarnir á að róa, því miður varð myndavélin rafmagnslaus þegar til átti að taka í bátsferðinni og því náðum við engum myndum þar. En það er óhætt að segja að bátsferðin hafi verið mikið ævintýr og allir komist heilir í höfn án nokkurrar sjóveiki eða sjóriðu. Í hádegismatinn fengum við dýrindis austfirskar heimatilbúnar fiskibollur. Að því loknu var fræðslustundin, þar sem haldið áfram frá því sem frá var horfið í gær. Þá tók við föndur þar sem krakkarnir klipptu út fiska og bjuggu til gipsgrímur (sjá myndir). Eftir kaffi var farið í skemmtilegan ratleik sem endaði með því að leitað var að dýrmætum fjársjóði, sem að sjálfsögðu var lítill nammipoki – góður fjársjóður það. Eftir skyr og eggjabrauð undirbjuggu strákaherbergin, 1, 2 og 3 kvöldvökuna sem þeir sáu svo um og gerðu með snilldarbrag. Veðrið lék við okkur í dag, þó að mestu hafi verið sólarlaust – en allir fóru glaðir í bólið. Hópurinn er frábær og flestir hafa þegar eignast nýja vini. Á morgun er svo ferðadagur hjá okkur, þá stefnum við á Egilsstaði, í sund, sjoppu og Selskóg og komum heim um kl. 18. Þannig að þá verður enginn við símann, en að sjálfsögðu má þá hringja bara örlítið seinna og fá fréttir. En hlýjar kveðjur úr miklu fjöri á Eiðum!


Fyrsti dagur í fimmta flokki!

Það var hress og skemmtilegur hópur 8 – 12 ára barna sem mætti í sumarbúðirnar í morgun.  Þegar allir höfðu kynnt sig, var gengið til fyrsta málsverðarins, sem samanstóð af hakki, spagettíi og heimabökuðu brauði. Maturinn rann ljúflega niður í alla munna og enginn matvandur. Að loknum matartíma var fræðslustund, þar sem leiðtogarnir settu upp fyrsta þáttinn af framhaldsleikritinu um Jóel póstmann sem þarf að koma mikilvægu bréfi, sem krakkarnir sjálfir sömdu, til Jesú. Það gengur ekki þrautarlaust og hittir hann marga á leiðinni. Eftir fékk listagáfan að njóta sín, þar sem lítil kubbakerti voru skreytt. Þrátt fyrir takmarkaða reynslu flestra barnanna á þessu sviði, voru mörg kertin meistaralega skreytt og ábyggilegt að einhver eigi eftir að reyna fyrir sér á þessu sviði í framtíðinni ;-)  Eftir kaffi fórum við svo í hina föstu brennókeppni, þar sem var mikil spenna í öllum leikjum, en að lokum stóð liðið Þrumuskýið uppi sem sigurvegarar, en það samanstendur af þeim Ara, Rafal, Indriða, Sonju, Jóhönnu M, Bergþóru, Valnýju. Í lok flokksins munu þau svo keppa við leiðtogaliðið. Síðan var haldið á fótboltavöllinn þar sem nokkrir léttir og sígildir leikir voru teknir. Í kjölfarið var svo frjáls tími þar sem krakkarnir notuðu tímann til að kynnast og spjalla, leika, lesa eða skrifa leynivinum sínum einhver skemmtileg bréf eða teikna fyrir þá myndir. Kakósúpa með corn flakes var eitthvað sem allir fengu að smakka í kvöldmatinn og þótti það mikill herramanns matur. Síðan var skemmtileg og hressandi kvöldvaka í umsjá herbergja 4, 5 og 6. Myndirnar sem fylgja með voru teknar á henni og eins og sjá má var þar mikið hlegið. Síðan fóru allir sælir í rúmið og þurfti lítið að hafa fyrir því að komast í draumlandið, enda búið að vera mikið að snúast í allan dag og mikil dagskrá næstu daga.  Kveðjur frá fallega veðrinu á Eiðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband