Ferðadagur hjá 4. flokki

Dagurinn hófst á fræðslustund og svo máluðum við grímurnar sem við bjuggum til í gær.
Eftir að hafa borðað steiktan fisk í hádegismat skunduðum við út í rútu sem beið okkar hér fyrir utan Kirkjumiðstöðina og ókum sem leið lá í Egilsstaði. Þar fórum við í Selskóg og lékum okkur og spjölluðum í góða veðrinu. Við fengum líka nammi sem var keypt fyrir vasapeninginn okkar og gæddum okkur á heimabökuðum pizzasnúðum. Eftir skógarferðina fórum við í sund og skemmtum okkur frábærlega í frábæru veðri. Við erum öll sammála um það að við hefðum ekki getað fengið betra veður þessa daga.
Kvöldvökuundirbúningurinn var í höndum strákanna og skemmtu þeir stelpunum og sjálfum sér með fjörugum leikjum og söngvum. Við fengum svo íspinna í kvöldhressingunni og að henni lokinni skruppu sumir í veiðiferð meðan aðrir fóru niður á fótboltavöll og léku sér þar. Þar kveiktum við svo varðeld og áttum þar notalega kvöldstund, sungum, hlustuðum á sögu og fórum með kvöldbænirnar okkar.
Það voru því þreytt börn sem lögðust til hvíldar skömmu fyrir miðnætti og sofa nú rótt.

Bestu kveðjur frá Eiðum


Dagur 3 og gleðin heldur áfram!

Góður dagur að kveldi komin og öll börnin sofnuð.

Við hófum daginn á því að ganga í Eiðakirkju og þar tókum við þátt í messu. Krakkarnir voru búnir að æfa leikþátt, semja bænir, velja ritningarvers til að lesa og æfa söng. Að messunni lokinni var rölt til baka í sumarbúðirnar og þar beið okkar lambalæri með öllu tilheyrandi og ís á eftir. Þetta rann ljúflega niður og borðuðu allir vel.
Eftir hádegið skiptum við hópnum í tvennt, annar helmingurinn bjó til gifsgrímur á meðan hinn helmingurinn fór að vaða í vatninu og svo var skipt. Allt mæltist þetta vel fyrir.
Eftir góða kvöldvöku brugðum við svo undir okkur betri fætinum og fengum okkur göngutúr út í rústir og höfðum kvöldstundina okkar þar úti undir beru lofti. Við kveiktum á kertum, sungum og hlustuðum sögu.
Eftir viðburðarríkan dag voru allir þreyttir og tilbúnir í svefn þegar heim var komið.

Á morgun er ferðadagur og verður því ekki hægt að ná í okkur milli 17 og 18 eins og annars er hægt. Við verðum komin í hús upp úr kl. 18 og þá er ykkur velkomið að hringja ef þið viljið heyra hvernig gengur.

Bestu kveðjur heim,
sumarbúðastuðboltarnir Smile


4. flokkur - dagur tvö

Fyrsta kvöldið að baki og kvöldvakan heppnaðist vel. Börnin fóru þreytt í rúmið og sofnuðu allir á skikkanlegum tíma og sváfu bara vel til morguns.
Mikil gleði braust út í morgun þegar leiðtogar tilkynntu að í dag væri bátadagur. Allir fengu að fara á bát og prófa að róa. Í morgun héldum við líka fótboltamót fyrir þá sem vildu.
Eftir fræðslustund var farið í að undirbúa messu sem verður í Eiðakirkju í fyrramálið. Krakkarnir verða virkir þátttakendur á einn eða annan hátt, allt eftir áhuga hvers og eins.
Sólin gladdi okkur með nærveru sinni eftir kaffi og héldu allir glaðir út í ratleik.

Nýjar myndir komnar í albúmið okkar.

Kveðjur frá Eiðaliðinu.


4. flokkur mættur í hús

Það voru prúðir og glaðir krakkar sem mættu hér í morgun með foreldrum sínum. Eftir að hafa komið sér fyrir í herbergjunum sínum höfðum við stund í salnum þar sem við kynntum okkur og fórum yfir helstu reglur staðarins. Að því loknu drifum við okkur út í skotbolta og var það mikið fjör.
Fiskibollurnar runnu ljúflega niður í hádeginu og að lokinni fræðslustund skreyttu allir kerti sem þeir mega taka með sér heim í vikulokin.
Brennó-mótið okkar var haldið í dag og var það að vonum æsispennandi. Sigurliðið skorar svo leiðtogana á hólm síðar í vikunni.
Leynivinaleikurinn er kominn af stað með tilheyrandi leynd, allir hafa útbúið póstkassa þannig að nú geta leynivinabréfin farið að streyma á milli barnanna.
Akkúrat núna vinnur undirbúningshópur ötullega að fyrstu kvöldvöku vikunnar og má vænta skemmtilegrar kvöldvöku á eftir.

Kærar kveðjur frá okkur öllum á Eiðum.


Þriðji flokkur - 4 dagur

Ætlunin var að leyfa börnunum að sofa aðeins lengur en það gekk nú ekki upp þar sem það voru langflesti komnir ár ról um 8.15. Eftir morgunmat og sólarvarnarstund á vegum hinnar nýju sólarvarnarlögreglu voru haldnir fáránleikar. Þau börn sem voru með veiðistangir fóru að veiða og þrátt fyrir vægast sagt lítinn afla voru það glaðir veiðimenn sem að komu til baka. Fyrir hádegismat fórum við í fínni fötin og fengum hátíðarhádegisverð og ís í desert. Eftir hádegismatinn byrjuðum við að undirbúa guðsþjónustu  og tóku börnin þátt í henni með því að vera í mismunandi undirbúningshópum. Sr.Jóhanna stjórnaði guðsþjónustunni og gekk hún mjög vel og börnin sungu eins og englar. Í kaffitímanum fengu allir afmælisköku því hún Jóhanna Lilja er 9 ára í dag. Eftir kaffi var haldið í stutta gönguferð út í rústir. Síðan var haldið spennandi fótboltamó. Í kvöldmat fengum við grillaðar pylsur og ekki þótti þeim það nú leiðinlegt. Eftir kvöldmat var farið í ýmsa leiki eins og til dæmis eitur í flösku. Herbergi 4, 5, og 6 héldu uppi stuðinu á kvöldvöku.

Enn og aftur höfum við átt yndislegan dag hérna á Eiðum og veðrið hreint út sagt stórkostlegt. Það verða þreytt en vonandi sæl börn sem fara heim á morgun:)

Við þökkum ykkur fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar og megi Guð og gæfan fylgja ykkur. 

Kær kveðja leiðtogar


þriðji flokkur -miðvikudagur

Þetta hefur verið yndislegur dagur hérna hjá okkur á Eiðum. Eftir morgunmat máluðum við grímurnar sem við gerðum í gær. þegar við vorum búin að borða kjötsúpu í hádegismatinn fórum við í ferðalag, keyptum okkur smá sælgæti í sjoppunni og fórum síðan upp í skóg lékjum okkur þar og borðuðum pizzasnúðana sem að Valla og Guðný voru búnar að baka handa okkur. Svo var ferðinni heitið í sundlaugina. Erfiðasta verkefni sundferðarinnar var að reyna að ná börnunum upp úr lauginni. Þegar við komum tilbaka fengum við okkur grjónagraut og slátur sem var vel þegið enda voru allir svangir eftir skemmtilega sundferð. Eftir kvöldmatinn voru börnin að dunda sér og margir skrifuðu bréf til leynivina sinna. Núna er kvöldvöku lokið og börnin búin að fá ávexti í kvöldkaffi. Ætlunin er að senda þau beint í bólið og jafnvel láta þau sofa svolítið lengur ef þau verða ekki vöknuð kl. 8.30.

Gullkorn dagsins . Heyrðu ( talað við dreng) ertu búin að skipta um nærföt? Nei ég skipti aldrei um brók mamma mín gerir það !

Frábær dagur á frábærum stað í frábæru veðri 

     kveðja Magnea


Þriðji flokkur - annar dagur

Nóttin gekk vel og var óvenju friðsælt hér í þokunni þegar átti að fara að vekja hópinn kl. 8.30 og ákveðið var að leyfa þeim að sofa aðeins lengur. Eftir morgunmat gerðu allir póstkassa fyrir leynivinaleikinn og hefur verið  mjög mikið um póstsendingar af ýmsum toga í dag. Við náðum síðan að klára brennómótið sem fresta þurfti vegna veðurs í gær. Eftir ljúffengan fisk í hádegismat héldum við fræðslustund og í framhaldi föndruðu allir fiska og gerðar voru gifsgrímur á allan hópinn. Gifsgrímugerðin gekk mjög vel og meira að segja eitt barnið sofnaði meðan gríman var að þorna. Í kaffinu fengum við heimabakaða snúða og nýtt kryddbrauð sem vakti mikla lukku. Eftir kaffi var sólin mætt á svæðið og börnin fóru út í ratleik og skemmtu sér konunglega.  Fram að kvöldmat héldum við áfram að setja gifsgrímur á börnin nokkur vildu gera aðra grímu. Kakósúpan var vel þegin og haldið var spennandi keilumót í sólinni eftir matinn á meðan stúlkurnar í herbergjum 7 og 8 voru að undirbúa kvöldvöku. Það var mikið  hlegið á kvöldvökunni en í helgistundinni voru nú sumir orðnir svolítið þreyttir. Núna eru allir komnir í bólið og við þakklát fyrir góðan dag. Á morgun ætlum við í ferðalag  kl. 13.00 og verðum ekki komin fyrr en um kl. 18.00, þannig að ég verð ekki við á símatímanum.

gullkorn :

Í gærkvöldi átti ein lítil bágt og gengið var að henni - hvað er að ? - ég er með svo stóran heimÞRÁÐ af því að mamma mín er svo góð kona !

barn :Marta vissir þú að þetta er sko algjört draumaland -sko sumarbúðirnar.

barn1. Magnega hvað ertu gömul? Barn 2: hún er mjög gömul örugglega fædd nitjánhundruð og eitthvað 

Kær kveðja frá Costa del Eiðum

                                   Magnea

 

 


3. flokkur hafinn

Nú eru 38 hressir krakkar mættir í búðirnar í bongó blíðu. Dagurinn hefur heppnast einstaklega vel, eftir kjarngóðann hádegismat héldum við fræðslustund og börnin skreyttu kerti. Eftir kaffitímann var svo brennómótið sívinsæla sem var síðan aflýst vegna veðurs og farið var í hópkælingu í Eiðavatn þar sem börnin fengu að vaða við mikinn fögnuð. Eftir velþegið ískalt skyr var haldin kvöldvaka í umsjá strákaherbergjanna. Það voru sælleg börn sem fóru í bólið og einungis fjórir þurftu alovera krem, enda hafa líklega farið tvær túbur af sólarvörn á hópinn.

Við erum þakklát fyrir góðan dag og vonumst eftir áframhaldandi sumarblíðu :)

 


Náttfatapartý, pool og lokaskemmtun

Í gær var ferðadagur sumarbúðanna til Egilsstaða í sjoppu, Selskóg og sund, en að þessu sinni var farið í hermannaleik í skóginum og var þar barist af miklu kappi upp á "líf og dauða" í formi þvottaklemma!

Um kvöldið var boðið upp á keppni í bæði borðtennis og pool (billjard) en kvöldvakan var í umsjón herbergja 9 og 10. Þegar menn voru háttaðir (óþarflega snemma að mörgum fannst!) komu leiðtogarnir á óvart með því að bjóða upp á náttfata-vídeópartý þar sem horft var á gamanmyndina Evan Almighty.

Í morgun vaknaði liðið klukkan hálfníu og tók til við pökkun og tiltekt eftir morgunmat. Nú er því lokið og hópurinn farinn niður á völl í fáránleika svo nefnda, mikið glens á lokadegi. Fram undan eftir hádegismat og síðustu fræðslustundina er lokaskemmtun flokksins í umsjón leiðtoga, sem hafa undirbúið ótrúleg skemmtiatriði, samið rapptexta og fleira í þeim dúr!

Við þökkum fyrir samveruna í vikunni og vonandi fara allir ánægðir heim úr fjörugum ævintýraflokki.


Kvöldmessuferð og fleira í gær

Í gær, miðvikudag, var boðið upp á áframhaldandi burtróður á kanó um morguninn. Að vísu voru ekki margir sem spreyttu sig en þeim mun fleiri áhorfendaskarar sem bleyttu síg í vatninu!

Þetta var "sparidagur" flokksins, messudagurinn okkar, og því var bajonneskinka með gratíneruðum kartöflum í hádegismatinn og ís á eftir. Þá tók við áframhaldandi fræðsla um líf og starf Jesú og að því búnu var farið út í sólina á stéttinni og gipsgrímurnar málaðar. Einnig var boðið upp á stinger-mót á körfuboltavellinum og fótboltaspilsmót inni við.

Kaffið var sérlega girnilegt eða rjómaterta og heimabakaðar flatkökur með hangikjöti eða osti. Eftir það hófst hinn víðfrægi ormaleikur sumarbúðanna þar sem hlaupið er eftir númerum í umhverfi staðarins og ýmsar þrautir leystar. Enn var mönnum heitt og ákveðið að kæla liðið svolítið niður með því að hafa vatnsstríð á stéttinni! Sprautað var úr slöngum og vatnsblöðrur sprengdar, svaka gaman.

Kvöldmaturinn var grillaðar pylsur með tilheyrandi í umsjón leiðtoga. Kvöldvökuna sáu herbergi 7 og 8 um en eftir það var farið til Eiðakirkju þar sem sr. Vigfús Ingvar á Egilsstöðum leiddi stutta kvöldmessu. Ferðatilhögun var með þeim hætti að þeir sem vildu fengu að róa annaðhvort til eða frá kirkju og hinir að ganga eftir nýstikaðri leið. Sætt og gott messukaffi var í safnaðarheimilinu svo að þegar heim var komið um miðnætti skriðu menn beint í bælin.

Nú í morgun var svo ákveðið að gefa þreyttu liðinu klukkutíma útsof og eru menn því nýlega skriðnir fram úr...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband