Enn einn góði dagurinn hefur runnið sitt skeið hér við Eiðavatn. Við fengum að sjá 4. hluta leikritsins um Jósef og bræður hans í morgun og ræddum svo í framhaldi af því um kærleikann og hvað allt verður jákvætt og gott ef hann er til staðar. Við máluðum leirskálarnar sem við gerðum í fyrradag og það er óhætt að segja að hér er á ferð mikið listafólk. Perlurnar tóku svo völdin og sátum við lengi við og perluðum, alveg þar til við gæddum okkur á góðum fiski og meðlæti.
Eftir hádegismatinn skiptum við okkur í tvo hópa. Strákarnir byrjuðu á því að horfa á teiknimynd um Jósef og bræður hans en fóru svo út í fótbolta og ýmsa skemmtilega leiki. Stelpurnar fóru hins vegar í góða gönguferð þar sem við fundum bæði gæsahreiður með 5 eggjum og tvo gæsarunga á röltinu í móanum. Eins og nærri má geta vakti þetta heilmikla lukku meðal stúlknanna og vildu þær helst taka ungana með sér heim og ala þá upp. Það var þó ekki í boði :o) Þær fengu svo að sjá myndina um Jósef að gönguferð lokinni.
Veiðiáhugafólk fór niður að vatni seinnipartinn og freistaði þess að veiða nokkra silunga. Svo varð þó ekki þrátt fyrir einlægan áhuga og vilja. Allir komu þó sáttir heim. Hinir sem ekki fóru að veiða spiluðu bingó og voru verðlaunin ekki af verri endanum, karamellur ... fyrir alla.
Stelpurnar í herbergjum 6 og 7 sáu um fjöruga kvöldvöku fyrr í kvöld og fóru allir vel þreyttir í rúmið og sofa nú værum svefni.
Bloggar | 25.6.2010 | 00:44 (breytt kl. 00:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Enn einum frábærum degi lokið hér í sumarbúðunum við Eiðavatn enda frábært fólk sem hér dvelur. Við hófum daginn á fánahyllingu eins og aðra morgna og svo gæddu menn sér ýmist á hafragraut, cheerios eða hinni sívinsælu sumarbúðablöndu. Eftir stutta morgunbænastund héldum við niður á íþróttavöll og tókum þátt í fáránleikum en góð útskýring á þeim er um er að ræða ólympíuleika í fáránlegum íþróttum. Þar fóru börnin á kostum í skósparki, tuskukasti og vítaspyrnukeppni með bundið fyrir augun svo fátt eitt sé nefnt. Það voru því glöð börn sem komu í hús rétt fyrir hádegismatinn og þá skiptu allir yfir í "sparigírinn", klæddu sig í betri fötin og borðuðu svo sannkallaðan veislumat. Eftir hádegið skiptum við okkur í hópa og undirbjuggum messu sem fram fór hér í salnum. Sumir skreyttu salinn meðan aðrir æfðu söngva og undirspil, enn aðrir æfðu leikþátt, upplestur og svo sömdum við þakkarbænir. Sr. Jóhanna kom og leiddi messuna. Eins og gjarnan tíðkast sérstaklega til sveita, var messunni fylgt eftir með messukaffi og framreiddu eldhússtúlkurnar okkar rjómatertu og súkkulaðiköku. Alveg frábært.
Eftir kaffið skiptum við svo aftur um föt og svo var haldið í ratleik. Stúlkurnar í herbergjum 8, 9 og 10 buðu svo upp á skemmtilega kvöldvöku með leikjum, dansi og fimleikasýningu. Hér er um alvöru skemmtanir að ræða.
Eftir hressingu og kvöldsögu og bæn héldu börnin svo til hvílu og sofa nú allir vært og rótt.
Bloggar | 24.6.2010 | 00:27 (breytt kl. 00:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dagur tvö er að kveldi kominn og allt gekk vel. Börnin fengu að spreyta sig á bátum í morgun í indælis veðri og voru margir sem áttuðu sig bara allt í einu á því að þeir voru býsna flinkir ræðarar. Enginn datt í vatnið og allir alsælir að bátsferð lokinni.
Hakk og spaghetti hitti heldur betur í mark í hádeginu í dag og eftir matinn fræddumst við meira um Jósef og sögu hans. Leiðtogarnir sýndu okkur leikþátt og að því loknu ræddum við málin og lögðu börnin margt gott til málanna og hafa svo sannarlega skoðanir á ýmsum þeim málum sem upp koma hverju sinni. Að lokinni fræðslu bjuggum við til leirskálar sem við málum svo síðar í vikunni. Það voru afskaplega fallegar skálar sem litu dagsins ljós og leirkerasmiðirnir ánægðir með sig og handverkið sitt.
Brennómót fór fram í dag og fá sigurvegarar mótsins að keppa við leiðtogana síðasta dag búðanna.
Kvöldvakan var undirbúin af strákunum í herbergjum 1 og 2 og buðu þeir upp á marga skemmtilega leiki auk þess sem við lærðum nokkur ný lög og sungum fullum hálsi.
Það voru því glöð og þreytt börn sem héldu í háttinn og sofa nú allir værum blundi.
p.s. Nú eru nokkrar myndir komnar inn úr þessum flokki og fleiri væntanlegar á næstunni. Endilega kíkið á þær.
Bloggar | 22.6.2010 | 23:42 (breytt kl. 23:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það voru spenntir krakkar sem mættu í sumarbúðirnar við Eiðavatn í morgun. Þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og foreldrar og aðrir fylgdarmenn farnir heim hófum við vikuna á upphafsstund þar sem við sungum og fórum yfir nokkrar helstu reglur búðanna. Eftir að hafa rennt niður dásamlegum fiskibollum og meðlæti í hádeginu var haldið í fræðslustund og þar kynntumst við Jósef og sögu hans. Við munum fá að kynnast þeirri sögu betur í vikunni. Að loknum leikþætti um Jósef og syni hans föndruðum við og skreyttum lyklakippur og var virkilega gaman að sjá hve börnin voru áhugasöm og ánægð með lyklakippurnar sínar.
Eftir kaffið fórum við svo í leiki, bæði úti og inni og enduðum á fjársjóðsleit í rústunum sem hér eru skammt frá. Grænmetissúpa og heimabakaðar bollur runnu ljúflega niður og að því loknu fóru nokkrir vaskir drengir í það að undirbúa kvöldvöku á meðan aðrir tóku til í herbergjunum sínum. Kvöldvakan heppnaðist mjög vel og fóru umræddir drengir á kostum í stjórnun leikja og leikrænum tilburðum. Eftir hressingu sagði Bogi okkur sögu fyrir svefninn.
Í þessum skrifuðu orðum eru allir komnir í rúm og flestir sofnaðir eftir skemmtilegan dag hér við Eiðavatn.
Bloggar | 21.6.2010 | 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Börnin voru vakin með hæ hó jibbíje í morgun kl. 9.00 og eftir morgunverð héldum við stutta söngæfingu og héldum af stað á Egilsstaði kl. 10.45. Við sungum lögin okkar á sviðinu og gekk það bara vel. Þegar við komum aftur heim á Eiðar beið okkar veislumatur lambalæri með öllu tilheyrandi og ís i desert. Eftir fræðsluna fórum við að mála skálarnar sem að við gerðum í fyrradag og það var svo gaman að fylgjast með þeim, þau voru svo afslöppuð máluðu í rólegheitunum og mörg vildu fá að perla þegar því var lokið, en önnur fóru út í leiki. Í kaffitímanum var nú aldeilis hátíðarbragur boðið var upp heita eplaköku og marenstertu í fánalitunum. Allir voru drifnir út í ratleik eftir kaffi hlupu börnin hérna út um allt að leysa þrautir. Börnunum var öllum safnað saman á stéttinni og okkur tókst að stilla þeim upp en gerðum óvænta árás og efnt var til vatnsstríðs á stéttinni. Flestir voru með en það voru nokkrir sem kusu að vera í vissri fjarlægð og horfa á æsinginn án þess að blotna. Það var ekki þurr þráður á leiðtogunum því að börnin sættu sig nú ekki við að vera bara fórnarlömb og fengum við yfir okkur heilu balana af vatni. Þetta var alveg stórkemmtilegt því að veðrið var svo gott mikil stemning fyrir einhverju nýju ævintýri. En okkur grunar að einhverjir komi heim með talsvert af blautum fötum á morgun. Þegar við vorum búin að skúra ganginn og allir komnir í þurr föt grilluðum við pylsur á stéttinni í sólinni. Kvöldvakan var að þessu sinni í hendi leiðtoga og brugðu þau sér í margskonar gerfi. Í kvöldkaffinu fengum við ís og ekki var það óvinsælt hjá börnunum. Eftir hugleiðingu fóru allir í bólið enda eru þau orðin þreytt eftir erlilsama og skemmtilega viku.
Þessi vika hefur gengið vel og verið virkilega skemmtileg. Börnin hafa verið einstaklega þægileg en jafnframt til í ævintýri og sprell ( semsagt fullkomin blanda ;-).
Bloggar | 18.6.2010 | 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við vorum beðin um að syngja á barnadagskránni á Egilsstöðum í dag 17. júní. Við vorum að fá fréttir um nýjan sýningartíma. Við munum koma fram um kl. 11.40. og syngja 2 lög.
Bloggar | 17.6.2010 | 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Börnin voru ekki vakin fyrr en kl. 9.40 í morgun en þau vissu ekkert um það því að við vorum búin að taka niður allar klukkur og úrin af börnunum. Rugldagurinn hófst á því að við fengum okkur grjónagraut og slátur í (sem átti að vera kvöldmaturinn) það var mjög gaman að sjá svipinn á börnunum þegar við hófum daginn á kvöldbæn, byrjuðum að þakka fyrir matinn og enduðum matartímann á því að syngja borðversið. Næst á dagskrá var fræðsla og föndur og bjuggum við til vinabönd fyrir leynivinaleikinn sem er hérna í gangi. Í hádegismat fengum við kvöldkaffi en það voru ávextir og kex. Eftir hádegismat var brennókeppni og í kaffitímanum var boðið upp á fiskrétt sem að börnin gerðu góð skil. Næst á dagskrá var kvöldvakan og þar var mikið hlegið og sprellað. Síðan fórum við út í leiki og þá kom svo mikil rigning að það var eins og hellt væri úr fötu og á augnabliki voru allir orðnir rennandi blautir rigningin hætt og sólin byrjuð að skína. Þessi upplifun passaði mjög vel í rugldaginn rétt eins og hún hafði verið pöntuð. Í kvöldmatnum var boðið upp á heimagerða snúða og skúffuköku. Á þessum tímapunkti vissu krakkarnir enn ekki hvað klukkan var og héldu áfram að giska endalaust. Eftir kaffið bjuggjum við til brjóstsykur og þótti það spennandi og allir fengu að smakka heitan brjóstsykur. Eftir smá frjálsan tíma voru börnin látin hátta og öllum safnað inn í matsal og við fengum okkur morgunmat (en þá var klukkan orðin 20.30). Við æfðum lögin sem við ætlum að syngja á Egilstöðum á morgun og hlustuðum á stutta hugleiðingu. Börnin fóru síðan inn á herbergi og við byrjuðum að lesa fyrir þau eins og hefðin gerir ráð fyrir hér á Eiðum. En því var hætt snögglega mættum í náttfatapartý.
Þetta hefur verið skemmtilega ruglaður dagur en á morgun munum við nú halda okkur við hefðbundið dagskipan. Veðrið var gott þó hafi verið talsvert um skúra. Það var værð yfir hópnum og mikið perlað og spjallað í dag.
Við munum syngja tvö lög á hátíðinni á Egilsstöðum dagskráin er frá 11.oo til tæplega 12.30 og reiknum við með að vera síðust á dagskrá. Síðan brunum við aftur á Eiðar og þar sem mun bíða okkar hátíðarhádegisverður.
Bloggar | 16.6.2010 | 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kæru foreldrar
Börnin í flokknum munu syngja 2 lög á hátíðarhöldunum á Egilsstöðum á morgun 17. júni. Barnadagskráin hefst kl. 11 og lýkur fyrir kl.12.30 og við syngjum 2 lög í lok dagskrár. Við förum í rútu frá Eiðum og komum aftur heim í þjóðhátíðarhádegisverð.
Endilega kíkið á myndirnar frá því í gær. Við munum setja fleiri myndir inn í kvöld
Bloggar | 16.6.2010 | 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Börnin voru vakin kl. 8.30 og byrjuðum við daginn á fánahyllingu og morgunmat. Eftir morgunmatinn var ætlunun að fara á báta á spegilsléttu vatninu. En skyndiega kom rok og vatnið var ekki lengi spennandi kostur. Við drifum okkur bara í fáránleika fram að hádegismat þar sem keppt var í stígvélakasti, eggjaboðhlaupi og fleira. Eftir hádegismat var fræðsla og föndur gerðu börnin mjög flottar skálar. Eftir kaffitímann fóru strákarnir í það að undirbúa kvöldvöku og var sett upp mót í kubb- spilinu á grasfletinum. Það var boðið upp á skyr í kvöldmatinn og gerðu börnin því góð skil. Eftir kvöldmat fóru nú ævintýrin að gerast. Eftir mikinn undirbúning og rannsóknarvinnu leiðtoga var settur upp Quiddich- leikur (þetta er leikur sem leikinn er í myndunum um Harry Potter) Þessi tilraun gekk alveg frábærlega og skemmtu allir sér konunglega. Kvöldvakan var í boði skrákana í herbergjum 1 og 2. Eftir kvöldvöku fórum við í ævintýrarferð út í hólma. Allir voru settir í björgunarversti og við rérum út í hólma. Við kveiktum smá varðeld og grilluðum brauð á greinum. Við vorum með gítar og allar græur með okkur og sungum og hlustuðum á hugleiðingu. Þessi ævintýraferð heppnaðist sérstaklega þar sem allir voru í góðum gír og við nutum þess að vera úti í Guðs grænni náttúrunni. Það var ekki vandamál að svæfa börnin þegar við komum heim flest sofnuðu um leið og þau lögðust á koddann eftir frábæran dag. Þar sem gærdagurinn var svo viðburðarríkur og við fórum seinna að sofa en vanalega þannig að við sváfum út í morgun.
Dagurinn í dag er svokallaður rugl-dagur en það verður sagt frá því síðar.
Bloggar | 16.6.2010 | 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eftir að allir voru búnir að koma sér vel fyrir héldum við upphafsstund og fengum síðan dásamlegar heimagerðar fiskibollur. Strax eftir matinn var fræðslustund og ætlum við þessa viku að læra allt um hann Jósef sem sagt er frá í Biblíunni. Leiðtogarnir leika söguna og þar fá leiklistarhæfileikar þeirra að njóta sín. Eftir fræðsluna gerðum við lyklakippur úr kálfaskinni sem að þau skreyttu snilldarlega og taka síðan með sér heim. Síðan fórum við í skotbolta á stéttinni sem var alveg frábært góða verðinu. Eftir nýbakaða snúða og kryddbrauð skelltum við okkur út að rústum þar sem farið var í fjársjóðsleit og fengu allir karmellusleikjó í verðlaun. Þegar komið var til baka var farið í fótboltamót þar sem æsispennandi leikur fór 7-7. Eftir kvölmatinn sem var heimagerð grænmetissúpa og nýbakaðar bollur hófst undirbúningur kvöldvöku. Á kvöldvökunni var mikið framboð af skemmtilegum leikjum og söngvum í boði barnanna. Eftir kvöldhressingu var stutt hugleiðing og allir að komu sér í háttinn. Leiðtogarnir fara inn á herbergin til barnanna og lesa fyrir þau fyrir svefninn og gekk það ljómandi vel. Það voru útitekin og sælleg börn sem sofnuðu snemma í gækvöldi. Við erum þakklát fyrir þennan góða hóp og ekki skemmir nú veðrið ;-)
Magnea Sverrisdóttir
Bloggar | 15.6.2010 | 10:55 (breytt kl. 10:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar