20.-24 júní 7-9 ára
27. júní-1. júlí 10-13 ára
4.-8. júlí 7-9 ára
11.-15. júlí 8-12 ára
18.-22. júlí 12-14 ára ÆVINTÝRAFLOKKUR!
Verð í sumarbúðirnar er það sama og í fyrra, 27.000 kr. en veittur er 10% systkinaafsláttur.
Athugið að óafturkræft innritunargjald er 3.000 kr.
Ekki missa af frábæru sumri í sumarbúðunum í sumar!
Bloggar | 9.4.2011 | 10:15 (breytt kl. 10:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er nú ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við 5. flokk hér á Eiðum, en við höfum nú samt reynt að vera eins mikið úti í dag, fimmtudag, og krakkarnir hafa enst til. Þrátt fyrir að ró hafi verið komin á kl. 23 í gærkvöldi voru það þreyttir krakkar sem vöknuðu í morgun kl. 8:30 enda mikið fjör búið að vera alla vikuna. Þó hresstust menn fljótt við enda spennandi dagskrá fram undan. Eftir fánahyllingu og morgunmat var nefnilega komið að öfugri dagskrá miðað við þriðjudagsmorguninn, strákarnir fóru núna út að róa á kanó en stelpurnar kepptu í Kubb-leiknum skemmtilega.
Í hádegismat fengu börnin svo svikinn héra með brúnni sósu og frönskum kartöflum og rann maturinn ljúflega í svangan mannskapinn. Eftir hádegi var keppt áfram í Kubb og einnig í fótboltaspilinu áður en komið var að fræðslustund dagsins með leikþætti úr Biblíunni, söngvum og bænum. Svo var það föndur dagsins sem fólst í að mála skálarnar sem við unnum úr leir fyrir tveimur dögum. Eru þær nú orðnar mjög skrautlegar og tilbúnar fyrir heimferð. Í kaffitíminu bauð Guðný okkur upp á volga eplaköku og nýbakað, smurt kúmenbrauð, en síðdegis var á ný farið út í "góða" veðrið. Að þessu sinni gátu börnin valið á milli þess að fara niður að Eiðavatni og reyna að renna fyrir fisk, eða að fara á grasvöllinn og taka þátt í fótboltamóti þar sem helstu löndin á HM áttu auðvitað sína "fulltrúa" í nöfnum liðanna sem kepptu!
Nú er að hefjast kvöldmatur þar sem boðið verður upp á grjónagraut og slátur, en í kvöld er svo komið að síðustu kvöldvöku vikunnar, þar sem leiðtogarnir bregða á leik!
Bloggar | 8.7.2010 | 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flestum gekk mun betur að sofna annað kvöldið sitt í sumarbúðunum en það fyrsta og sváfu vært og rótt. Í dag, á þriðja degi flokksins, hefur verið úrhellisrigning stóran hluta dagsins. Við létum það þó ekki stöðva okkur í að fara út heldur klæddum okkur bara þeim mun betur fyrir vikið. Eftir morgumatinn í morgun var því skundað niður á völl þar sem brennómóti flokksins lauk og einnig farið í fleiri leiki.
Í dag var messudagur og þar með sparifata- og veisludagur hjá okkur. Hádegismaturinn var því einkar veglegur eða bayonneskinka með kartöflum, grænmeti og sósu, mmm... og svo ís á eftir! Eftir mat var skipt í undirbúningshópa fyrir guðsþjónustuna þar sem sumir æfðu leikþátt, aðrir tónlistaratriði, enn aðrir undirbjuggu bænir og lestra og fjórði hópurinn skreytingar. Messan hófst svo kl. 14:30 og stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði í henni og áttu skilið veglegt messukaffi ráðskonunnar, rjómatertu, skúffuköku og sírópslengjur!
Núna er hópurinn úti í "góða veðrinu" í spennandi ratleik þar sem verið er að leita að fjársjóð! Fram undan eru svo grillaðar pylsur í kvöldmatinn, nammi namm...
Bloggar | 7.7.2010 | 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrsta kvöldið hjá 5. flokki hér í sumarbúðunum gekk að mestu leyti vel fyrir sig. Í kvöldmat fengu börnin skyr og brauð og að því loknu máttu þau leika sér að vild en margir tóku þátt í billjard-móti í umsjón Hlínar eða skelltu sér út með fót- eða körfubolta. Fyrsta kvöldvaka flokksins var í umsjón herbergja 3, 4 og 8 og er óhætt að segja að þar hafi verið mikið fjör - leikir, sull, grín og söngur! Í kvöldkaffinu fengu börnin ávexti og að lokinni helgistund á sal í umsjón Mörtu var haldið í háttinn um kl. 22. Börnin fengu kvöldsögu og spjall við leiðtoga inni á herbergjum og svo gekk mönnum auðvitað misvel að festa svefn eins og gengur fyrsta kvöldið í burtu frá pabba og mömmu - sumir sofnuðu strax en aðrir seinna. Á miðnætti voru þó nánast allir sofnaðir.
Það var svo ánægjulegt að sjá í morgun að þó einhverjir væru árrisulir og spenntir þá virtu börnin fyrirmæli um að halda ró þar til leiðtogi kom og vakti mannskapinn ljúflega kl. 8:30. Nýr dagur í sumarbúðunum hefst á fánahyllingu og morgunmat og svo er haldið á vit nýrra ævintýra. Þennan morguninn var ákveðið að kynjaskipta hópnum og leyfa stelpunum að fara að æfa sig að róa kanó meðan strákarnir reyndu með sér í útileikjum. Seinna í flokknum verður svo skipt þannig að allir fái að prófa allt sem sumarbúðirnar hafa upp á að bjóða. Stelpunum gekk nú bara ljómandi vel í kanóróðrinum á lygnri tjörn sem er miðja vegu milli sumarbúðanna og Eiðakirkju.
Í hádegismat fengu krakkarnir hakk og spagettí og voru svo lystug að Kristjana matráðskona hafði varla séð annað eins! Eftir hádegismatinn var komið að fræðslustund og síðan föndri dagsins, sem að þessu sinni voru skálar úr leir - kannski svipaðar þeim sem við ímyndum okkur að Jósef hafi borðað úr í Egyptalandi! Kaffibrauðið rann ljúflega niður, en hér er allt bakað á staðnum, bæði brauð og kökur og í meira lagi ljúffengt. Eftir kaffið var komið að einu af því allra skemmtilegasta sem við gerum á Eiðum - að fara út að vaða og busla í vatninu. Þó að sólin hafi falið sig bak við skýin var lygnt og prýðilegasta veður til að bleyta sig. Þegar menn komu upp úr voru þeir svo sendir beint í heita sturtu. Kvöldmaturinn var grænmetissúpa og pitsasnúðar en eftir hann var frjáls tími, notaður af flestum til ýmissa leikja, en nokkrir völdu að fylgjast með seinni hálfleiknum í leik Úrúgvæ og Hollands á HM sem sýndur var á tjaldi. Kvöldvakan var svo í umsjón herbergja 1, 2, 6 og 7 að þessu sinni og að henni lokinni voru melónur og bananar í kvöldsnarlinu. Nú er bænastund lokið og leiðtogar að lesa fyrir börnin kvöldsöguna á herbergjum. Góðum degi við Eiðavatn að ljúka.
Bloggar | 6.7.2010 | 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þá er 5. og síðasti flokkur sumarsins hafinn hér við Eiðavatn og stútfullur hópur af sprellfjörugum börnum kominn í hús. Þegar mamma og pabbi voru búin að kveðja grislingana sína í morgun komu allir á sal til að kynnast hvert öðru og húsreglunum, læra nöfnin í laufléttum leik og syngja nokkra söngva. Í hádegismatinn voru fiskibollur með karrýsósu og meðlæti en eftir matinn fór Hjalti Jón með alla út í eitt stykki öflugan skotbolta enda veðrið prýðilegt.
Eftir spriklið var komið að fyrstu fræðslustund flokksins þar sem krakkarnir sáu fyrsta hluta framhaldsleikritsins um hann Jósef í Gamla testamentinu og ævintýri hans. Við byrjuðum líka að læra bænir og spjölluðum aðeins saman um gildi bænarinnar. Nú stendur yfir föndurstund þar sem glæsilegar lyklakippur eru í vinnslu. Einnig er leynivinaleikur að hefjast og ríkir mikil spenna yfir honum! - Fyrstu myndir flokksins eru væntanlegar á vefinn innan skamms.
Bloggar | 5.7.2010 | 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Já, enn einn góði dagurinn búinn hér hjá okkur við Eiðavatn. Fáránleikar fóru fram hér í morgun en þar er um að ræða Ólympíuleika í fáránlegum íþróttum. Sem dæmi um slíkar íþróttir má nefna tuskukast, blindandi vítaspyrnukeppni og skókast. Heppnuðust leikar vel og fóru þeir vel fram. Eftir hádegismatinn héldum við á fræðslustund og fylgdumst áfram með sögunni af Jósef og bræðrum hans. Við máluðum svo leirskálarnar sem við höfðum mótað fyrr í vikunni. Nú eru þær allar orðnar glaðlegar á að líta og minna okkur á kærleikann sem Guð gefur okkur og gerir okkur svo glöð.
Gríðarmikill metnaður var lagður í hárgreiðslu í dag en seinnipartinn var efnt til hárgreiðslukeppni. Talsvert magn af geli og öðrum hársnyrtivörum fór í hár barnanna og var afraksturinn alveg frábær. Gullfallegar fléttur, uppsett hár og hanakambar voru meðal þess sem við fengum að sjá í dag. Myndir eru komnar í myndaalbúm af módelum dagsins.
Í kvöld sáu leiðtogarnir um kvöldvökuna og fóru að sjálfsögðu á kostum. Allir skemmtu sér konunglega og fengu íspinna í lok kvöldvöku. Að lokinni hugleiðingu var svo boðið upp á "videokvöld" og liggja nú langflestir á dýnum inni í sal og horfa á Narníu. Þeir þreyttustu eru þó farnir að sofa.
Sem sagt ... frábær dagur á enda runninn.
Sjáumst á morgun!
Bloggar | 2.7.2010 | 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær dagur á enda og börnin komin í ró.
Dagurinn hófst að vanda á fánahyllingu og morgunmat og svo fór helmingur barnanna á báta á tjörnina á meðan aðrir kepptu á "kubb-móti" og léku sér úti í ágætis veðri. Við undirbjuggum einnig messu áður en við fórum í betri fötin og borðuðum dýrindis gúllassúpu og fengum svo ís í eftirrétt. Að því loknu lögðum við af stað til Eiðakirkju þar sem við sátum messu hjá sr. Jóhönnu og tókum virkan þátt sjálf. Hluti hópsins var búinn að æfa nokkra söngva, vorum m.a.s. með slagverkshljómsveit, aðrir höfðu undirbúið leikþátt um miskunnsama Samverjann, enn aðrir lásu úr Biblíunni og sumir höfðu búið til bænir sem þeir fóru með í messunni. Það var ákaflega gaman að fara með krakkana í Eiðakirkju og fannst þeim hún bæði lítil og falleg.
Eftir messu beið okkar veislukaffi en Kristjana og Guðný í eldhúsinu passa svo sannarlega upp á það að allir fái nóg að borða og maturinn er ekki af verri endanum.
Eftir kaffið skiptum við aftur yfir í "venjulegu" fötin og kepptum innbyrðis í brennó. Mikið fjör var í kringum það og fær sigurliðið að keppa við leiðtogana síðasta daginn.
Kvöldvakan var vel heppnuð, í boði stelpnanna í herbergjum 6, 8 og 9 og allir skemmtu sér hið besta við leik og söng.
Eftir góða hugleiðingu frá Hjalta héldu menn svo inn á herbergi þar sem lesnar voru framhaldssögur og eru það virkilega notalegar stundir með börnunum.
Nú eru allir komnir í ró og vonandi allir sofnaðir. Hlökkum til morgundagsins.
Bloggar | 1.7.2010 | 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Börnin voru vakin kl. hálfníu í morgun og upp úr því fórum við út að fánastöng og drógum fánann okkar að húni. Eftir morgunmatinn var hópnum skipt í tvennt, annar helmingurinn fór á báta á Eiðavatni á meðan hinn hópurinn fór í skemmtilega leiki á íþróttavellinum. Svo skiptu hóparnir um hlutverk. Allir skemmtu sér konunglega bæði á bátum og í leikjum. Fiskurinn í hádeginu rann ljúflega niður hjá langflestum og eftir matinn fengum við að sjá annan hluta leikritsins um Jósef og bræður hans. Eftir góðar umræður um söguna gerðum við skálar úr leir sem nú bíða þess að verða þurrar svo hægt verði að mála þær síðar í vikunni. Vinaböndin gerðu líka stormandi lukku og gengur maður nú ekki um húsið öðruvísi en að sjá krakka hnýta vinabönd í öllum skúmaskotum. Eftir kaffitímann fóru svo allir út í ratleik.
Strákaherbergin fjögur sáu um kvöldvökuna í kvöld og ríkti mikil gleði og kátína í hópnum meðan á henni stóð. Það er líka gaman að segja frá því að hópurinn er mjög duglegur að taka undir sönginn með okkur. Líflegur og skemmtilegur hópur sem nú er kominn í ró og allflestir komnir í draumaheiminn.
P.s. Nú erum við búin að búa til myndaalbúm fyrir 4. flokk og hvetjum ykkur endilega til að skoða myndirnar sem þar eru. Við munum svo bæta við myndum eftir því sem tækifæri gefast.
Bloggar | 30.6.2010 | 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var eftirvæntingarfullur hópur barna sem mætti hér í morgun, allir tilbúnir að takast á við sumarbúðafjörið. Við hófum daginn á sameiginlegri stund í sal þar sem allir voru boðnir velkomnir, kynntu sig og farið var yfir helstu reglur. Auk þess lærðum við nokkur af þeim lögum sem eiga eftir að óma hér næstu daga. Eftir ljúffengar kjötbollur í hádeginu var svo fyrsta fræðslustundin og fengum við að sjá fyrsta hluta leikritsins um Jósef og bræður hans. Í kjölfarið föndruðum við lyklakippur sem geta minnt okkur á að bænin er lykillinn okkar að Guði. Eftir kaffitímann skiptum við hópnum í tvennt og fór annar helmingurinn á báta en hinn í ýmsa skemmtilega útileiki. Við munum svo skipta um hlutverk á morgun. Vaskar stelpur í herbergjum 5, 7 og 10 undirbjuggu svo fádæma skemmtilega kvöldvöku á meðan aðrir fengu val um að fara út í fótbolta eða leika sér inni og skemmtum við okkur svo vel á kvöldvökunni og virðast einhvers konar "sullleikir" hafa vinninginn. Eftir kvöldsögu fóru svo allir inn á herbergi og áttu þar góða stund með einhverjum leiðtoganna áður en farið var að sofa. Þegar þetta er skrifað er komin ró á liðið og ættu allir að hvílast vel í nótt.
Bloggar | 29.6.2010 | 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar