Í dag, laugardaginn 7. júlí, vöknuðu krakkarnir hér í sumarbúðunum að vanda kl. 8:30. Að loknum morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum hófst fræðslustund dagsins þar sem börnin sungu og horfðu á leikþátt þar sem þau lærðu um skírn Jesú og upphafið á starfi hans. Fræðslunni lauk með föndri, trékrossum sem börnin máluðu og bundu saman.
Í hádegismatinn var svo steiktur fiskur með kartöflum, og að matnum loknum kom langferðabíll að sækja hópinn. Förinni var heitið á Egilsstaði, en í hverjum flokki fara sumarbúðakrakkarnir þangað í skemmtitúr. Fyrst var farið í Söluskála KHB, þar sem hver og einn mátti kaupa sér gúmmulaði og gómsæta drykki fyrir 300 kr. Ýmsir fengu þó reyndar meira gotterí en sem upphæðinni nam, því að helmingsafsláttur var á nammibarnum í dag - laugardag!
Þá var farið í Selskóginn, þar sem orkan úr sælgætinu var nýtt til ýmissa leikja. Ekki skorti krakkana verkefni í aparólunni, kastalanum, í skóginum og annars staðar. Eftirmiðdagshressingin var snædd í Selskógi og síðan farið í sundlaugina. Þar var nú aldeilis ærslast og heldur betur glatt á hjalla, þó allt undir styrkri stjórn leiðtoganna.
Þegar rútubíllinn hafði skilað hópnum aftur í sumarbúðirnar var kominn tími fyrir kvöldmat, grillaðar pylsur með tilheyrandi meðlæti, og gerðu menn þeim góð skil. Eftir matinn fóru nokkrir krakkar svo í veiðiferð með Hlín sumarbúðastjóra og veiddi hún Ísabella ljómandi fallegan fisk! Kvöldvakan var að þessu sinni í umsjón herbergja 3 og 4, mikið fjör þar, og degi allra saman lauk eins og vanalega með helgistund, þar sem við heyrðum að þessu sinni söguna um Jesú og Sakkeus. Foringjarnir lásu svo fyrir börnin í herbergjum og sofnuðu menn fljótt eftir erfiðan dag. Nú er komið miðnætti og ró komin í sumarbúðirnar við Eiðavatn.
Bloggar | 8.7.2007 | 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag hefur verið mikið fjör þrátt fyrir blautt veður. Fyrir hádegi var skroppið á báta og nutu krakkarnir sín vel, sumir töldu sig jafnvel hafa séð lagarfljótsorminn. Í hádegismat voru svo bjúgu með kartöflumús og grænum baunum og borðuðu nokkur hátt í fjögur stykki af bjúgum.
Eftir hádegismat var fræðslustund þar í formi leikrits þar sem við lærðum um heilagan anda og fengum meðal annars dúfu í heimsókn. Eftir fræðsluna skreyttu börnin svo bænakerti sem þau taka með sér heim í lok flokksins.
Þegar kaffitíma var lokið var haldið niður á fótboltavöll í sto og einnig var fótboltamót. Börnin voru þar í um klukkutíma og var þá kominn tími á að halda upp í sumarbúðir í þurr föt. Svo voru hópleikir í salnum fram að kvöldmat.
Eftir bragðgott skyr var frjáls tími fram að kvöldvöku en það voru drengir úr herbergjum 1 og 2 sem sáu um undirbúning hennar. Þar voru margir skemmtilegir leikir á ferð og skemmtu börnin sér dátt.
Nú eru börnin svo komin upp í koju á leið inn í draumalandið.
Bloggar | 6.7.2007 | 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja þá eru 23 hressir krakkar mættir á svæðið í þriðja flokk hérna í sumarbúðunum við Eiðvatn. Þetta er sem sagt fámennur flokkur en góðmennur og ætti að gefa börnunum tækifæri á að kynnast mjög vel.
Eftir að foreldrar voru farnir og börnin búin að koma sér fyrir komu allir saman inn í sal, leiðtogar og börn kynntu sig, sagt var frá reglum sumarbúðanna og við sungum saman. Hér eru greinilega miklir söngfuglar á ferð. Eftir að hafa gætt sér vel á pastasalati í kvöldmatnum var frjáls tími þar sem börnin fundu meðal annars nöfn á herbergin sín, en í þessum flokki enda öll herbergjanöfn á kista. Klukkan 20:00 var svo leikjakvöldvaka í boði Eyrúnar, Baldurs og Hólmgríms leiðtoga.
Í þessum skrifuðu orðum eru börnin nú búin að koma sér vel fyrir í kojum og hlusta á kvöldsögur leiðtoga sem munu svo einnig biðja með þeim kvöldbænirnar.
Fyrstu myndir flokksins má sjá með því að velja albúmið hér til hliðar.
Bloggar | 5.7.2007 | 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja þá hafa öll börnin haldið heim á leið eftir frábæru viku hér við Eiðavatn. Það var mikið fjör í gær, reyndar svo mikið að leiðtogarnir gáfu sér ekki tíma til að blogga.
Fyrir hádegi var farið í fótbolta og sto á vellinum okkar góða og mættu margir frekar sveittir í veisluhádegismatinn sem samanstóð af kjúklingi og frönskum. Börnin fengu þó tíma til að klæða sig í snyrtilegu fötin og svo strax eftir mat var farið að undirbúa messuna. Börnin lásu ritningarlestrana sjálf, léku guðspjallið, skreyttu salinn og voru alveg frábær kór. Það var gaman að sjá hversu dugleg börnin voru að taka þátt í messuhaldinu og undirbúningnum.
Eftir kaffi var svo nokkuð frjáls tími úti á stétt og var farið bæði í sto og snúsnú, enda sto vinsælasti leikurinn um þessar mundir.
Eftir að börnin höfðu gætt sér á ljúffengri flatböku var örlítill frjáls tími meðan leiðtogar hituðu upp fyrir síðasta brennóleikinn en í sumarbúðunum er það hefð að leiðtogar keppa við sigurlið brennómótsins. Eftir harða keppni og nokkrar deilur um aukalíf og fleiri hluti komust allir að þeirri niðurstöðu að rétt væri að semja um jafntefli. Þá tók við stórskemmtileg kvöldvaka í boði leiðtoga þar sem mörg furðuleg og skemmtileg leikrit voru sýnd. Í kvöldkaffinu var boðið upp á pinnaís. Í stað þess að halda svo í háttinn héldu allir saman niður á fótboltavöll og settust við varðeld. Þar var limbókeppni, söngstund og að lokum helgistund þar sem börnin voru minnt á nærveru Krists í gleði og sorg.
Við leiðtogarnir viljum nota tækifærið og þakka börnunum fyrir frábæra viku hér í sumarbúðunum, þau stóðu sig öll eins og hetjur og mæta vonandi hress til leiks að ári.
Bloggar | 2.7.2007 | 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Já góða veðrið heldur áfram hér við Eiðavatn og höfum við svo sannarlega notið þess í dag. Fyrir hádegi var farið í heilmikla fjársjóðsleit sem samanstóð af ratleik með hinum ýmsu þrautum og nammileit í lokin. Hvert lið fékk einn poka af nammi sem börnin skiptu bróðurlega á milli sín. En þar sem börnin eru fljót að hlaupa og láta nokkrar þrautir ekki vefjast fyrir sér tók ratleikurinn stuttan tíma. Þá var haldið í fótboltamót og bocciamót fram að hádegismat þar sem fram voru bornar ljómandi fínar fiskibollur með karrýsósu.
Eftir hádegismatinn var fræðslustund þar sem við heyrðum um breytinguna sem varð á Páli postula, fyrst ofsótti hann kristna menn en snérist svo sjálfur til kristinnar trúar. Listamaðurinn í börnunum fékk svo að sjálfsögðu að njóta sín þar sem föndruð voru bókamerki úti á stétt og börnin léku sér í sólinni fram að kaffi.
Eftir kaffi var svo hin langþráða útivera þar sem börnin fengu að bleyta sig og stukku í Eiðavatn. Margir komu nú vel drullugir aftur upp að sumarbúðum og fengu þá á sig væna gusu úr brunaslöngunni áður en haldið var í heita sturtu.
Við fengum líka góða gesti í heimsókn en hingað kom hópur frá Hollandi sem kallar sig Ungt fólk með hlutverk. Þau spjölluðu mikið við börnin og sýndu svo leikrit og sögðu þeim frá hvernig Guð hefur snert við lífi þeirra.
Eftir vænan slurk af kakósúpu var svo frjáls tími þar sem nokkrar hraustar hetjur héldu til veiða, því miður beit þó enginn fiskur á í þetta skiptið.
Kvöldvakan var í umsjá herbergja 1 og 2 og gott ef fjörið eykst ekki bara með hverju kvöldinu, það minnkar allavega ekki. Annað kvöld sjá leiðtogarnir svo um kvöldvökuna og mun fjörið þá ná hámarki.
Bloggar | 1.7.2007 | 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja þá er ferðadagurinn okkar að kvöldi kominn og börnin komin í ró enda þreytt og sæl eftir góðan dag. Eftir morgunmat, morgunleikfimi og fánahyllingu var haldið í fræðslu þar sem börnin sáu leikrit um það þegar heilögum anda var varpað yfir lærisveinanna. Eftir góða og fróðleiksfúsa fræðslu fengu börnin nú aldeilis að njóta sköpunarhæfninnar þar sem farið var að skreyta kerti í öllum regnbogans litum og var ekki laust við sannkallaða framtíðarlistamenn.
Dagurinn var frábrugðinn að þessu sinni þar sem farið var með rútunni Maddý áleiðis til Eigilstaða. Þar fengu bragðlaukarnir og leikir barnanna heldur betur að njóta sína þar sem stoppað var með hraði í Söluskálanum og keypt nammi fyrir vasapeninginn. Varð heldur betur örtröðin og þurftu leiðtogar að skammta börnum inn í skálann. Á meðan var eintóm gleði og ánægja í rútunni þar sem hinir búnu og bíðendur biðu eftir stuttri för sinni inn í heim freistinganna.
Því næst lá leið okkar inn í Selskóg þar sem börn og leiðtogar léku við hvern sinn fingur í hinum ýmsu leikjum og leiktækjum. Síðast en ekki síst var svo haldið í sundlaugina á Egilsstöðum þar sem var bæði hægt að slappa af í heita pottinum og fíflast í sundlauginni. Þegar heim var börnunum boðið út að borða í góða veðrinu og pylsur grillaðar á stéttinni fyrir utan sumarbúðirnar.
Í kvöldmatnum þurftum við að kveðja Óla sumarbúðastjóra sem þurfti að halda til Reykjavíkur að sinna preststörfum. Það kemur þó ætíð maður í manns stað og við fengum góðan liðsauka. Hún Marta sem hefur meðal annars séð um barnastarfið í Egilsstaðakirkju og þekkir því marga krakka hér í sumarbúðunum verður með okkur yfir helgina.
Kvöldvakan var svo í boði herbergja 7 og 8 og var mikið fjör á henni eins og ætíð hefur verið hjá þessum hressu og skemmtilegu börnum.
Bloggar | 30.6.2007 | 00:39 (breytt kl. 00:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagurinn hófst að venju kl. 8.30 þegar krakkarnir voru ræstir! Einhver þreyta var í mannskapnum, en þó enginn morgunfúll, heldur allir glaðir að takast á við nýjan dag. Að venju var hafragrauturinn vinsælasti morgunmaturinn og flestir tóku þeirri áskorun að fá sér lýsi með morgunmatnum. Þá var fánahylling og söng hópurinn hinn fallega söng, ,,Fáni vor sem friðarmerki."
Eftir tiltekt í herbergjum var haldið í rústagönguna vinsælu, en þá er gengið að gömlum rústum hér í nágrenninu og þar sem falinn er fjársjóður í formi sælgætispoka! Í hádegismatinn var ofnbökuð ýsa, sem rann ljúflega niður eins og flest það sem í boði er hjá okkar kæru ráðskonum. Eftir hádegið var fræðslustund og föndur, en að þessu sinni voru útbúnar glæsilegar myndir á glærur, sem má svo festa á gler þegar heim er komið! Eftir kaffi var svo haldið í bandý- og brennómót og að því loknu var svo kvöldmatur, sem samanstóð af hrærðu skyri og brauði og var vel borðað af matnum.
Að þessu sinni sáu herbergi 5 og 6 um kvöldvökuna sem heppnaðist mjög vel. Kvöldkaffi og kvöldbænastund voru með hefðbundnum hætti og nú eru allir komnir í ró og hlakka til að takast á við verkefni morgundagsins. En á morgun verður ferðadagurinn okkar, þá munum við versla okkur sælgæti í KHB, fara í Selskóg og síðan í sund! Það eru vinsælar ferðir og skemmtilegar... fréttir frá ferðinni annað kvöld!
Bloggar | 29.6.2007 | 00:04 (breytt kl. 00:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 28.6.2007 | 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það verður ekki sagt að veðrið hafi leikið við hópinn í dag! Dagurinn hófst skv. dagskránni kl. 8.30 þegar Hlín vakti hópinn og áttu börnin misauðvelt með að vakna. Þá tók við morgunmatur og fánahylling og var ákveðið, þar sem nokkuð lygnt var á vatni, að fara á bátana strax á eftir. Var mikið fjör á bátum, þrátt fyrir rigninguna og nokkra gjólu sem var komin undir hádegið, en engum var meint af og allir fóru sáttir í land eftir skemmtilega bátsferð.
Í hádegismat var afar bragðgott lasagne sem var afar gott og þá var farið í fræðslustund, en þema þessarar viku í fræðslunni er heilagur andi! Er fræðsluefnið skemmtilegt og fer að mestu fram í formi leikrits, þar sem leiðtoginn spjallar við dúfu sem kemur í heimsókn í sumarbúðirnar, afar skondið og skemmtilegt, en umfram allt lærdómsríkt. Eftir fræðsluna er föndur, og í dag útbjuggu krakkarnir fallega trékrossa sem þau máluðu svo og munu foreldrarnir sjá afraksturinn þegar þau koma og sækja börnin! Að loknu föndrinu var kaffi og var brauð og nýbökuð sjónvarpskaka á boðstólnum. Að afloknum kaffitíma var farið í fáránleika, sem eru skemmtilegir leikar, þar sem keppt er í furðuþrautum eins og skósparki og fleiru og var afar skemmtilegt. Þá var kvöldmatur sem samanstóð af ávaxtagraut og brauði og við tók þá kvöldvaka sem herbergi þrjú og fjögur sáu um og tókst hún mjög vel og mikil og góð stemning á vökunni. Í kjölfarið var kvöldbænastund og þá tók við kojan og nú eru allt komið í ró í búðunum og bíða krakkarnir spennt eftir næsta degi, og er það einlæg von okkar að veðrið verði eitthvað fallegra á morgun! En dagurinn í dag hefur verið frábær, krakkarnir jákvæðir og allt gengið eins og í sögu og engin alvarleg vandamál komið upp!!!! Fleiri fréttir annað kvöld...!!!
Bloggar | 27.6.2007 | 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já fyrsti dagur í nýjum flokki og greinilega góð stemning í hópnum. Allir komu sér vel fyrir í herbergjum og þá var kallað á stund í salnum, þar sem allir kynntu sig og reglur vikunnar kynntar og allir lofuðu að fylgja þeim til hins ítrasta. Þá tók við kvöldmatur, sem stóð af pastasalati og nýbökuðum brauðbollum sem runnu ljúflega niður. Kvöldvakan var hressandi, þar sem herbergi 9 og 10 stóðu sig með stakri prýði. Kvölkaffi og kvöldhressing áður en var háttað og gekk vel að koma krökkunum í ró, enda meðvituð að þau þurfa að vera vel úthvíld fyrir átök morgundagsins! Á morgun munum við setja myndir inn á vefinn úr flokknum auk nýrra frétta. Verið dugleg að fylgjast með....!!!
Bloggar | 27.6.2007 | 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar