Síðasti heili dagur 1. flokks rann upp bjartur og fagur og að þessu sinni sváfu allir vel og fram á níunda tímann. Þegar leið á morguninn tók þó að hvessa allverulega og um leið kólnaði. Við fengum samt góða gesti í heimsókn, þær Tíbrá og Mörtu með þrjá hesta og fengu allir að fara á hestbak sem vildu. Þeir sem biðu eftir að komast á hestbak fóru í skemmtilega leiki á meðan, t.d. skókast og að hlaupa í skarðið.
Börnin tóku vel til matar síns í hádeginu en þá var ljúffengt hakk og spagettí í matinn. Eftir hádegi tók fræðsla dagsins við, leikþáttur um Pál postula og starf Heilags anda. Föndraðir voru trékrossar en líka teiknað og litað. Þá voru krakkarnir duglegir að senda hver öðrum leynivinabréf. - Þó að hraustlega hafi blásið eftir kaffið lét enginn það á sig fá heldur klæddu menn sig bara vel og héldu út í fjársjóðsleit (sælgæti) og fleiri leiki. Kvöldmaturinn síðasta kvöldið var svo hin sívinsæla Eiðapitsa og með henni hófust hátíðahöld síðasta kvöldsins, lokakvöldsins, en þá er alltaf margt til gamans gert. Leiðtogarnir léku brennóleik við sigurlið krakkanna og sáu síðan um síðustu kvöldvökuna og brugðu á leik. Loks fengu allir ís og fylgdust með síðasta fræðsluleikþætti vikunnar.
Nú eru allir sofnaðir í síðasta skiptið, þreyttir og ánægðir krakkar sem héðan fara heim kl. 13 á morgun. Við þökkum fyrir ánægjulega samveru og vonumst til að sjá sem flesta að ári! Kveðja frá starfsfólki sumarbúðanna.
Bloggar | 24.6.2007 | 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bjartur og fagur rann upp hátíðisdagur í sumarbúðunum í dag. Klukkan var orðin rúmlega 8 þegar fyrstu börn fóru á stjá. Hin hefðbundnu morgunverk, morgunmatur og fánahylling voru að sjálfsögðu viðhöfð og á eftir var farið í fótboltamót á vellinum. Mikil stemning skapaðist og mikil keppni í mannskapnum. Þegar leið að hádegi höfðu krakkarnir fataskipti og fóru í sitt fínasta púss, enda gekk hátíðin garð á hádegi, þegar okkar kæru ráðskonur þær Valla og Guðný báru fram dýrindis lambalæri, úrbeinað að austan. Rann kétið ljúflega niður og í eftirrétt var vanilluís með hinum ýmsustu sósum. Eftir hátíðarsteikina var farið að undirbúa messuna, var krökkunum skipt upp í hópa, sönghóp, leikhóp, bænahóp, lestrar og skreytingahóp og í messunni stóðu allir hóparnir sig með stakri prýði. Valný Lára söng einsöng og gerði það stórkostlega! Eftir messu og messukaffi var skipt um dress og farið í hversdagsfötin og keppt í bandímóti auk annarrar afþreyingar á stéttinni. Sólin lék við okkur og hitinn fór hér upp úr öllu valdi (svona hér um bil) :) Í kvöldmat var stafasúpa og heimabakað brauð við góðar undirtektir krakkanna og mæltist svo einum fyrir að hann væri trúlega búinn að borða yfir 1000 stafi og það bara í kvöld! :)
Kvöldvakan gekk vel undir stjórn Eyrúnar og stúlknanna í herbergjum 6 og 7 og tók þá við kvöldkaffi og helgistund áður en haldið var í háttinn. Góður dagur að kveldi kominn. Á morgun fáum við skemmtilega heimsókn, en þá munu þrjú hross kíkja í bæinn með eigendum sínum og við fáum að fara á bak. Fleiri fréttir á morgun...
Bloggar | 22.6.2007 | 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Upp rann bjartur og fagur, en heldur hvass ferðadagur. Börnin voru ekki alveg eins árrisul þennan morguninn, en þó voru þau flest vöknuð áður en vekjarinn hún Hlín fór á stúfana! Allir voru glaðir í morgunmatnum og komu svo sprækir í morgunstund, eftir tiltekt í herbergjum. Var mikið stuð í morgunstundinni og föndur þessa dags var að mála myndir með gluggalitum á glærur. Glærurnar mega börnin svo taka með heim og á að vera hægt að skreyta rúðurnar heima með myndunum. Eftir ljúffenga, sjófrysta í ýsu sem flestir borðuðu með bestu lyst undirbjuggu krakkarnir sig svo fyrir ferðina og var haldið með Tanna Travel á Egilsstaði. Á Egilsstöðum var tekið á móti okkur í söluskálanum þar sem hver verslaði sér sælgæti fyrir 300 krónur! Þá var haldið í Selskóginn þar sem var farið í skemmtilega leiki, í rólurnar, rennibraut og fleira og drukkið kaffi, svona til þess að hafa þetta eins og í alvöru ,,pikknikki" (lautarferð). Þá var haldið í sundið, þar sem leiðtogarnir voru kaffærðir og var mikið stuð í lauginni. Úr lauginni var svo haldið heim á Eiðar, þar sem við grilluðum pylsur og þá var kvöldvaka, sem var að venju mikil stuðstund, sem stúlkurnar úr herbergjum 4 og 5 sáu um. Að henni lokinni var kvöldkaffi, og þá róleg kvöldstund og þá var komið sér í háttinn og voru börnin ekki lengi að sofna, enda þreytt eftir annasaman dag!
Nokkrar myndir eru komnar til viðbótar frá deginum í dag og má finna þær hér til hliðar. Það er gaman að fá kveðjurnar frá ykkur í gestabókina og hvet ég ykkur til að skrifa og láta vita af lestrinum. Á morgun verður hátíðardagur, þar sem verður lambalæri og ís í matinn, auk þess sem við verðum með guðsþjónustu hér í sumarbúðunum! Annars, fleiri fréttir á morgun...
Bloggar | 22.6.2007 | 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag var frábært veður hjá okkur í sumarbúðunum. Krakkarnir voru heldur morgunsprækir, sumir voru vaknaðir um kl. 6 og tilbúnir til að takast á við verkefni dagsins. Leiðtogar báðu þó krakkana vinsamlegast um að sofa pínulítið lengur en allir voru vaknaðir kl. 8 og tók við hefðbundin dagskrá kl. 9. Í morgun var farið á báta og komust allir heilir heim úr bátsferðunum og án nokkurrar sjóveiki. Eftir ljúfan hádegismat sem samanstóð af kjötfarsi og kartöflumús tók við hefðbundin fræðslustund, þar sem Hlín fór á kostum sem dúfan í leikritinu! Leikritið fjallaði um sköpun mannsins og það að Guð gefur manninum lífið, og fyrir það eigum við að þakka!
Þá tók við föndur dagsins, sem var afar einfalt, þar sem þau áttu að teikna blindandi hvort annað og voru margar teikningarnar afar skrautlegar! Þá var farið í skemmtilega útileiki þar sem krakkarnir lærðu brennó og var mikil kátína og stemning í hópnum! Að kvöldi dags var hressandi kvöldvaka, sem stúlkurnar í herbergjum 8 - 10 stóðu að og var mikið hlegið og meðal annars fengur þeir Þorvaldur og Óli Jói kalda vatnsgusu yfir sig þar sem þeir stóðu og sungu krummi krunkar úti!
Stefnan er svo sett á ferð á morgun og verða frekari fréttir sagðar annað kvöld! Myndir frá deginum má sjá í albúminu "flokkur 1" hér til hliðar.
Bloggar | 20.6.2007 | 22:38 (breytt 21.6.2007 kl. 00:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar