5. Flokkur

Í dag mættu hingað í sumarbúðirnar 37 hressir krakkar af austurlandi. Þau byrjuðu á því að koma sér fyrir en klukkan 18 var upphafsstundin okkar. Á upphafsstundinni kynntu leiðtogar og börn sig og einnig var sagt frá reglum sumarbúðanna. Þá var boðið upp á pastasalat í kvöldmatinn.

Eftir kvöldmat var frjáls tími þar sem börnin fundu nöfn á herbergin sín sem í þetta skiptið eiga öll að enda á holt. Þau útbjuggu síðan glæsileg spjöld með nafninu og reitum fyrir stjörnur, en þau fá stjörnur á hverjum degi fyrir tiltekt. Strákarnir í herbergjum 3 og 4 undirbjuggu svo kvöldvöku ásamt Þorgeiri leiðtoga og var hún að sjálfsögðu stórskemmtileg enda stórskemmtilegir strákar þar á ferð. Á helgistundinni sagði Eyrún okkur frá miskunnsama samverjanum og svo var bænastund í boði fyrir þá sem vildu en hinir fóru að hátta sig. Núna eru leiðtogar inni á herbergjum að lesa kvöldsögu fyrir börnin og biðja með þeim.

Fyrstu myndir eru komnar í albúmið hér til hliðar.

Góða nótt


Lokadagur 4. flokks

17. júlí rann upp, bjartur og fagur, seinasti heili dagur 4. flokks hér í sumarbúðunum í sumar, og það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við okkur hér við Eiðavatn í dag - enda komið nóg af rigningu í bilið!

Dagurinn hófst með hefðbundnum hætti, það er með morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum, en síðan tók við fyrsta útivera dagsins. Þar var skipt í lið og farið í stórskemmtilegan ratleik, þar sem liðin hlupu um sumarbúðasvæðið og leystu þrautir á stöðvum ratleiksins. Á hverri stöð fengu þau svo bókstaf í lausnarorði, en orðið gaf til kynna hvar fjársjóður - nefnilega sælgæti fyrir alla - var falinn.

Í hádegismatinn var ljómandi góður karrýfiskréttur með hrísgrjónum, grænmeti og rúgbrauði, og eftir matinn fræðslustund dagsins. Að þessu sinni fræddust börnin með aðstoð Dúbba dúfu og félaga um Esekíel, spámann úr Gamla testamentinu, og ræddu um vonarboðskap hans og mikilvægi bjartsýni og vonar í lífinu. Föndrið í dag minnti svo á von himinsins, sem við horfum til líkt og í gegnum glugga - en það voru einmitt málaðar gluggamyndir. Þegar heim er komið geta börnin tekið myndirnar af glærunum, sem þau máluðu á, fest þær upp í glugga í herberginu sínu og látið þær minna sig á vonina, sem við höfum rætt um. Á fræðslustundunum hafa krakkarnir einnig lært bænavers eftir Valdimar Briem, sem er svona: Þú Guð, sem stýrir stjarnaher/ og stjórnar veröldinni,/ í straumi lífsins stýr þú mér/ með sterkri hendi þinni.

Nú nú, eftir fræðslu og föndur var komið kaffi og höfðu matráðskonurnar góðu gert sér lítið fyrir og bakað indælis sjónvarpsköku ofan í hópinn. Hún var snædd með bestu lyst og auk þess smurt brauð. Eftir kaffið hélt hópurinn niður á völl þar sem fram fór knattspyrnumót flokksins. Þar var aldeilis hart barist, en svo slegið á léttari strengi og farið út að vaða í Eiðavatninu í þessari líka brakandi blíðu. Skemmtu menn sér hið besta við buslið.

Kvöldmatur lokakvöldsins var að vanda flatbaka með skinku og pepperóní og rann hún ljúflega ofan í mannskapinn. Klukkan átta hófst svo síðasta kvöldvaka flokksins með brennóleik leiðtoganna við sigurvegara brennómótsins. Var fyrst leikinn æfingaleikur, sem krakkarnir unnu, en síðan annar leikur, sem leiðtogarnir unnu. Má því segja að liðin hafi verið jöfn að styrkleika þegar upp var staðið, en þetta var auðvitað bara til gamans gert. Og ekki síður voru skemmtiatriði kvöldvökunnar til gamans gerð, þegar leiðtogarnir brugðu sér í ýmis hlutverk og tróðu upp með mikið grín undir merkjum leikfélagsins "Týnda gúmmíhanskans."

Kvöldinu lauk með helgistund þar sem Þorvaldur leiðtogi ræddi við okkur um fyrirgefninguna og boðskap Jesú um hana. Nú er klukkan að nálgast miðnætti, ró komin í sumarbúðirnar og flestir sofnaðir. Við þökkum kærlega fyrir skemmtilegan flokk, sjáumst kl. 13 á morgun (miðvikudag).


Nýjar myndir komnar inn

Við viljum vekja athygli á því, að nú eru komnar nýjar myndir inn í albúmið "flokkur 4" hér til hliðar - margar myndir frá ferðalaginu okkar í gær. Kveðja, leiðtogarnir.

16. júlí - ferðadagur

Það voru augljóslega allir þreyttir í gærkvöldi, bæði börn og leiðtogar því við steingleymdum að blogga fyrir svefninn. En gærdagurinn var mjög góður. Við breyttum aðeins til og höfðum fræðsluna fyrir hádegi enda ferðadalag eftir hádegi. Eftir að hafa gætt sér á lasagne var haldið með rútu til Egilsstaða. Fyrsta stopp var sjoppan þar sem allir fengu að kaupa sér nammi, síðan var haldið í Selskóg, öll leiktækin skoðuð og nesti snætt. Eftir kaffi var svo sundlaugin heimsótt og var alveg frábært að bleyta sig í hitanum. Við fengum nefnilega alveg frábært veður í gær og buðum börnunum því út að borða þar sem við grilluðum pylsur úti á stétt þegar heim var komið.

Kvöldvakan var svo í boði herbergja 8 og 9 en hún var löng og skemmtileg enda hugmyndaríkar stelpur þarna á ferð. Í kvöld sjá leiðtogarnir svo um kvöldvökuna en þetta er síðasti heili dagurinn okkar saman.

Í þessum skrifuðu orðum er verið að gefa börnunum stjörnur fyrir tiltekt og heyrist sigursöngur frá nokkrum drengjum. Leiðtogar eru aftur á móti að undirbúa skemmtilega fjársjóðsleit fyrir börnin sem hefst innan skamms.

Við sjáumst svo klukkan 13 á morgun þegar börnin verða sótt!

PS myndir frá gærdeginum koma inn seinna dag þegar frekari tími gefst til tölvuvinnu.


veisludagur

Í dag er sunnudagur en þá er veisludagur hér í sumarbúðunum. Af því að það er veisludagur og af því að það var náttfatapartý í gær var smá útsof í morgun. En þegar allir voru vaknaðir var haldið bandýmót hérna á stéttinni og það voru herbergi 3 og 7 sem unnu. Þegar mótið var búið fóru allir í sparifötin sín og við borðuðum dýrindis veislumat og fengum svo ís í eftirrétt.

Eftir matinn fórum við svo að undirbúa messuna. Krakkarnir sáu sjálfir um messuna og stóðu þau sig mjög vel. Sumir lásu ritningarlestur, aðrir léku biblíusögu, sumir sömdu bænir og lásu upp og og svo voru líka einhverjir sem sungu. Þegar messan var búin var svo haldið út á stétt þar sem tekin var hópmynd.

Í seinni útiverunni fórum við í göngutúr út í gamlar rústir sem eru hérna rétt hjá. Þar fórum við í leiki og svo fengu allir smá nammi:)

Það fóru líka nokkrir krakkar í veiðiferð og komu svo heim með stærðarinnar fisk.

Kvöldvakan í kvöld var svo í umsjá stelpnanna úr herbergum 6 og 7 og tókst hún mjög vel.

Þetta er því búið að vera sannkallaður veisludagur hjá okkur í sumarbúðunum í dag.


Laugardagur 14. júlí

Við höfum átt góðan dag hérna saman í sumarbúðunum. Eftir morgunmat og fánahyllingu fengum við góða gesti en tvær ungar stúlkur, þær Marta og Tíbrá mættu til okkar með þrjá hesta, þá Þokka, Hauk og Kára. Börnin fengu öll að taka stuttan reiðtúr með leiðtoga sér við hlið en mörg stjórnuðu hestinum sjálf. Það rigndi örlítið á okkur í morgun og það voru þreytt og glöð börn sem mættu í hádegismat og borðuðu steiktan fisk með bestu lyst.

Eftir hádegi var fræðsla um heilagan anda og föndruðu börnin kross sem minnir okkur á eilífa lífið með Guði. Krossinn er sigurtákn en ekki sorgartákn. Eftir kaffi fengu svo nokkur börn að fara í veiðiferð með Hólmgrími. Í þetta skiptið veiddust þrír fiskar en fleiri börn fá að fara að veiða á morgun. Þeir sem ekki fóru með í veiði tóku þátt í stórskemmtilegum fáránleikum þar sem keppt var í ýmsum mishefðbundnum íþróttagreinum.

Eftir kvöldmat skoraði Hlín á krakkana í borðtennis og spilaði í klukkutíma eða alveg fram að kvöldvöku. Það endaði þannig að engum tókst að sigra hana nema Hafrúnu en mun það vera í fyrsta skipti sem Hlín tapar í borðtennis í sumar. Heyrst hefur þó að nú eigi Hafrún von á annarri áskorun frá Hlín og eru væntanlega fleiri börn sem vilja fá annað tækifæri til að reyna að vinna.

Herbergi 1 og 2 sáu um kvöldvökuna í þetta skiptið en það voru allir strákarnir í flokknum, kvöldvakan var að vonum stórskemmtileg hjá strákunum. Hún hafði þó byrjað óvenjusnemma enda höfðu leiðtogar planað óvænt náttfatapartý með börnunum. Nú liggja öll börnin inni í sal og hafa það notalegt yfir bíósýningu!

Við segjum þetta gott frá sumarbúðunum í dag og bjóðum góða nótt.


Föstudagurinn 13.

Jæja þá er dagur að kveldi kominn. ljóst er að við hefðum kosið betra veður en eins og frændur okkar í Noregi segja þá er ekki til "slæmt eða óheppilegt veður" heldur einungis "slæm eða óheppileg föt". við tókum þetta alvarlega og fórum á báta í morgun. skemmtu krakkarnir sér konunglega og voru það rennblautir en glaðir krakkar sem komu í hádegismat. eftir fræðsluna hófst brennó mót sem lauk með sigri herbergja 1 og 9. þá var rigningunni gefið frí og farið í marga skemmtilega leiki inni í sal. hlátrasköll og skrækir einkenndu þá samveru. þegar kvöldmatnum lauk hófst borðtennismót sem Hafrún sigraði. þá undirbjuggu herbergi 3 og 4 kvöldvöku sem var löng en mjög skemmtileg. nú er helgistund lokið og börnin búin að undirbúa sig fyrir háttinn. ekki veitir af öllum þeim svefni sem hægt er að fá því morgundagurinn verður strembinn. hefst hann á því að krakkarnir fá að fara á hestbak.

allir glaðir og skemmta sér vel.


4. flokkur

Jæja þá er fyrsti dagur fjórða flokks hérna í sumarbúðunum að kveldi kominn. Eftir að börnin höfðu komið sér fyrir í herbergjum sínum var boðið til upphafsstundar í salnum okkar. Þar kynntu sig allir, bæði leiðtogar og börn og einnig voru reglur sumarbúðanna kynntar fyrir börnunum. Strax að stundinni lokinni var kvöldmatur en að þessu sinni var boðið upp á ljómandi gott pastasalat og brauðbollur og tóku börnin vel til matar síns.

Þá tók við frjáls tími þar sem börnin útbjuggu nöfn á herbergin sín, en að þessu sinni enda öll herbergjanöfnin á kot. Klukkan hálf níu var svo kvöldvaka þar sem stúlkurnar um herbergi fimm sáu um skemmtidagskrána og voru margir skemmtilegir leikir í boði. Eftir kvöldvöku tók við kvöldkaffi og strax í framhaldi helgistund þar sem Sigríður Ásta leiðtogi sagði okkur sögu úr Biblíunni. Eftir helgistund máttu börnin velja um að fara á bænastund með Þorgeiri leiðtoga eða beint í háttinn. Það var ánægulegt að sjá hversu mörg börn tóku þátt í bænastundinni en það var um hálfur flokkurinn. Nú hafa leiðtogar lokið lestri kvöldsögu og kvöldbæna með börnunum og allt komið í ró í sumarbúðunum.

Góða nótt.

PS Fyrstu myndir úr flokknum koma inn á morgun.


Lokakveðja 3. flokks

Þá eru börnin í 3. flokki farin heim til sín eftir ánægjulega og viðburðaríka daga í sumarbúðunum hér við Eiðavatn. Síðasti heili dagur flokksins hófst með hefðbundnum hætti á morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum, en síðan var farið út í rústir skammt frá sumarbúðunum og í litaleik þar, og að því búnu í skemmtilega fjársjóðsleit, ratleik í umhverfi sumarbúðanna.

Hádegisverðurinn var hakk og spagettí en eftir hádegi tók við fræðslustund á sal um Pál postula og svo föndur dagsins, gluggamálning. Í eftirmiðdaginn var farið aftur út, að þessu sinni í brennó, og stóð lið herbergja 3 og 4 uppi sem sigurvegari í brennómótinu eftir harða og spennandi keppni. Þá var einnig farið í veiðiferð þó að aðeins hafi verið kastað frá landi að þessu sinni vegna öldugangs á vatninu, en hann Kristófer náði nú samt sem áður að veiða vænan fisk.

Í matinn síðasta kvöldið var pitsa með skinku og pepperóní, en um kvöldið fór fram síðasta kvöldvaka flokksins. Hún hófst með brennóleik leiðtoga og sigurvegara brennómótsins, en síðan var röðin komin að leiðtogunum að bregða á leik og skemmta krökkunum með alls konar gríni. Þá var nú aldeilis glatt á hjalla. Kvöldinu lauk með því að allir fengu íspinna og horfðu á síðasta fræðsluleikþátt flokksins, um spámanninn Esekíel úr Biblíunni og gildi þess að vera bjartsýnn, jákvæður og halda í vonina.

Auðvitað gekk mönnum misvel að sofna eins og gengur síðasta kvöldið, þegar leiðtogarnir höfðu lesið sögu og beðið kvöldbænir inni á herbergjum, en allir sofnuðu nú fyrir rest og vöknuðu sprækir í pökkun og frágang í morgun. Kl. 11 hófst síðasta samverustund flokksins, lokastund þar sem börnin fengu afhent viðurkenningarskjöl sín fyrir þátttökuna í flokknum og sigur í kappleikjum, uppljóstruðu um leynivini sína, skemmtu sér yfir myndum úr flokknum og hlutu fararblessun. Eftir það var farið beint í hádegismatinn, grjónagraut og slátur.

Við starfsmenn sumarbúðanna þökkum börnunum í flokknum kærlega fyrir samveruna. Vonum að allir hafi komið ánægðir heim og einhverjir komi jafnvel aftur að ári. Myndir frá síðasta deginum eru komnar á síðuna.

Bestu kveðjur frá Eiðum, Hlín, Hólmgrímur, Þorvaldur, Baldur, Eyrún og Þorgeir.


sunnudagur - góður dagur

Í sumarbúðunum eru sunnudagar hátíðardagar. Þá klæðum við okkur í sparifötin, borðum góðan mat og erum með messu.

Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt komu tvær stúlkur, Tíbrá og Marta með þrjá hesta í heimsókn til okkar. Allir sem vildu fengu að fara á bak og var gengu stelpurnar stuttan hring með hestunum. Þeir sem eru vanir hestamenn fengu að stjórna sínum hestum sjálfir en það þurfti enginn að vera hræddur því stelpurnar gripu í tauminn ef hestarnir ætluðu ekki að hlýða.

Eftir hestaferðina gafst börnum og leiðtogum tími til að fara í sparifötin því í hádeginu beið okkar stórkostlegur hátíðarmatur en það var Bayonneskinka með brúnuðum kartöflum og rauðkáli. Það tóku allir vel til matar síns og svo var ís í eftirrétt. Eftir hádegismat söfnuðust allir saman í salnum til að undirbúa messuna en börnin sáu um ritningarlestur og almenna kirkjubæn. Það var líka hópur sem lék guðspjallið og annar sem leiddi sönginn. Messan gekk mjög vel og krakkarnir stóðu sig með stakri prýði og sýndu hversu góður hópur er hér á ferð.

Eftir kaffi var æsispennandi brennómót og fær sigurliðið að keppa við leiðtogana á lokakvöldinu. Í kvöldmatin var svo kakósúpa og eftir hana fóru allar stelpurnar að undirbúa kvöldvöku. Nokkrir strákar skruppu í veiðiferð og veiddist vel í kvöld en þeir komu til baka með tvo fiska en höfðu líka misst einn stóran. Kvöldvakan var að vonum hress og skemmtileg.

Nú eru leiðtogar að lesa kvöldsögu fyrir börnin og biðja með þeim kvöldbænirnar áður en allir fara að sofa.

Góða nótt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband