Bloggar | 9.7.2008 | 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagur er að kvöldi kominn í sumarbúðunum, en veðrið hefur leikið við okkur í dag þrátt fyrir svalan gust. Í morgun voru öll börnin steinsofandi þegar átti að vekja þau en voru dugleg að fara á fætur, taka til í herbergjum, hylla fánann og borða morgunmat. Síðan var nú loksins hægt að drífa sig út á báta við miklar vinsældir. Sumir fengu að fara einir á kanó inni í vík Eiðavatnsins en aðrir sigldu lengra út á vatnið á árabátum með leiðtogum. Allir þurftu að fara í björgunarvesti. Þegar inn var komið af vatninu beið okkar svikinn héri með kartöflum, brúnni sósu og salati og er óhætt að segja að menn hafi tekið vel til matar síns!
Eftir hádegismatinn var hefðbundin fræðslustund og var að þessu sinni sýndur leikþáttur, sem kenndi okkur hve mikilvægt það er að nota þá hæfileika, sem Guð hefur gefið okkur, og finnast maður ekki vera þýðingarlítill - því það er jú enginn. "Föndur" dagsins var óvenjulegt, því að það voru kókoskúlur sem börnin hnoðuðu og mótuðu og borðuðu síðan með bestu lyst í kaffinu, ásamt brauði og afmæliskökunni hennar Maríu Bóelar, sem varð sjö ára í dag. Til hamingju með daginn!
Ratleikur með miklum hlaupum og fjöri tók við síðdegis og svo frjáls tími undir kvöld, þar sem börnin gátu teiknað og perlað, leikið sér með bolta og bandýkylfur eða hvað sem þeim datt í hug - jafnvel leitað að spennandi leynistöðum í runnunum í nágrenni sumarbúðanna! Í kvöld fengu einnig þeir sem komu með veiðistangir að rölta niður að vatni í fylgd með Hlín sumarbúðastjóra og renna fyrir fisk, en ekki beit hann á í þetta skiptið. Í kvöldmatnum leyfði Kristjana ráðskona börnunum að velja á milli þess að fá makkarónugraut með kanelsykri og rúsínum eða skyr með mjólk. Nú er kvöldvöku að ljúka og framundan vanaleg kvölddagskrá með ávaxtakvöldhressingu, hugleiðingu á sal og svo sögu og kvöldbæn inni á herbergjum. Nýjar myndir koma inn seinna í kvöld. Góða nótt.
Bloggar | 8.7.2008 | 21:14 (breytt kl. 21:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Jæja þá eru leiðtogar að klára að biðja kvöldbænirnar með börnunum sem verða líklega fljót að sofna eftir annasaman dag. Þorgeir vakti öll börnin með söng klukkan 8:30 í morgun og þá tók við tiltekt og fánahylling.Mjög vel var tekið til í flestum herbergjum sem fengu þá þrjár stjörnur en á heimfarardaginn fá þau herbergi sérstaka viðurkenningu sem fá flestar stjörnur fyrir tiltekt.
Eftir morgunmat var svo útivera, sólin sveik okkur eitthvað og smá vindur kom til að stríða okkur og þar af leiðandi var ekki hægt að fara út á báta í morgun en við stefnum ótrauð á bátsferðir í fyrramálið. En þrátt fyrir vind gefst enginn upp hér í sumarbúðunum og haldið var í brennókeppni þar sem herbergi 2 og 9 báru sigur úr býtum og fá því að keppa við leiðtogana síðasta kvöldið.
Eftir að allir höfðu borðað sig sadda af fiskibollum í hádegismatnum var fræðslustund þar sem persónan Jón Jónsson mætti á svæðið og lærði hvað það er að vera þýðingarmikill í augum Guðs. Svo föndruðu allir laufblað með nafninu sínu sem límt var á tré á veggnum í salnum.
Eftir kaffitíma var svo farið niður á fótboltavöll í fótbolta og ýmsa leiki. Í kvöld voru það svo herbergi 4, 5 og 6 sem sáu um kvöldvökuna og héldu uppi stuðinu. Það voru því þreytt börn sem lögðust á koddann og hlustuðu á sögur frá leiðtogum sínum og báðu með þeim kvöldbænir.
Myndirnar eru komnar á myndasíðuna hér til hliðar.
Bloggar | 7.7.2008 | 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Jæja þá eru allir komnir í ró, bæði börn og leiðtogar.
Það eru 37 börn mætt í sumarbúðirnar til okkar í þetta skiptið og það stefnir allt í skemmtilega viku hjá okkur í sumarbúðunum. Þegar foreldrar höfðu kvatt börnin sín var upphafsstund þar sem allir kynntu sig og lærðu reglur sumarbúðanna. Í kvöld sáu svo strákarnir í herbergi 3 og stelpurnar í herbergjum 7 og 8 um skemmtilega kvöldvöku. Krakkarnir skemmtu sér konunglega á kvöldvökunni enda margir skemmtilegir leikir á dagskrá og greinilega hugmyndaríkir krakkar við stjórnvölinn ásamt úrvals leiðtogum.
Eftir kvöldvökuna fengu allir ávexti í kvöldkaffinu og svo sagði Marta leiðtogi öllum söguna um manninn sem byggði hús sitt á bjargi og hinn sem byggði hús á sandi og minnti okkur á hvað það er gott og mikilvægt að treysta Guði. Fyrir háttatímann var svo bænastund fyrir þá sem vildu en leiðtogar fóru líka með kvöldbænir inni á herbergjum með börnunum fyrir háttinn eftir að hafa lesið fyrir þau.
Fyrsta kvöldið gekk sem sagt mjög vel hér hjá okkur, börnin voru mislengi að sofna eins og gengur og nokkur tár féllu en það er alltaf eðlilegt svona fyrsta kvöldið. En núna eru öll börnin sofnuð sæl og ánægð eftir fyrsta daginn í sumarbúðunum og bíða spennt eftir góða veðrinu sem var búið að spá.
Myndir frá kvöldinu í kvöld verða settar inn á morgun.
Bestu kveðjur frá leiðtogunum.
Bloggar | 7.7.2008 | 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Nú eru tveir dagar liðnir og Eiðar komnir í netsamband. Héðan er allt gott að frétta og öllum líður vel.
Fyrsta kvöldið sáu stelpurnar í herbergjum 9 og 10 um kvöldvöku og skemmtu allir sér konunglega.
Í gær fórum við út á báta og fyrst var byrjað á því að fara yfir báta reglur og svo fengu auðvitað allir björgunarvesti. Þetta gekk allt saman mjög vel og krökkunum fannst alveg frábært að komast út á báta. Í hádeginu elduðu Kristjana og Guðný í eldhúsinu handa okkur bjúgur sem krakkarnir borðuðu með bestu lyst. Eftir hádegi var svo meðal annars föndrað, sungið, haldið fótboltamót og farið í skotbolta. Við fengum svo kakósúpu um kvöldið. Strákarnir í herbergjum 1,2 og 3 sáu svo um að skemmta liðinu á kvöldvöku í gærkvöldi.
Í dag var svo ferðadagur. Þegar allir voru orðnir pakksaddir af fiskibollum var lagt af stað í rútu til Egilsstaða. Þar fórum við í sjoppu og keyptum nammi og fórum svo upp í skóg. Þar var borðað nesti og krakkarnir léku sér í leiktækjunum. Síðan var haldið í sundlaugina á Egilsstöðum. Það var frábært veður allan tímann og voru allir ánægðir með ferðina. Þegar við komum aftur út í Eiða voru haldið pulsupartý út á stétt í góða veðrinu. Kvöldvakan í kvöld var svo í umsjá strákanna í herbergjum 4 og 5 og stóðu þeir sig með prýði og æfðu meira að segja leikrit. Núna eru allir komnir í sín herbergi og komin er ró.
Dagurinn í dag er því búin að ganga mjög vel. Þetta er svaka fínn hópur og allt búið að ganga mjög vel. Á morgun á víst að vera smá rigning en við látum ekki smá rigningu stöðva okkur og ætlum að bralla ýmislegt skemmtilegt
Kær kveðja leiðtogar
Bloggar | 24.6.2008 | 23:37 (breytt kl. 23:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flokkar TímabilAldurVerðSystkinaafsláttur Flokkur 1 22.-27. júní 7-9 ára 24.000 kr 10% Flokkur 2 29. júní - 4. júlí 10-13 ára 24.000 kr 10% Flokkur 3 6.-11. júlí 7-9 ára 24.000 kr 10% Flokkur 4 14.-19. júlí 10-13 ára 24.000 kr 10% Flokkur 5 21.-26. júlí 8-12 ára 24.000 kr 10%
ATH! Innritunargjald óafturkræft er kr. 3000. Ganga þarf frá greiðslu fyrir dvölina eigi síðar en 10 dögum áður en flokkurinn hefst. Greiðslukortaþjónusta.
Tekið er við skráningum á netfangið: kirkjumidstod.austurlands@kirkjan.is.
Í tölvupóstinum þarf að koma fram:
- Flokkur
- Nafn barns
- Heimilisfang
- Póstnúmer og staður
- Fæðingardagur og ár
- Nafn forráðamanns
- Netfang forráðamanns
- Sími forráðamanns
- Hvort óskað er eftir sérstökum herbergisfélaga
Bloggar | 20.4.2008 | 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja nú er síðasti hópurinn farinn hérna í sumarbúðunum við Eiðavatn og var starfsfólk ekki nægilega duglegt við að blogga meðan á frágangi stóð.
Síðasti dagurinn var ljómandi skemmtilegur eins og börnin hafa eflaust sagt ykkur frá. Fyrir hádegi var farið í fjársjóðsleit þar sem allir hópar fundu fjársjóð með nammi og minnisversum eftir að hafa leyst hinar ótrúlegustu þrautir. Eftir hádegi var svo fræðsla og föndur þar sem útbúin voru bókamerki og gluggamyndir og hafið þið væntanlega séð afraksturinn. Eftir kaffi voru rústirnar hérna við sumarbúðirnar skoðaðar og farið í stórskemmtilegan litaleik þar.
Í kvöldmatinn var svo pizza og leiðtogarnir enduðu á að stjórna kvöldvöku. Sigurlið brennókeppninnar fékk að keppa við leiðtogana og náðu leiðtogarnir með naumindum að sigra. Svo brugðu leiðtogarnir sér í ýmis gervi, sýndu mörg fyndin leikrit og sögðu fréttir úr flokknum. Þegar allir höfðu fengið ís í kvöldkaffi og bjuggust við að fara í háttinn ákváðu leiðtogarnir að senda alla niður á fótboltavöll þar sem var varðeldur. Þar var svo sýndur síðasti leikþátturinn um heilagan anda áður en allir héldu upp í sumarbúðir í háttinn þreyttir og ánægðir eftir skemmtilegan flokk.
Við leiðtogarnir viljum nota tækifærið og þakka börnunum kærlega fyrir samveruna. Það hefur allt gengið svo vel í sumarbúðunum og börnin vonandi eignast marga nýja vini og kynnst Guði betur.
Vonandi mæta sem flest börn aftur á næsta ári.
Kveðja, leiðtogarnir.
PS Myndirnar frá síðasta deginum eru komnar í albúmið
Bloggar | 26.7.2007 | 17:05 (breytt kl. 17:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já í dag var ferðdagurinn okkar. Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt var fræðslustund þar sem Dúbbi dúfa kíkti í heimsókn til okkar. Fræðslustundin var fyrir hádegi í dag þar sem rútan beið okkar eftir hádegismatinn. Þá var haldið í sjoppuna þar sem allir fengu að versla nammi fyrir vasapeninginn sinn. Eftir sjoppustoppið var haldið í Selskóginn. Í Selskóginum er nóg af leiktækjum en auk þess höfðum við með okkur skotbolta og voru margir í sto með leiðtogunum, en það er sívinsæll leikur hér í sumarbúðunum. Kaffið var snætt í skóginum en eftir það var haldið í sund. Það er alltaf nóg að gera í sundlauginni á Egilsstöðum sérstaklega með jafn góðum hóp og er hjá okkur í sumarbúðunum núna.
Sérstakur afmæliskvöldmatur var svo snæddur í sumarbúðunum en hún Arna Lísa á afmæli í dag og í tilefni dagsins var henni færð pylsa með 10 logandi kertum. Hún kaus þó að fá nýja pylsu þar sem eitthvað kertavax hafði lekið niður á matinn. Börnin tóku vel til matar síns og fóru pakksödd í frjálsan tíma. Í frjálsa tímanum voru úrslitin í borðtennismótinu en það var hann Ingvi sem sigraði mótið og Ágúst Ingi var í öðru sæti. Kvöldvakan var svo í boði herbergja 9 og 10 en á morgun eru það leiðtogarnir sem sjá um kvöldvökuna.
Á helgistundinni sagði Þorvaldur okkur söguna um týnda sauðinn og minnti okkur á hvað við erum öll mikilvæg í augum Guðs. Leiðtogar eru nú að lesa kvöldsögu og biðja með börnunum og munu þau brátt svífa inn í draumalandið.
Góða nótt.
Bloggar | 23.7.2007 | 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagurinn 22. júlí hófst líkt og aðrir dagar hér í sumarbúðunum klukkan hálfníu með vakningu við ljúfan söng og síðan morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum. Þá tók við fyrsta útivera dagsins, haldið var niður á fótboltavöll þar sem sumir kepptu í fótbolta og aðrir í skemmtilega boltaleiknum sto.
En sunnudagur er þó alltaf sérstakur dagur í sumarbúðunum, hátíðisdagur þar sem haldin er guðsþjónusta með þátttöku krakkanna. Klukkan ellefu hófum við að undirbúa messu sunnudagsins og skiptum í hópa þar sem sumir krakkanna æfðu söng, aðrir leikþátt úr guðspjöllunum og enn aðrir upplestur bæna og ritningarorða. Að undirbúningnum loknum klæddu bæði krakkar og leiðtogar sig í sparifötin og mættu prúðbúnir í hátíðarmatinn, sunnudagssteikina: lambalæri með öllu tilheyrandi. Auðvitað sveik ekki lambið og menn gerðu því góð skil og ekki síður ísnum sem á eftir fylgdi.
Eftir matinn var svo komið að því að halda með rútu til Eiðakirkju, þar sem ætlunin var að taka þátt í guðsþjónustu kl. 14. Þá reyndi á krakkana, sem svo margt höfðu undirbúið um morguninn. Tókst það allt með ágætum og stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði í þessari helgu stund. Í messunni var skírð lítil stúlka og var gaman að taka þátt í þeirri hátíðisathöfn.
Þegar heim var komið úr kirkju tók við hátíðarkaffi sem var jafnframt afmæliskaffi hennar Karenar, sem varð 11 ára í dag. Fengu hún og aðrir skúffuköku og kleinur, og var ekki annað að sjá en að hvort tveggja félli í góðan jarðveg. Þegar menn höfðu drukkið kaffið og skipt um föt var komið að því, sem margir höfðu beðið spenntir eftir: að komast á hestbak. Þrír hestar komu í heimsókn og fengu allir, sem vildu, að prófa að fara á bak og í örlítinn túr.
Í kvöldmatinn var kakósúpa með tvíbökum en nú þegar klukkan er um átta eru herbergi 1, 5 og 6 að ljúka við að undirbúa skemmtiatriði og leiki fyrir kvöldvöku kvöldsins, sem fram undan er, og er ekki að efa að þar verði glatt á hjalla. Deginum mun svo að vanda ljúka með stuttri helgistund og kvöldsögu í herbergjum.
Bloggar | 22.7.2007 | 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jæja þá er fyrsti heili dagurinn í sumarbúðunum að kveldi kominn. Þetta hefur verið ljómandi fínn dagur sem við höfum átt saman og allir hressir og kátir. Í morgun var alveg frábært veður og var því ákveðið að nýta tímann til bátsferða, börnin áttu misauðvelt með róðurinn en það komust allir í land heilu og höldnu og voru sammála um að hafa skemmt sér vel.
Eftir að hafa gætt sér á ljómandi góðum grjúbágnum var fyrsta fræðslustund vikunnar um heilagan anda og í kjölfarið fengu allir að skreyta skírnar- og bænakerti sem þau taka með sér heim. Eftir kaffitíma var svo haldið brennómót en sigurliðið fær að keppa við leiðtogana síðasta kvöldið.
Kvöldvakan var svo í boði herbergja 2, 7 og 8 og var stórglæsileg að vanda.
Hópurinn virðist ná vel saman og öllum börnunum líður vel hérna hjá okkur, þau kunna svo sannarlega að skemmta sér saman.
Leiðtogar eru nú að klára kvöldbænir með börnunum og svo fara allir að sofa.
Góða nótt.
Bloggar | 21.7.2007 | 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar