23. júlí

Nú er ró að færast yfir sumarbúðirnar en leiðtogar eru inni hjá börnunum að lesa sögu og biðja kvöldbænirnar.

Í morgun var líf og fjör og nóg að gera. Eftir morgunverk og morgunmat komu þrír hestar í heimsókn ásamt eiganda sínum og fengu öll börnin sem vildu að kíkja á bak. Eftir að hafa setið hestana var haldið niður að vatni í bátaferð. Þar fengu börnin að prófa að róa bæði árabátum og kanóum.

Hádegismaturinn okkar var svo með kínversku sniði en það voru núðlur með grænmeti og kjúklingi, borðaðar með prjónum (eða skeið þegar fólk gafst upp). Marta leiðtogi sem var skiptinemi í Kína á síðasta ári svaraði svo spurningum barnanna um Kína og sýndi þeim nokkra muni sem hún tók með sér heim. Í kjölfarið var svo fræðslustund þar sem börnin lærðu um mikilvægi þess að nýta hæfileika sína, því við erum öll þýðingarmikil í augum Guðs. Svo fengu börnin að útbúa kókoskúlur sem verða borðaðar með kaffinu á morgun en þá stefnum við einmitt á ferðalag inn í Egilsstaði.

Í seinni útiverunni eftir kaffi fóru börnin í leiki úti í rústum þar sem meðal annars voru faldir nammipokar, þegar heim var komið aftur fengu börnin svo að klæða sig í sundföt og baða sig aðeins í Eiðavatni enda búið að vera alveg frábært veður hjá okkur í dag.

Börnin fengu svo skyr og brauð í kvöldmat og margir orðnir svangir eftir atburði dagsins. Það voru svo stelpurnar í herbergjum 6 og 7 sem undirbjuggu kvöldvökuna en meðan þær undirbjuggu leikina fóru nokkur börn niður að vatni til að renna fyrir fisk. Það var þó enginn fiskur sem beit á í þetta skiptið en vonandi gengur bara betur næst. Það var svo mikið fjör á kvöldvökunni og margir leikir enda fjörugar stelpur við stjórnvölinn. Það var svo Marta leiðtogi sem sagði börnunum söguna um mennina sem byggðu sér hús, annar á bjargi en hinn á sandi. Þessi saga minnir okkur á hversu mikilvægt það er að byggja líf sitt á orði Guðs.

Því miður hefur tæknin eitthvað verið að stríða okkur hér í sumarbúðunum. Fyrst bilaði síminn eitthvað svo fáir náðu sambandi í símatímanum í gær, það gekk þó vel í dag sem betur fer. Í gærkvöldi var svo nettengingin að stríða okkur svo fáar myndir fóru á vefinn og í dag ákvað myndavél sumarbúðanna að bila. Við höfum því notast við nokkrar myndavélar en snúrurnar eru ekki á staðnum svo fleiri myndum verður bætt við á morgun. Það voru þó nokkrar myndir settar inn á netið seinnipartinn í dag og fleiri koma á morgun. Vonandi verða öll tæknimálin þá komin í lag.

Góða nótt.


22. júlí

Vel gekk að sofna hjá börnunum í 5. flokki sumarbúðanna fyrsta kvöldið þeirra og sömuleiðis sváfu flestir vært fram til kl. 8:30 þegar vakið var, en aðrir hvíldu sig og voru hinir rólegustu. Börnin voru öll mjög dugleg að fara á fætur og taka til í herbergjum sínum, hylla fánann og borða morgunmat. Þetta eru svona morgunverkin okkar hér við Eiðavatnið og eftir þau tekur útiveran við fram að hádegismat. Í morgun var fyrst skipt í lið í teningaratleik með miklum hlaupum og hamagangi og síðan farið niður á knattspyrnuvöll þar sem flestir spörkuðu í tuðru af miklum móð en hinir léku sér í öðrum leikjum eða slökuðu á úti í móa.

Í hádegismatinn voru stórgóðar kjötbollur að hætti Guðnýjar, annarrar matráðskonunnar, ásamt sósu og öðru tilheyrandi, en eftir matinn voru börnin kölluð á sal fyrir reglubundna fræðslustund og svo föndur í framhaldinu. Í dag lærðu börnin m.a. um gildi fyrirgefningarinnar og föndruðu svo laufblöð fyrir fingrafarakærleikstré sumarbúðanna. Þá hófst hinn sívinsæli leynivinaleikur og eru nú allir búnir að draga einhvern annan í flokknum til að senda skemmtileg bréf og glaðninga það sem eftir er vikunnar.

Eftir kaffi tók útiveran aftur við, að þessu sinni brennómót og fleira skemmtilegt úti á stétt, en við reynum að vera sem mest úti við þegar veður leyfir, hreyfa okkur og hafa gaman. Eftir kvöldmat er þó jafnan frjáls tími og þá geta þeir sem vilja verið inni, slakað á inni á herbergjum eða dundað við föndur eða leikföng. Í kvöldmatnum fengu börnin stafasúpu og brauð og kl. 20:30 hófst sprellfjörug kvöldvaka sem börnin í herbergjum 3, 4 og 5 sáu um. Í framhaldinu fengu börnin kex og mjólk í kvöldkaffinu, hlýddu á kvöldhugvekju og svo sögu á herbergjum. Ró er nú hér í búðunum og menn hvílast og safna kröftum fyrir nýjan dag.


1. dagur

Jæja kæru lesendur þá hefur færst ró yfir sumarbúðirnar eftir fjörugt kvöld.

Þegar börnin höfðu kvatt foreldra sína og komið sér fyrir var svokölluð upphafsstund í salnum þar sem börn og leiðtogar kynntu sig og allir lærðu reglur sumarbúðanna. Í beinu framhaldi var svo pastasalat sem allir borðuðu með bestu lyst.

Eftir kvöldmat var svo frjáls tími fram að kvöldvöku sem stelpurnar í herbergjum 8 og 9 sáu um. Þar var margt á dagskrá, mikið fjör og kvöldvakan löng. Það eru því þreytt börn sem liggja uppi í koju núna að hlusta á sögu og biðja kvöldbænir með leiðtogum sínum.

Myndir frá kvöldinu birtast von bráðar á myndasíðunni hér til hliðar.


Veisludagur

Í morgun, 18. júlí, vöknuðu börnin á vanalegum tíma kl. 8:30 og að lokinni tiltekt í herbergjum, fánahyllingu og morgunmat var farið út, í svo nefndan teningaratleik. Þar var mikið hlaupið og spennan mikil þó að veðrið væri ekki hið allra skemmtilegasta, garri og dulitlar skúrir.

Þegar inn var komið klæddu börnin sig upp fyrir hátíðina sem framundan var á þessum veislu- og messudegi. Hátíðin hófst með veislumat í hádeginu, bayonne-skinku með öllu tilheyrandi meðlæti, jafnvel brúnuðum kartöflum. Svo fengu börnin Sun Lolly að sleikja í desert! Upp úr hádeginu hófst undirbúningur guðsþjónustu og æfðu börnin leikþátt, skreyttu salinn og undirbjuggu ritningarlestra til þess að messan klukkan 14:30 yrði sem hátíðlegust, en það var sr. Jóhanna Sigmarsdóttir sem kom og annaðist hana. Í beinu framhaldi af messunni var tekin hópmynd af öllum í fínu fötunum en þá mynd fá krakkarnir í jólakorti frá Kirkjumiðstöðinni í desember. Messukaffið var svo ekki af verri endanum, skúffukaka og kleinur.

Að kaffinu loknu létu börn og leiðtogar ekki kuldalegt veður á sig fá heldur drifu sig út í ýmsa leiki. Í kvöldmatinn voru grillaðar pylsur að hætti leiðtoga og veislukvöldvaka í umsjá þeirra. Kvöldvakan hófst á æsispennandi brennóleik við sigurlið brennókeppninnar, en í því voru Fjóla, María, Hafþór, Egill, Ingvi og Kiddi en leiðtogar báru sigur úr býtum, naumlega þó. Kvölddagskránni lauk með því að allir fengu ís og hlýddu svo á kvöldhugleiðingu frá Baldri leiðtoga.

Þá er ekki annað eftir en að þakka fyrir vikuna, sjáumst kl. 13 á morgun. Kveðja, leiðtogar sumarbúðanna.

Ps: Það eru komnar inn nýjar myndir, þær síðustu úr flokknum - og extra margar af strákunum að þessu sinni! 


Ferðadagur

Í morgun, 17. júlí, voru börnin vakin kl. 9:00 eða hálftíma seinna en vanalega þar sem þau höfðu vakað fram eftir í náttfatapartýi í gærkvöldi. Eftir fánahyllingu og morgunmat eða upp úr kl. 10 tók við fræðslustund þar sem börnin lærðu um frásögn Jesú um faríseann og tollheimtumanninn, en faríseinn miklaðist í bæn sinni á að vera betri en aðrir menn, en Guði líkaði betur hin auðmjúka bæn tollheimtumannsins. Einnig lærðu börnin um Pál postula og föndruðu kærleikssteina.

Í hádegismatinn var kjötfars og kartöflumús en kl. 13 beið barnanna rúta frá Tanna Travel sem flutti þau inn í Egilsstaði í hefðbundið ferðalag sumarbúðanna. Fyrsti viðkomustaður var Söluskáli KHB þar sem 300 kr. vasapeningnum var eytt, annar áfangastaðurinn Selskógur þar sem dvalið var drjúga stund við leiki og kaffið drukkið, og sá þriðji Egilsstaðalaug þar sem börnin busluðu fram á sjötta tímann. Við heimkomu í Kirkjumiðstöðinni var flatbaka í kvöldmatinn, og var henni sporðrennt með bestu lyst.

Frjáls tími var eins og oftast frá kvöldmat fram að kvöldvökunni kl. 20:30, og var á þeim tíma m.a. í boði borðtennis- og skákmót fyrir áhugasama. Kvöldvakan í kvöld var í umsjón stúlknanna í herbergjum 3 og 4 (Victoriu, Bergdísar, Valdísar, Móeiðar, Heiðdísar og Natalíu) og einkenndist hún af miklum galsa sem vænta mátti. Kvöldhugleiðinguna flutti Marta leiðtogi svo börnunum, út frá dæmisögu Jesú um mennina tvo sem byggðu hús sín annars vegar á bjargi, þ.e. sá hyggni, og hins vegar á sandi, þ.e. sá heimski, en bjargið merkir að byggja líf sitt á Guðs orði. Nú eru leiðtogar að lesa kvöldsögur fyrir börnin inni á herbergjum og ró færist brátt yfir sumarbúðirnar.

Nýjar myndir (frá deginum í dag og gærdeginum) verða komnar inn í myndaalbúmið innan stundar.


Klukkulaus rugldagur

Dagurinn í dag (16. júlí) var afar óvenjulegur hér í sumarbúðunum. Krakkarnir skiluðu úrunum sínum í gærkvöldi og í dag var öllu snúið á hvolf af venjulegri dagskrá. Dagurinn hófst á kvöldkaffi (ávöxtum) og svo fóru nývöknuð börnin í kvöldhelgistund. Síðan var farið út í fáránlega ólympíuleika, þar sem keppt var í greinum á borð við eggjakast og gæsahlaup. Eftir það hófst spennandi hárgreiðslukeppni, þar sem menn greiddu sér og öðrum af miklum móð. Kl. 12 fengu börnin "kvöldmat" - kakósúpu og brauð - og fóru svo aftur út í knattspyrnu og þá út á báta. M.a. var farið í veiðiferð, en ekki vildi hann bíta á í þetta skiptið.

Um miðjan daginn fengu börnin hefðbundinn morgunmat (seríos og tilheyrandi) í stað kaffitímans, og svo hádegismatinn um kvöldið, karrýfisk með hrísgrjónum og gulrótasalati. Við höfðum þá Kínakvöld í tilefni þess að einn leiðtoganna, Marta E. Ingólfsdóttir á Eiðum, var skiptinemi í Kína síðasta vetur, og kenndi hún okkur að borða með prjónum og allir bjuggu sér til Kínahatta! Áður höfðu krakkarnir þó hlýtt á fræðslustund dagsins þar sem þau lærðu m.a. um Gídeon í Gamla testamentinu, sem fannst hann sjálfur aumur og huglaus, en Drottinn sá í honum hugdjarfa hetju sem leiddi þjóð sína til sigurs á kúgurum sínum, Midíanítum.

Nú í kvöld tóku krakkarnir svo þátt í sérstökum leik, sem leiðtogarnir höfðu undirbúið, og nefnist "Hönd Guðs." Áttu þau að feta sig, einn í einu, blindandi eftir línu, sem strengd hafði verið þvers og kruss um nágrenni sumarbúðanna, og varð eitt og annað á vegi þeirra á leiðinni: Syndapoki, þungur, sem þurfti að bera lítinn spöl, vatnsglas sem mátti hressa sig á til áminningar um Jesú sem vatn lífsins, freistari sem vildi leiða börnin út af veginum og engill sem leiddi þau aftur að réttri línu. Leikurinn á allur að minna á mikilvægi þess að treysta Guði, en er líka skemmtileg og sérstök upplifun fyrir krakkana, sem allir tóku þátt í og höfðu gaman af, og vildu mikið ræða við leiðtogana á eftir. Þegar börnin komu inn eftir leikinn beið þeirra kanilsnúður og mjólkurglas og svo var þeim sagt að búa sig í háttinn. Ekki stoppuðu þau þó lengi inni á herbergjum, því leiðtogarnir komu þeim að óvörum um tíuleytið og boðuðu alla í náttfatapartí á sal, þar sem börnin hafa síðan verið að horfa á teiknimynd og gæða sér á nammigotti. Nú er viðburðaríkum degi í sumarbúðunum að ljúka.


Hestar, hakk og hráslagaveður

Fyrsti heili dagur barnanna í 4. flokki í sumarbúðunum hófst kl. 8:30 á að þau voru vakin með söng, tóku til í herbergjunum, fóru út að hylla fánann og svo í morgunmat. Mikið útiprógramm beið þeirra svo í morgun. Fyrst fóru þau á hestbak undir stjórn þeirra Mörtu leiðtoga og Hrafnhildar Tíbrár á Hjartarstöðum, sem kom í heimsókn með hrossin sín þrjú. Að sjálfsögðu voru allir með hjálm og fyllsta öryggis gætt. Öryggisþáttinn skal einnig nefna í sambandi við bátana, en þegar hestaferðinni var lokið fór liðið út að róa á vatninu, auðvitað allir í björgunarvestum með klofólina sína vandlega festa. Veður var nokkuð stillt hér á Eiðum í dag en skúrir og svo samfelld rigning í eftirmiðdaginn. Kuldi og hálfhráslagalegt veður.

Í hádegismatinn var hakk og spagettí, salat og brauð, en eftir hádegismatinn fóru börnin í fræðslustund, sem verður alla dagana nema á messudegi. Þema fræðslunnar þetta sumarið er "Þú ert þýðingarmikill" og lærðu krakkarnir í dag m.a. söguna um lærisveininn Símon Pétur, sem fannst hann heldur þýðingarlítill eftir að hafa afneitað Jesú þrisvar eftir handtöku hans, en fylltist djörfung og krafti til að boða trúna eftir upprisu og himnaför Jesú. Þá föndruðu krakkarnir fingrafaralaufblöð, sem minna á að allir eru einstakir í augum Guðs og engir tveir hafa sama fingrafarið. Einnig drógu börnin sér leynivin í flokknum og byrjuðu að skrifa honum bréf.

Kryddbrauð og eplakaka beið barnanna í kaffinu og að því búnu brennómót og fleiri leikir fram eftir degi. Skyr og brauð í kvöldmatinn og svo kvöldvaka í umsjón strákanna í flokknum nú áðan. Við vonum að betur viðri á okkur á morgun, en þá verður svo kallaður "klukkulaus dagur" í sumarbúðunum með miklu gríni, og eru börnin nú búin að skila úrunum sínum inn til geymslu.

Myndirnar úr flokknum má finna með því að smella á "Myndaalbúm" hér til hliðar og svo "4. flokkur 2008."


4. flokkur - upphafsdagur

Þá eru krakkarnir í 4. flokki mættir á svæðið og að tygja sig í háttinn eftir upphafsdaginn. Nú er aðeins 21 barn á staðnum og hópurinn mjög rólegur og jákvæður. Við hlökkum til skemmtilegra daga með þeim. Þegar allir foreldrar höfðu kvatt nú áðan voru krakkarnir kallaðir á sal fyrir upphafssamveru sumarbúðanna þar sem allir kynntu sig og fengu að heyra reglur staðarins. Þá tók við fyrsta máltíðin, kvöldmatur kl. 18:30, kalt pastasalat og brauð, en heit aðalmáltíð dagsins er jafnan í hádeginu í sumarbúðunum, svo að krakkarnir hafi orku fyrir daginn.

Að kvöldmatnum loknum höfðu krakkarnir frjálsan tíma sem þeir notuðu m.a. til að velja nöfn á herbergin sín og stelpurnar í herbergjum 1 og 2 (Hafnar- og Seyðisfjarðarstelpurnar) undirbjuggu leiki og önnur skemmtiatriði fyrir hressilega kvöldvöku, sem hófst svo kl. 20:30. (Nú eru komnar inn á síðuna myndir frá henni.) Eftir kvöldvökuna fengu börnin ávexti í kvöldhressingu og að því búnu tók við stutt helgistund með söng og biblíusögu. Nú fara leiðtogarnir brátt að byrja að lesa kvöldsögu inni á herbergjum og vonandi gengur liðinu vel að sofna í nótt. Meira á morgun.


Síðasti dagur.

Góða kvöldið, það er gaman að sjá hvað foreldrar eru duglegir að skoða bloggsíðuna okkar og skrifa athugasemdir. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það verða þreytt en ánægð börn sem þið hittið á morgun. Þetta er búinn að vera erfiður dagur fyrir suma sökum þreytu en ánægjulegur engu að síður og vonandi sofna allir sem fyrst.

Í morgun vorum við svo heppin að fá hesta í heimsókn og fengu allir sem vildu að prófa að setjast á bak í smá stund. Meðan börnin biðu eftir að komast á hestbak eða eftir að þau voru búin byrjuðu þau að pakka niður með aðstoð leiðtoga og þar sem það gekk svo vel getur vel verið að við leyfum þeim að sofa hálftíma lengur í fyrramálið, mörgum þeirra veitir ekkert af því!

Fyrir hádegismat skelltu sér svo allir í fínu fötin því okkar beið dýrindis veislumatur, kjúklingabringur og franskar. Svo tóku börnin þátt í að undirbúa messu en sr. Jóhanna sóknarprestur á Eiðum kom til okkar og leiddi guðsþjónustu þar sem börnin spiluðu stórt hlutverk með söng, lestri, leiklist og skreytingum. Í kjölfarið var svo hátíðarkaffi.

Þegar kaffitíma var lokið fóru allir út aftur og í þetta sinn að skoða rústirnar okkar. Í rústunum var farið í litaleik og í lokin var nammið klárað þar sem allir fengu að leita að nammipoka. Þegar komið var heim í sumarbúðir var haldið niður að vatni þar sem þeir sem vildu fengu að vaða í smá stund. Eftir útiveruna var svo öllum boðið út að borða þar sem við leiðtogarnir grilluðum pylsur úti á stétt.

Það voru svo leiðtogarnir sem sáu um kvöldvökuna í kvöld sem byrjaði á æsispennandi brennókepnni milli leiðtoga og sigurliðs brennókeppninnar. Því næst sýndu leiðtogarnir leikrit og sögðu börnunum bullfréttir úr flokknum. Á helgistundinni sáu börnin svo síðasta leikritið úr fræðslunni.

Nú eru langflest börnin sofnuð og leiðtogar fara brátt að sofa líka. Góða nótt og sjáumst kl. 13 á morgun


9. júlí - ferðadagur

Já í dag hafa allir verið á fullu og það voru því þreytt og ánægð börn sem skriðu upp í koju til að hlusta á sögu og biðja kvöldbænirnar með leiðtogunum. Eftir tiltekt, fánahyllingu og morgunmat var fræðslustund en við vinnum áfram með þemað "Þú ert þýðingarmikill". Persónan Jón Jónsson kíkti í heimsókn og svo fengu öll börnin að mála steina sem þau taka með sér heim.

Eftir að allir höfðu borðað sig sadda og vel það af Lasagne var haldið upp í rútu sem fór með okkur inn í Egilsstaði. Fyrsta stopp var söluskálinn þar sem börnin fengu að kaupa sér nammi fyrir vasapeninginn. Því næst var haldið í Selskóginn og þar var hlaupið og sparkað og hoppað og hlegið. Við drukkum líka kaffið í Selskóginum og þá fengu allir pizzasnúð og kókoskúlurnar sem þau gerðu í gær. Eftir allt fjörið í Selskóginum var svo haldið í sundlaugina á Egilsstöðum þar sem allir komust í sturtu og gátu leikið sér í rennibrautinni og sundlauginni.

Þegar heim var komið var fjörið þó alls ekki búið því allir fengu pizzu í kvöldmatinn og áður en kvöldvakan var haldin var gefið leyfi til að fara niður að vatni til að veiða eða vaða upp að hnjám, það vildi þó þannig til að ýmsir fóru aðeins dýpra en stóð til, þau voru þó fljót að koma sér í þurr föt svo líklega verður engum meint af volkinu. Stelpurnar í herbergjum 9 og 10 sáu svo um að halda uppi fjörinu á kvöldvökunni og þar var að sjálfsögðu mikið sungið og hlegið.

Nú eru flest börnin svifin inn í draumalandið og hlakka til að takast á við lokadaginn í sumarbúðunum á morgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband