2. dagur ævintýraflokks hófst með bátsferðum og fótboltamóti um morguninn í ágætu veðri, miklu hægviðri, en nokkrir dropar komu reyndar úr lofti. Í hádeginu var ofnsteikt kjötfars og kartöflur í matinn, en eftir mat var fræðslustund um líf Jesú og föndur í framhaldinu. Allir klipptu út fiska sem verða minjagripir um dvöl þeirra í sumarbúðunum, og flestir gerðu líka gipsgrímur sem seinna verða málaðar.
Í kaffinu var boðið upp á kanilsnúða og kryddbrauð, en eftir kaffi var komið að spennandi ævintýraratleik. Nú eru menn komnir inn og kvöldmatur brátt að hefjast. Fram undan í kvöld er svo kvöldvaka í umsjón strákanna í flokknum, og burtreiðar á kanó fyrir áhugasama!
Enn er ótalið að krakkarnir fengu ævintýralegan glaðning með morgunmatnum í morgun - það var kominn "geislavirkur úrgangur" í mjólkina, svo að gula mjólkin var sannarlega gul og sú bláa að sama skapi heiðblá!
Nýjar myndir komnar í albúmið.
Bloggar | 23.6.2009 | 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stútfullur ævintýraflokkur mætti í hús í morgun hér við Eiðavatn í sannkölluðu blíðskaparveðri. Það er ekki annað hægt að segja en að okkur starfsmönnunum lítist einkar vel á hópinn sem hér er mættur enda margir heimavanir og hafa dvalið hér áður, jafnvel oftsinnis áður sumir hverjir.
Dagskráin hófst á upphafsstund þar sem menn kynntu sig og farið var yfir helstu staðarreglur, en síðan tók hádegismaturinn við - dýrindis karrýfiskréttur með tilheyrandi. Eftir hádegið var svo kallað á sal í fræðslustund undir yfirskriftinni "Í fótspor Jesú," en slíkar samverur verða á hverjum degi. Þá voru föndruð skírnarkerti og að því búnu hófst hinn sívinsæli leynivinaleikur sumarbúðanna.
Eftir ostabrauð og tertu í kaffinu var komið að því að drífa sig út á stétt í góða veðrið þar sem brennómót er nú í fullum gangi!
Fram undan er áframhaldandi útivera, íþróttir o.fl., og svo spennandi kvölddagskrá þegar fram líður.
Í kvöld koma myndir frá fyrsta deginum inn í albúmið "2. flokkur 2009" - svo bíðið spennt!
Bloggar | 22.6.2009 | 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er 1. flokki sumarbúðanna lokið þetta árið og trúlega flestir komnir til síns heima þegar þetta er skrifað. Lokadagurinn var fjörugur og ánægjulegur en pökkun og tiltekt fór fram um morguninn og svo síðasta fræðslustund vikunnar og lokaskemmtun í umsjón leiðtoga eftir pítsurnar í hádeginu.
2. flokkur hefst á mánudagsmorguninn og er mæting kl. 10:30.
Athugið að til að ná sambandi við sumarbúðirnar (t.d. á símatíma) er best að hringja í síma 471-3891. Ólag er á símalínunni 471-3890 sem stendur og er beðist afsökunar á því.
Bloggar | 19.6.2009 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagurinn í dag var býsna kaldur á Héraði en þó að mestu þurr. Þetta var ferðadagurinn okkar svo nefndi í sumarbúðunum en það er fastur liður hér að hafa slíkan dag í hverjum flokki. Þá er lagt af stað eftir hádegismatinn með rútu til Egilsstaða, vasapeningurinn nýttur í sjoppuferð, síðan taka við leikir og nesti í Selskóginum og loks sundferð.
Bloggar | 18.6.2009 | 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðburðaríkur en blautur þjóðhátíðardagur er að baki hér í sumarbúðunum og dauðþreytt börn sofnuð.
Í morgun var farið út að róa á Eiðavatni. Flestir fóru á árabáta undir stjórn leiðtoga en nokkrir ofurhugar prófuðu að sigla á kanó og gekk bara býsna vel. Nokkrir sem höfðu með sér veiðistangir fóru í veiðiferð út á vatnið en ekkert veiddist nú að þessu sinni...
Þegar inn var komið klæddu menn sig í sparifötin og hátíðardagskráin tók við. Hún hófst með sparimat sem var kjúklingur og franskar og ís í eftirrétt, rann þetta ljúflega niður. Eftir matinn var skipt í hópa og undirbúin hátíðarguðsþjónusta, sem sr. Jóhanna á Eiðum annaðist með okkur í sal Kirkjumiðstöðvarinnar kl. 14:30. Allir höfðu hlutverk í messunni: Sumir teiknuðu myndir sem skreyttu salinn, aðrir léku leikrit úr Biblíunni, enn aðrir lásu ritningarlestra og bænir og svo var líka sönghópur!
Kaffitíminn var með hátíðarmóti, þjóðlegar heimagerðar flatkökur með hangikjöti og terta sem skreytt var í mynd íslenska fánans! Eftir kaffi slógum við svo upp karnivalstemmingu úti í rigningunni, fórum í skrúðgöngu, buðum upp á andlitsmálningu, vatnsþrautir, kraftakeppni og fleira skemmtilegt.
Í kvöldmat voru grillaðar pylsur og kvöldvakan var í umsjón herbergja 1, 2 og 3. Eftir leiki strákanna mætti leynigestur á svæðið, enginn annar en Stefán Bogi Útsvarskappi, sem stjórnaði léttri keppni í anda sjónvarpsþáttanna og svaraði líka spurningum krakkanna!
Deginum lauk með helgistund þar sem var sungið, beðið og hlustað á sögu. Ró komin á kl. rúmlega tíu. Ekki annað að sjá en að allir hafi verið kátir með daginn en jafnframt afar þreyttir! Nú er bara að sofa rótt...
Bloggar | 17.6.2009 | 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fyrsta nóttin í 1. flokki gekk vel enda flestir orðnir býsna þreyttir eftir erfiðan dag og sofnuðu fljótt þrátt fyrir að margir væru spenntir yfir að gista í burtu frá fjölskyldunni. Það voru því sprækir krakkar sem vöknuðu á níunda tímanum í morgun og er óhætt að segja að sumarbúðablandan hafi slegið í gegn í morgunmatnum, en það er seríos og kókópöffs blandað saman! Sumir kusu þó heldur hafragrautinn góða. Á dagskrá morgunsins var svo spennandi ævintýraratleikur, þar sem skipt var í lið og hlaupið um allt í leit að vísbendingum, sem leiddu að lokum til fjársjóðsleitar - smá gotterí!
Hádegismaturinn var ættaður frá Kattholti, paltar að hætti Emils - öðru nafni lifrarlummur sem flestum féllu vel í geð. Á fræðslustund dagsins eftir hádegið fylgdust krakkarnir áfram með ævintýrum bréfberans Bóasar, sem er að leita að Jesú frá Nasaret - og lærir ýmislegt um hann á leiðinni. Svo var það föndurstundin, en fyrst klipptu allir út fiska sem hengdir voru á net og minntu á söguna af því, þegar Jesús sagði lærisveinum sínum að veiða menn. Enn meira spennandi föndur var þó gipsgrímugerðin, en grímurnar verða málaðar seinna í flokknum.
Í kaffinu var svo dýrindis ostafleki og sandkaka í boði og rann hvort tveggja ljúflega niður með ískaldri mjólk. Eftir það var farið niður á völl í fótbolta, sumir kusu þó heldur að leika sér í skóginum í góða veðrinu. Allir skemmtu sér vel.
Nú er svo að líða að kvöldmat, sem er kakósúpa...
Nýjar myndir komnar í albúmið!
Bloggar | 16.6.2009 | 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jæja, þá færist ró yfir sumarbúðirnar þetta fyrsta kvöld. Flestir eru sofnaðir en aðrir eru enn að venjast staðnum og eiga erfitt með að sofna svona fyrsta kvöldið að heiman. Það er þó kyrrð og ró yfir öllu og munu þau börn sem enn eru vakandi sofna von bráðar. En þá að deginum sem að baki er.
Eftir að foreldrar voru búnir að kveðja börnin var upphafsstund þar sem við kynntum okkur, sungum saman og fórum yfir reglur sumarbúðanna. Hér er aðalreglan að sjálfsögðu gullna reglan úr Biblíunni "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra" Börnunum gengur vel að fylgja þessari reglu! Að lokinni upphafsstund var hádegismatur, fiskibollur með hrísgrjónum, kartöflum og karrýsósu já og ekki má gleyma heimabakaða rúgbrauðinu. Að sjálfsögðu rann þetta allt saman ljúflega niður.
Eftir hádegismatinn var svo fyrsta fræðslustundin þar sem við lærðum um Jóhannes skírara sem skírði fólk í ánni Jórdan en hann skírði einmitt Jesú og við skírnina fylltist Jesús heilögum anda Guðs. Börnin föndruðu svo skírnarkerti sem þau taka með sér heim á föstudaginn. Þá var komið að kryddbrauði og kanilsnúðum í kaffinu og æsispennandi brennókeppni í beinu framhaldi. Í þetta skiptið voru það herbergi 1 og 2 sem höfðu sigur úr býtum og munu þeir drengir keppa við okkur leiðtogana síðasta daginn!
Eftir að börnin höfðu klárað skyrið í kvöldmatnum undirbjuggu herbergi 4, 5 og 6 kvöldvöku og skemmtu sér allir konunglega. Sigríður Ásta leiðtogi sagði okkur svo söguna um hann Sakkeus áður en allir héldu í sín rúm og báðu kvöldbænir með leiðtoga.
Það er allavega ljóst að börnin njóta sín vel í sumarbúðunum og mikil spenna er fyrir morgundeginum. Það eru nú þegar komnar nokkrar myndir í myndasafnið og fleiri birtast á morgun.
Góða nótt.
Bloggar | 15.6.2009 | 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Velferðarsjóður barna úthlutaði styrkjum í gær vegna verkefnisins Sumargleði, en því er ætlað að gera sem flestum börnum kleift að taka þátt í uppbyggilegu tómstundastarfi yfir sumartímann, óháð efnahag foreldra. Samtals var úthlutað styrkjum að upphæð 80 milljónum króna til verkefna um land allt.
Kirkjumiðstöð Austurlands, sem frá upphafi hefur rekið sumarbúðastarfsemina við Eiðavatn, fékk úthlutað styrk að upphæð 240.000 kr. eða sem nemur dvalargjöldum 10 barna í sumarbúðunum í sumar. Því verða 10 börn styrkt að fullu til sumarbúðafarar, sem að öðrum kosti hefðu ekki tök á þátttöku í sumarbúðunum.
Foreldrar, sem hefðu áhuga á að nýta sér þetta tilboð, eru beðnir um að sækja um það sem fyrst hjá sr. Jóhönnu Sigmarsdóttur í innritunarsíma sumarbúðanna, 892-3890. Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar um málið. Skráning í sumarbúðirnar hefur gengið vel og því eru nú aðallega laus pláss fyrir 7-9 ára börn vikuna 29. júní til 3. júlí og fyrir 8-12 ára börn vikuna 13.-17. júlí.
Þess má geta að annar stuðningsaðili Kirkjumiðstöðvarinnar er Soroptimistaklúbbur Austurlands, sem lagði á dögunum til vel þegið vinnuframlag við að snyrta umhverfi sumarbúðanna, koma árabátum á flot og undirbúa staðinn að öðru leyti fyrir sumarbúðastarfið, sem hefst næst komandi mánudag.
Bloggar | 9.6.2009 | 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flokkur 1 | 15.-19. júní | 7-9 ára | 24.000 kr | 10% systkinaafsl. | |
Flokkur 2* | 22.-26. júní | 12-14 ára | 24.000 kr | 10% systkinaafsl. | |
Flokkur 3 | 29. júní-3.júlí | 7-9 ára | 24.000 kr | 10% systkinaafsl. | |
Flokkur 4 | 6.-10. júlí | 10-13 ára | 24.000 kr | 10% systkinaafsl. | |
Flokkur 5 | 13.-17. júlí | 8-12 ára | 24.000 kr | 10% systkinaafsl. |
*2. flokkur er ævintýraflokkur og þar verður margt spennandi í boði sem ekki leyfist í venjulegum barnaflokkum, svo sem miðnæturratleikur og margt fleira, ekki missa af því!
Einnig verður sérstök hátíðardagskrá í boði á 17. júní í 1. flokki.
ATH! Innritunargjald óafturkræft er kr. 3000. Ganga þarf frá greiðslu fyrir dvölina eigi síðar en 10 dögum áður en flokkurinn hefst. Greiðslukortaþjónusta.
Tekið er við skráningum í síma 892-3890 og á netfanginu: kirkjumidstod.austurlands@kirkjan.is.
Í tölvupóstinum þarf að koma fram:
- Flokkur
- Nafn barns
- Heimilisfang
- Póstnúmer og staður
- Kennitala barns
- Nafn forráðamanns
- Netfang forráðamanns
- Sími forráðamanns
- Hvort óskað er eftir sérstökum herbergisfélaga
Bloggar | 16.4.2009 | 09:42 (breytt 9.6.2009 kl. 11:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja nú er búin að vera ró yfir sumarbúðunum í nokkurn tíma enda mikið búið að vera um að vera í dag.
Eftir tiltekt, fánahyllingu og morgunmat var fræðslustund þar sem börnin lærðu meðal annars um Pál postula sem taldi sig vera þýðingarmeiri en þeir sem kristnir voru áður en hann tók trú. Hinn upprisni Kristur mætti honum svo og eftir það varð hann einn helsti postulli kristinnar trúar. Í föndrinu máluðu börnin svo steina sem þau mega taka með sér heim og útbjuggu einnig kærleiksmiða fyrir hvert annað og fær hvert barn afhentan einn slíkan miða á laugardaginn áður en þau fara heim.
Eftir að hafa borðað nægju sína af fiskibollum með karrýsósu var haldið í rútuna sem flutti okkur inn í Egilsstaði. Fyrsta stopp var sjoppan þar sem 300 krónunum var eytt í ýmist góðgæti. Næsta stopp var svo Selskógurinn og var þar nóg um að vera í alls kyns leikjum og einnig var snætt kaffi í skóginum, skinkuhorn og kókoskúlurnar sem útbjuggu sjálf í gær. Þegar fjörinu í skóginum var lokið var svo haldið í sund þar sem börnin léku við hvern sinn fingur og skoluðu sig eftir leikinn í skóginum.
Börn og leiðtogar fengu svo pizzu í kvöldmatinn og er óhætt að segja að börnin tóku vel til matar síns. Kvöldvakan var svo í boði drengjanna í herbergjum 1 og 2 og þar var mikið um grín og glens. Þetta var síðasta kvöldvakan sem börnin undirbjuggu en kvöldvakan annað kvöld verður í boði leiðtoganna en þá má einnig búast við miklu glensi.
Nú þegar börnin eru svifin inn í draumaheiminn bjóðum við leiðtogarnir einnig góða nótt og þökkum fyrir ánægjulegan dag með börnunum. Myndir frá ferðalaginu verða svo settar inn á síðuna á morgun.
Bloggar | 24.7.2008 | 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar