Listaflokkur mætir í hús!

Listaflokkur var boðinn velkominn í dag og augljóst er að hér er um að ræða lífsglaðan og öflugan hóp barna.
Eftir skemmtilega hópeflisstund þar sem farið var í hressilega leiki, sem reyna á leikræna tjáningu þátttakenda, og börnin voru kynnt fyrir starfseminni hér í sumarbúðum var komið að hádegismat: fiskibollur ala Kristjana, takk fyrir!
Það var lagt af stað í ferðalag í framhaldinu, á árabátum hvorki meira né minna. Haldið var í Eiðahólmann, öðru nafni Fjaðurey, og skoðuðu krakkarnir sig um og rákust meðal annars á fuglsunga sem skoppaði um hólmann.
Svangir ferðalangar fengu yndislega hjónabandssælu (galdurinn er í kókosnum vill sumarbúðastjóri meina) og kryddbrauð. Að því loknu fékk hópurinn listræna útrás og skapaði glæsileg herbergisskilti, hvert með sínu nafni.
Núna er hópurinn enn að njóta þess blíða veðurs sem okkur hefur mætt í dag, að þessu sinni á fótboltavellinum þar sem keppt er í kubb.
Í kvöld fellur það í skaut kappanna í herbergi 4 að undirbúa og stýra kvöldvöku, sem verður vafalaust skemmtun á heimsmælikvarða.
Hér við Eiðavatn eru því allir í góðum gír; þakklátir fyrir fallegt veður sem umlykur fallega náttúru og frábæran hóp. Nánasta framtíð er klárlega björt; þetta verður góð vika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband