Annar dagur í fimmta flokki

Allir sváfu vært þegar Sigga vakti börnin kl. hálf níu. Þau voru þó ekki lengi að spretta framúr enda flest full tilhlökkunar til að takast á við verkefni dagsins. Fyrst var að sjálfsögðu fánahyllingin þar sem vel var tekið undir hinn fagra fánasöng, ,,fáni vor sem friðarmerki“. Þá var haldið í morgunverðinn. Þar sem vel viðraði á okkur í dag og nærri því logn ákváðum við að skella okkur í björgunarvestin og halda út á Eiðavatn. Var farið á öllum flotanum og skiptust krakkarnir á að róa, því miður varð myndavélin rafmagnslaus þegar til átti að taka í bátsferðinni og því náðum við engum myndum þar. En það er óhætt að segja að bátsferðin hafi verið mikið ævintýr og allir komist heilir í höfn án nokkurrar sjóveiki eða sjóriðu. Í hádegismatinn fengum við dýrindis austfirskar heimatilbúnar fiskibollur. Að því loknu var fræðslustundin, þar sem haldið áfram frá því sem frá var horfið í gær. Þá tók við föndur þar sem krakkarnir klipptu út fiska og bjuggu til gipsgrímur (sjá myndir). Eftir kaffi var farið í skemmtilegan ratleik sem endaði með því að leitað var að dýrmætum fjársjóði, sem að sjálfsögðu var lítill nammipoki – góður fjársjóður það. Eftir skyr og eggjabrauð undirbjuggu strákaherbergin, 1, 2 og 3 kvöldvökuna sem þeir sáu svo um og gerðu með snilldarbrag. Veðrið lék við okkur í dag, þó að mestu hafi verið sólarlaust – en allir fóru glaðir í bólið. Hópurinn er frábær og flestir hafa þegar eignast nýja vini. Á morgun er svo ferðadagur hjá okkur, þá stefnum við á Egilsstaði, í sund, sjoppu og Selskóg og komum heim um kl. 18. Þannig að þá verður enginn við símann, en að sjálfsögðu má þá hringja bara örlítið seinna og fá fréttir. En hlýjar kveðjur úr miklu fjöri á Eiðum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband