Kvöldmessuferð og fleira í gær

Í gær, miðvikudag, var boðið upp á áframhaldandi burtróður á kanó um morguninn. Að vísu voru ekki margir sem spreyttu sig en þeim mun fleiri áhorfendaskarar sem bleyttu síg í vatninu!

Þetta var "sparidagur" flokksins, messudagurinn okkar, og því var bajonneskinka með gratíneruðum kartöflum í hádegismatinn og ís á eftir. Þá tók við áframhaldandi fræðsla um líf og starf Jesú og að því búnu var farið út í sólina á stéttinni og gipsgrímurnar málaðar. Einnig var boðið upp á stinger-mót á körfuboltavellinum og fótboltaspilsmót inni við.

Kaffið var sérlega girnilegt eða rjómaterta og heimabakaðar flatkökur með hangikjöti eða osti. Eftir það hófst hinn víðfrægi ormaleikur sumarbúðanna þar sem hlaupið er eftir númerum í umhverfi staðarins og ýmsar þrautir leystar. Enn var mönnum heitt og ákveðið að kæla liðið svolítið niður með því að hafa vatnsstríð á stéttinni! Sprautað var úr slöngum og vatnsblöðrur sprengdar, svaka gaman.

Kvöldmaturinn var grillaðar pylsur með tilheyrandi í umsjón leiðtoga. Kvöldvökuna sáu herbergi 7 og 8 um en eftir það var farið til Eiðakirkju þar sem sr. Vigfús Ingvar á Egilsstöðum leiddi stutta kvöldmessu. Ferðatilhögun var með þeim hætti að þeir sem vildu fengu að róa annaðhvort til eða frá kirkju og hinir að ganga eftir nýstikaðri leið. Sætt og gott messukaffi var í safnaðarheimilinu svo að þegar heim var komið um miðnætti skriðu menn beint í bælin.

Nú í morgun var svo ákveðið að gefa þreyttu liðinu klukkutíma útsof og eru menn því nýlega skriðnir fram úr...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband