Dagur að kveldi kominn

Jæja, þá færist ró yfir sumarbúðirnar þetta fyrsta kvöld. Flestir eru sofnaðir en aðrir eru enn að venjast staðnum og eiga erfitt með að sofna svona fyrsta kvöldið að heiman. Það er þó kyrrð og ró yfir öllu og munu þau börn sem enn eru vakandi sofna von bráðar. En þá að deginum sem að baki er.

Eftir að foreldrar voru búnir að kveðja börnin var upphafsstund þar sem við kynntum okkur, sungum saman og fórum yfir reglur sumarbúðanna. Hér er aðalreglan að sjálfsögðu gullna reglan úr Biblíunni "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra" Börnunum gengur vel að fylgja þessari reglu! Að lokinni upphafsstund var hádegismatur, fiskibollur með hrísgrjónum, kartöflum og karrýsósu já og ekki má gleyma heimabakaða rúgbrauðinu. Að sjálfsögðu rann þetta allt saman ljúflega niður.

Eftir hádegismatinn var svo fyrsta fræðslustundin þar sem við lærðum um Jóhannes skírara sem skírði fólk í ánni Jórdan en hann skírði einmitt Jesú og við skírnina fylltist Jesús heilögum anda Guðs. Börnin föndruðu svo skírnarkerti sem þau taka með sér heim á föstudaginn. Þá var komið að kryddbrauði og kanilsnúðum í kaffinu og æsispennandi brennókeppni í beinu framhaldi. Í þetta skiptið voru það herbergi 1 og 2 sem höfðu sigur úr býtum og munu þeir drengir keppa við okkur leiðtogana síðasta daginn!

Eftir að börnin höfðu klárað skyrið í kvöldmatnum undirbjuggu herbergi 4, 5 og 6 kvöldvöku og skemmtu sér allir konunglega. Sigríður Ásta leiðtogi sagði okkur svo söguna um hann Sakkeus áður en allir héldu í sín rúm og báðu kvöldbænir með leiðtoga.

Það er allavega ljóst að börnin njóta sín vel í sumarbúðunum og mikil spenna er fyrir morgundeginum. Það eru nú þegar komnar nokkrar myndir í myndasafnið og fleiri birtast á morgun.

Góða nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er greinilega alltaf jafn gaman í sumarbúðunum og nóg að gera. Vonandi sofa allir rótt og vakna ferskir á nýjum degi. Kær kveðja, Hólmfríður ( mamma Hilmis)

Hólmfríður Birgisdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband