24. júlí - ferðadagur

Jæja nú er búin að vera ró yfir sumarbúðunum í nokkurn tíma enda mikið búið að vera um að vera í dag.

Eftir tiltekt, fánahyllingu og morgunmat var fræðslustund þar sem börnin lærðu meðal annars um Pál postula sem taldi sig vera þýðingarmeiri en þeir sem kristnir voru áður en hann tók trú. Hinn upprisni Kristur mætti honum svo og eftir það varð hann einn helsti postulli kristinnar trúar. Í föndrinu máluðu börnin svo steina sem þau mega taka með sér heim og útbjuggu einnig kærleiksmiða fyrir hvert annað og fær hvert barn afhentan einn slíkan miða á laugardaginn áður en þau fara heim.

Eftir að hafa borðað nægju sína af fiskibollum með karrýsósu var haldið í rútuna sem flutti okkur inn í Egilsstaði. Fyrsta stopp var sjoppan þar sem 300 krónunum var eytt í ýmist góðgæti. Næsta stopp var svo Selskógurinn og var þar nóg um að vera í alls kyns leikjum og einnig var snætt kaffi í skóginum, skinkuhorn og kókoskúlurnar sem útbjuggu sjálf í gær. Þegar fjörinu í skóginum var lokið var svo haldið í sund þar sem börnin léku við hvern sinn fingur og skoluðu sig eftir leikinn í skóginum.

Börn og leiðtogar fengu svo pizzu í kvöldmatinn og er óhætt að segja að börnin tóku vel til matar síns. Kvöldvakan var svo í boði drengjanna í herbergjum 1 og 2 og þar var mikið um grín og glens. Þetta var síðasta kvöldvakan sem börnin undirbjuggu en kvöldvakan annað kvöld verður í boði leiðtoganna en þá má einnig búast við miklu glensi.

Nú þegar börnin eru svifin inn í draumaheiminn bjóðum við leiðtogarnir einnig góða nótt og þökkum fyrir ánægjulegan dag með börnunum. Myndir frá ferðalaginu verða svo settar inn á síðuna á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband