Dagurinn í dag (16. júlí) var afar óvenjulegur hér í sumarbúðunum. Krakkarnir skiluðu úrunum sínum í gærkvöldi og í dag var öllu snúið á hvolf af venjulegri dagskrá. Dagurinn hófst á kvöldkaffi (ávöxtum) og svo fóru nývöknuð börnin í kvöldhelgistund. Síðan var farið út í fáránlega ólympíuleika, þar sem keppt var í greinum á borð við eggjakast og gæsahlaup. Eftir það hófst spennandi hárgreiðslukeppni, þar sem menn greiddu sér og öðrum af miklum móð. Kl. 12 fengu börnin "kvöldmat" - kakósúpu og brauð - og fóru svo aftur út í knattspyrnu og þá út á báta. M.a. var farið í veiðiferð, en ekki vildi hann bíta á í þetta skiptið.
Um miðjan daginn fengu börnin hefðbundinn morgunmat (seríos og tilheyrandi) í stað kaffitímans, og svo hádegismatinn um kvöldið, karrýfisk með hrísgrjónum og gulrótasalati. Við höfðum þá Kínakvöld í tilefni þess að einn leiðtoganna, Marta E. Ingólfsdóttir á Eiðum, var skiptinemi í Kína síðasta vetur, og kenndi hún okkur að borða með prjónum og allir bjuggu sér til Kínahatta! Áður höfðu krakkarnir þó hlýtt á fræðslustund dagsins þar sem þau lærðu m.a. um Gídeon í Gamla testamentinu, sem fannst hann sjálfur aumur og huglaus, en Drottinn sá í honum hugdjarfa hetju sem leiddi þjóð sína til sigurs á kúgurum sínum, Midíanítum.
Nú í kvöld tóku krakkarnir svo þátt í sérstökum leik, sem leiðtogarnir höfðu undirbúið, og nefnist "Hönd Guðs." Áttu þau að feta sig, einn í einu, blindandi eftir línu, sem strengd hafði verið þvers og kruss um nágrenni sumarbúðanna, og varð eitt og annað á vegi þeirra á leiðinni: Syndapoki, þungur, sem þurfti að bera lítinn spöl, vatnsglas sem mátti hressa sig á til áminningar um Jesú sem vatn lífsins, freistari sem vildi leiða börnin út af veginum og engill sem leiddi þau aftur að réttri línu. Leikurinn á allur að minna á mikilvægi þess að treysta Guði, en er líka skemmtileg og sérstök upplifun fyrir krakkana, sem allir tóku þátt í og höfðu gaman af, og vildu mikið ræða við leiðtogana á eftir. Þegar börnin komu inn eftir leikinn beið þeirra kanilsnúður og mjólkurglas og svo var þeim sagt að búa sig í háttinn. Ekki stoppuðu þau þó lengi inni á herbergjum, því leiðtogarnir komu þeim að óvörum um tíuleytið og boðuðu alla í náttfatapartí á sal, þar sem börnin hafa síðan verið að horfa á teiknimynd og gæða sér á nammigotti. Nú er viðburðaríkum degi í sumarbúðunum að ljúka.
Flokkur: Bloggar | 17.7.2008 | 00:18 (breytt kl. 00:18) | Facebook
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
O hvað ég vildi að ég væri í sumarbúðum, það er ekkert smá fjör hjá ykkur. Spurning hvort börnin vilji yfir höfuð nokkuð koma heim aftur.
Kveja frá Nesk.
Kata mamma Daníels Nóa (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.