Hestar, hakk og hráslagaveður

Fyrsti heili dagur barnanna í 4. flokki í sumarbúðunum hófst kl. 8:30 á að þau voru vakin með söng, tóku til í herbergjunum, fóru út að hylla fánann og svo í morgunmat. Mikið útiprógramm beið þeirra svo í morgun. Fyrst fóru þau á hestbak undir stjórn þeirra Mörtu leiðtoga og Hrafnhildar Tíbrár á Hjartarstöðum, sem kom í heimsókn með hrossin sín þrjú. Að sjálfsögðu voru allir með hjálm og fyllsta öryggis gætt. Öryggisþáttinn skal einnig nefna í sambandi við bátana, en þegar hestaferðinni var lokið fór liðið út að róa á vatninu, auðvitað allir í björgunarvestum með klofólina sína vandlega festa. Veður var nokkuð stillt hér á Eiðum í dag en skúrir og svo samfelld rigning í eftirmiðdaginn. Kuldi og hálfhráslagalegt veður.

Í hádegismatinn var hakk og spagettí, salat og brauð, en eftir hádegismatinn fóru börnin í fræðslustund, sem verður alla dagana nema á messudegi. Þema fræðslunnar þetta sumarið er "Þú ert þýðingarmikill" og lærðu krakkarnir í dag m.a. söguna um lærisveininn Símon Pétur, sem fannst hann heldur þýðingarlítill eftir að hafa afneitað Jesú þrisvar eftir handtöku hans, en fylltist djörfung og krafti til að boða trúna eftir upprisu og himnaför Jesú. Þá föndruðu krakkarnir fingrafaralaufblöð, sem minna á að allir eru einstakir í augum Guðs og engir tveir hafa sama fingrafarið. Einnig drógu börnin sér leynivin í flokknum og byrjuðu að skrifa honum bréf.

Kryddbrauð og eplakaka beið barnanna í kaffinu og að því búnu brennómót og fleiri leikir fram eftir degi. Skyr og brauð í kvöldmatinn og svo kvöldvaka í umsjón strákanna í flokknum nú áðan. Við vonum að betur viðri á okkur á morgun, en þá verður svo kallaður "klukkulaus dagur" í sumarbúðunum með miklu gríni, og eru börnin nú búin að skila úrunum sínum inn til geymslu.

Myndirnar úr flokknum má finna með því að smella á "Myndaalbúm" hér til hliðar og svo "4. flokkur 2008."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá en gaman að geta fylgst með ykkur þarna. Augljóst að allir skemmta sér vel. Hlakka til að kíkja næstu daga.

Kveðja frá Nesk. Kata og fj.

Kata mamma Daníels Nóa (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 23:40

2 identicon

Gaman að fylgjast með á blogginu, og skoða myndir, kveðja frá Hornaf.

Siggi og Anna María, foreldrar Kidda og katýar. (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 21:52

3 identicon

Hæ gaman að geta fylgst með ykkur það er greinilega mikið gaman

kveðja frá Höfn

Helena og Hekla, mamma og systir Ingva (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 22:38

4 identicon

Gaman að skoða myndirnar og sjá hvað þið eruð að gera. Greinilegt að allir skemmta sér vel. Hlökkum til að sjá hvað stóri bróðir er að gera þessa vikuna.  Kveðja Elísa Björg og Jón Theódór.

Systkyni Sigurpáls (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 22:41

5 identicon

Greinilega alveg geggjað stuð hjá ykkur. Bíð spennt eftir myndum og bloggi.

Kær Kveðja Lilja Salný Neskaupstað

Lilja Salný. mamma Hjartar Loga (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 23:06

6 identicon

Halló öll, rosalega er gaman að geta fylgst með ykkur, hlakka til að sjá fleiri myndir og bloggið er frábært, kveðja frá foreldrum og bræðrum Egils Jóns

Signý og Hannes (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband