22. júlí - sunnudagur

Sunnudagurinn 22. júlí hófst líkt og aðrir dagar hér í sumarbúðunum klukkan hálfníu með vakningu við ljúfan söng og síðan morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum. Þá tók við fyrsta útivera dagsins, haldið var niður á fótboltavöll þar sem sumir kepptu í fótbolta og aðrir í skemmtilega boltaleiknum sto.

En sunnudagur er þó alltaf sérstakur dagur í sumarbúðunum, hátíðisdagur þar sem haldin er guðsþjónusta með þátttöku krakkanna. Klukkan ellefu hófum við að undirbúa messu sunnudagsins og skiptum í hópa þar sem sumir krakkanna æfðu söng, aðrir leikþátt úr guðspjöllunum og enn aðrir upplestur bæna og ritningarorða. Að undirbúningnum loknum klæddu bæði krakkar og leiðtogar sig í sparifötin og mættu prúðbúnir í hátíðarmatinn, sunnudagssteikina: lambalæri með öllu tilheyrandi. Auðvitað sveik ekki lambið og menn gerðu því góð skil og ekki síður ísnum sem á eftir fylgdi.

Eftir matinn var svo komið að því að halda með rútu til Eiðakirkju, þar sem ætlunin var að taka þátt í guðsþjónustu kl. 14. Þá reyndi á krakkana, sem svo margt höfðu undirbúið um morguninn. Tókst það allt með ágætum og stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði í þessari helgu stund. Í messunni var skírð lítil stúlka og var gaman að taka þátt í þeirri hátíðisathöfn.

Þegar heim var komið úr kirkju tók við hátíðarkaffi sem var jafnframt afmæliskaffi hennar Karenar, sem varð 11 ára í dag. Fengu hún og aðrir skúffuköku og kleinur, og var ekki annað að sjá en að hvort tveggja félli í góðan jarðveg. Þegar menn höfðu drukkið kaffið og skipt um föt var komið að því, sem margir höfðu beðið spenntir eftir: að komast á hestbak. Þrír hestar komu í heimsókn og fengu allir, sem vildu, að prófa að fara á bak og í örlítinn túr.

Í kvöldmatinn var kakósúpa með tvíbökum en nú þegar klukkan er um átta eru herbergi 1, 5 og 6 að ljúka við að undirbúa skemmtiatriði og leiki fyrir kvöldvöku kvöldsins, sem fram undan er, og er ekki að efa að þar verði glatt á hjalla. Deginum mun svo að vanda ljúka með stuttri helgistund og kvöldsögu í herbergjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá fullt af nýjum myndum gaman að geta fylgst með ykkur og góða skemmtun á morgun kv. Helena

Helena (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband