Lokadagur 4. flokks

17. júlí rann upp, bjartur og fagur, seinasti heili dagur 4. flokks hér í sumarbúðunum í sumar, og það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við okkur hér við Eiðavatn í dag - enda komið nóg af rigningu í bilið!

Dagurinn hófst með hefðbundnum hætti, það er með morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum, en síðan tók við fyrsta útivera dagsins. Þar var skipt í lið og farið í stórskemmtilegan ratleik, þar sem liðin hlupu um sumarbúðasvæðið og leystu þrautir á stöðvum ratleiksins. Á hverri stöð fengu þau svo bókstaf í lausnarorði, en orðið gaf til kynna hvar fjársjóður - nefnilega sælgæti fyrir alla - var falinn.

Í hádegismatinn var ljómandi góður karrýfiskréttur með hrísgrjónum, grænmeti og rúgbrauði, og eftir matinn fræðslustund dagsins. Að þessu sinni fræddust börnin með aðstoð Dúbba dúfu og félaga um Esekíel, spámann úr Gamla testamentinu, og ræddu um vonarboðskap hans og mikilvægi bjartsýni og vonar í lífinu. Föndrið í dag minnti svo á von himinsins, sem við horfum til líkt og í gegnum glugga - en það voru einmitt málaðar gluggamyndir. Þegar heim er komið geta börnin tekið myndirnar af glærunum, sem þau máluðu á, fest þær upp í glugga í herberginu sínu og látið þær minna sig á vonina, sem við höfum rætt um. Á fræðslustundunum hafa krakkarnir einnig lært bænavers eftir Valdimar Briem, sem er svona: Þú Guð, sem stýrir stjarnaher/ og stjórnar veröldinni,/ í straumi lífsins stýr þú mér/ með sterkri hendi þinni.

Nú nú, eftir fræðslu og föndur var komið kaffi og höfðu matráðskonurnar góðu gert sér lítið fyrir og bakað indælis sjónvarpsköku ofan í hópinn. Hún var snædd með bestu lyst og auk þess smurt brauð. Eftir kaffið hélt hópurinn niður á völl þar sem fram fór knattspyrnumót flokksins. Þar var aldeilis hart barist, en svo slegið á léttari strengi og farið út að vaða í Eiðavatninu í þessari líka brakandi blíðu. Skemmtu menn sér hið besta við buslið.

Kvöldmatur lokakvöldsins var að vanda flatbaka með skinku og pepperóní og rann hún ljúflega ofan í mannskapinn. Klukkan átta hófst svo síðasta kvöldvaka flokksins með brennóleik leiðtoganna við sigurvegara brennómótsins. Var fyrst leikinn æfingaleikur, sem krakkarnir unnu, en síðan annar leikur, sem leiðtogarnir unnu. Má því segja að liðin hafi verið jöfn að styrkleika þegar upp var staðið, en þetta var auðvitað bara til gamans gert. Og ekki síður voru skemmtiatriði kvöldvökunnar til gamans gerð, þegar leiðtogarnir brugðu sér í ýmis hlutverk og tróðu upp með mikið grín undir merkjum leikfélagsins "Týnda gúmmíhanskans."

Kvöldinu lauk með helgistund þar sem Þorvaldur leiðtogi ræddi við okkur um fyrirgefninguna og boðskap Jesú um hana. Nú er klukkan að nálgast miðnætti, ró komin í sumarbúðirnar og flestir sofnaðir. Við þökkum kærlega fyrir skemmtilegan flokk, sjáumst kl. 13 á morgun (miðvikudag).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góða kvöldið! ég vil þakka kærlega fyrir  sunnevu Dröfn dóttur mína  hún kom heim í dag alveg rosalega ánægð með dvölina hjá ykkur   takk kærlega  kv. Jenný Gunnarsd. mamma sunnevu drafnar...

Jenný Gunnarsd. (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband