Lokakveðja 3. flokks

Þá eru börnin í 3. flokki farin heim til sín eftir ánægjulega og viðburðaríka daga í sumarbúðunum hér við Eiðavatn. Síðasti heili dagur flokksins hófst með hefðbundnum hætti á morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum, en síðan var farið út í rústir skammt frá sumarbúðunum og í litaleik þar, og að því búnu í skemmtilega fjársjóðsleit, ratleik í umhverfi sumarbúðanna.

Hádegisverðurinn var hakk og spagettí en eftir hádegi tók við fræðslustund á sal um Pál postula og svo föndur dagsins, gluggamálning. Í eftirmiðdaginn var farið aftur út, að þessu sinni í brennó, og stóð lið herbergja 3 og 4 uppi sem sigurvegari í brennómótinu eftir harða og spennandi keppni. Þá var einnig farið í veiðiferð þó að aðeins hafi verið kastað frá landi að þessu sinni vegna öldugangs á vatninu, en hann Kristófer náði nú samt sem áður að veiða vænan fisk.

Í matinn síðasta kvöldið var pitsa með skinku og pepperóní, en um kvöldið fór fram síðasta kvöldvaka flokksins. Hún hófst með brennóleik leiðtoga og sigurvegara brennómótsins, en síðan var röðin komin að leiðtogunum að bregða á leik og skemmta krökkunum með alls konar gríni. Þá var nú aldeilis glatt á hjalla. Kvöldinu lauk með því að allir fengu íspinna og horfðu á síðasta fræðsluleikþátt flokksins, um spámanninn Esekíel úr Biblíunni og gildi þess að vera bjartsýnn, jákvæður og halda í vonina.

Auðvitað gekk mönnum misvel að sofna eins og gengur síðasta kvöldið, þegar leiðtogarnir höfðu lesið sögu og beðið kvöldbænir inni á herbergjum, en allir sofnuðu nú fyrir rest og vöknuðu sprækir í pökkun og frágang í morgun. Kl. 11 hófst síðasta samverustund flokksins, lokastund þar sem börnin fengu afhent viðurkenningarskjöl sín fyrir þátttökuna í flokknum og sigur í kappleikjum, uppljóstruðu um leynivini sína, skemmtu sér yfir myndum úr flokknum og hlutu fararblessun. Eftir það var farið beint í hádegismatinn, grjónagraut og slátur.

Við starfsmenn sumarbúðanna þökkum börnunum í flokknum kærlega fyrir samveruna. Vonum að allir hafi komið ánægðir heim og einhverjir komi jafnvel aftur að ári. Myndir frá síðasta deginum eru komnar á síðuna.

Bestu kveðjur frá Eiðum, Hlín, Hólmgrímur, Þorvaldur, Baldur, Eyrún og Þorgeir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyirr hann Ágúst Mána í veikindum og allt hitt., hann kom þreyttur og ánægður heim, vorum að skoða myndirnar og rifja upp.

Bestu kveðjur

Guðbjörg og Ágúst Máni

Guðbjörg og Ágúst Máni (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 21:27

2 identicon

Jóel biður að heilsa ykkur öllum, honum fanst alveg ægilega gaman..... fyrir utan hvað var kalt ( ég minnti hann nú á það´hann hefði nú alveg getað klætt sig betur ) Kær kveðja Jóel og Kolla.

Kolla Bjö (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband