7. júlí - ferðadagur!

Í dag, laugardaginn 7. júlí, vöknuðu krakkarnir hér í sumarbúðunum að vanda kl. 8:30. Að loknum morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum hófst fræðslustund dagsins þar sem börnin sungu og horfðu á leikþátt þar sem þau lærðu um skírn Jesú og upphafið á starfi hans. Fræðslunni lauk með föndri, trékrossum sem börnin máluðu og bundu saman.

Í hádegismatinn var svo steiktur fiskur með kartöflum, og að matnum loknum kom langferðabíll að sækja hópinn. Förinni var heitið á Egilsstaði, en í hverjum flokki fara sumarbúðakrakkarnir þangað í skemmtitúr. Fyrst var farið í Söluskála KHB, þar sem hver og einn mátti kaupa sér gúmmulaði og gómsæta drykki fyrir 300 kr. Ýmsir fengu þó reyndar meira gotterí en sem upphæðinni nam, því að helmingsafsláttur var á nammibarnum í dag - laugardag!

Þá var farið í Selskóginn, þar sem orkan úr sælgætinu var nýtt til ýmissa leikja. Ekki skorti krakkana verkefni í aparólunni, kastalanum, í skóginum og annars staðar. Eftirmiðdagshressingin var snædd í Selskógi og síðan farið í sundlaugina. Þar var nú aldeilis ærslast og heldur betur glatt á hjalla, þó allt undir styrkri stjórn leiðtoganna.

Þegar rútubíllinn hafði skilað hópnum aftur í sumarbúðirnar var kominn tími fyrir kvöldmat, grillaðar pylsur með tilheyrandi meðlæti, og gerðu menn þeim góð skil. Eftir matinn fóru nokkrir krakkar svo í veiðiferð með Hlín sumarbúðastjóra og veiddi hún Ísabella ljómandi fallegan fisk! Kvöldvakan var að þessu sinni í umsjón herbergja 3 og 4, mikið fjör þar, og degi allra saman lauk eins og vanalega með helgistund, þar sem við heyrðum að þessu sinni söguna um Jesú og Sakkeus. Foringjarnir lásu svo fyrir börnin í herbergjum og sofnuðu menn fljótt eftir erfiðan dag. Nú er komið miðnætti og ró komin í sumarbúðirnar við Eiðavatn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband