Fjörugur fimmtudagur hjá fyrsta flokki!

Fyrsti flokkurinn átti svo sannarlega fjörugan fimmtudag.
Það voru fastir liðir að venju: Dagurinn byrjaði á fánahyllingu og morgunmat.
Eftir morgunmatinn var komið að tiltekt dagsins, en það hlýtur að vera erfitt að finna jafn dugleg börn og eru í þessum flokk. Herbergin eru búin að vera algjörlega til fyrirmyndar í vikunni og eiga börnin lof skilið fyrir frammistöðu sína í þeim efnum.
Síðar um morguninn voru haldnir fáranleikar, þar sem meðal annars var keppt í blindandi vítaspyrnukeppi, eggjaboðhlaupi, skósparki, ólívuspýtingum og fleiri alveg fáranlegum íþróttum.
Eftir dásamlegan hádegisverð var komið að miklu ferðalagi. Góð ganga, kíkt á kanóa á tjörninni þar sem allir sem vildu fengu að róa, nesti snætt, spjallað og rætt, í sólinni sæl og kát.
Fræðslustund fór því fram seinni part dags en eftir hana var farið í föndur dagsins þar sem öll börnin fengu að kíkja út, finna sér stein og mála hann síðan. Það er ekki orðum ofaukið að hér séu listamenn á ferðinni.
Það var flatbaka í kvöldmatinn og það leiddist engum. Kvöldvakan sló svo algjörlega í gegn en þar léku leiðtogarnir við hvurn sinn fingur.
Eftir stutta kvöldhugleiðingu frá sumarbúðastjóra héldu börnin þreytt en sátt upp í rúm, meira en tilbúin til þess að hvíla sig eftir viðburðaríkan dag.
Starfsmenn sumarbúðanna eru í skýjunum eftir vikuna - allt starfið hefur gengið framar björtustu vonum og það er þátttöku- og framkvæmdagleði barnanna að þakka.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En dásamlegt að heyra hvað allt gengur vel, sjáumst svo í dag :)

Helga Dögg Teitsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2012 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband