Blautur en góður dagur á Eiðum!

Það er nú ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við 5. flokk hér á Eiðum, en við höfum nú samt reynt að vera eins mikið úti í dag, fimmtudag, og krakkarnir hafa enst til. Þrátt fyrir að ró hafi verið komin á kl. 23 í gærkvöldi voru það þreyttir krakkar sem vöknuðu í morgun kl. 8:30 enda mikið fjör búið að vera alla vikuna. Þó hresstust menn fljótt við enda spennandi dagskrá fram undan. Eftir fánahyllingu og morgunmat var nefnilega komið að öfugri dagskrá miðað við þriðjudagsmorguninn, strákarnir fóru núna út að róa á kanó en stelpurnar kepptu í Kubb-leiknum skemmtilega.

Í hádegismat fengu börnin svo svikinn héra með brúnni sósu og frönskum kartöflum og rann maturinn ljúflega í svangan mannskapinn. Eftir hádegi var keppt áfram í Kubb og einnig í fótboltaspilinu áður en komið var að fræðslustund dagsins með leikþætti úr Biblíunni, söngvum og bænum. Svo var það föndur dagsins sem fólst í að mála skálarnar sem við unnum úr leir fyrir tveimur dögum. Eru þær nú orðnar mjög skrautlegar og tilbúnar fyrir heimferð.  Í kaffitíminu bauð Guðný okkur upp á volga eplaköku og nýbakað, smurt kúmenbrauð, en síðdegis var á ný farið út í "góða" veðrið. Að þessu sinni gátu börnin valið á milli þess að fara niður að Eiðavatni og reyna að renna fyrir fisk, eða að fara á grasvöllinn og taka þátt í fótboltamóti þar sem helstu löndin á HM áttu auðvitað sína "fulltrúa" í nöfnum liðanna sem kepptu!

Nú er að hefjast kvöldmatur þar sem boðið verður upp á grjónagraut og slátur, en í kvöld er svo komið að síðustu kvöldvöku vikunnar, þar sem leiðtogarnir bregða á leik!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband