Fyrsta kvöldið hjá 5. flokki hér í sumarbúðunum gekk að mestu leyti vel fyrir sig. Í kvöldmat fengu börnin skyr og brauð og að því loknu máttu þau leika sér að vild en margir tóku þátt í billjard-móti í umsjón Hlínar eða skelltu sér út með fót- eða körfubolta. Fyrsta kvöldvaka flokksins var í umsjón herbergja 3, 4 og 8 og er óhætt að segja að þar hafi verið mikið fjör - leikir, sull, grín og söngur! Í kvöldkaffinu fengu börnin ávexti og að lokinni helgistund á sal í umsjón Mörtu var haldið í háttinn um kl. 22. Börnin fengu kvöldsögu og spjall við leiðtoga inni á herbergjum og svo gekk mönnum auðvitað misvel að festa svefn eins og gengur fyrsta kvöldið í burtu frá pabba og mömmu - sumir sofnuðu strax en aðrir seinna. Á miðnætti voru þó nánast allir sofnaðir.
Það var svo ánægjulegt að sjá í morgun að þó einhverjir væru árrisulir og spenntir þá virtu börnin fyrirmæli um að halda ró þar til leiðtogi kom og vakti mannskapinn ljúflega kl. 8:30. Nýr dagur í sumarbúðunum hefst á fánahyllingu og morgunmat og svo er haldið á vit nýrra ævintýra. Þennan morguninn var ákveðið að kynjaskipta hópnum og leyfa stelpunum að fara að æfa sig að róa kanó meðan strákarnir reyndu með sér í útileikjum. Seinna í flokknum verður svo skipt þannig að allir fái að prófa allt sem sumarbúðirnar hafa upp á að bjóða. Stelpunum gekk nú bara ljómandi vel í kanóróðrinum á lygnri tjörn sem er miðja vegu milli sumarbúðanna og Eiðakirkju.
Í hádegismat fengu krakkarnir hakk og spagettí og voru svo lystug að Kristjana matráðskona hafði varla séð annað eins! Eftir hádegismatinn var komið að fræðslustund og síðan föndri dagsins, sem að þessu sinni voru skálar úr leir - kannski svipaðar þeim sem við ímyndum okkur að Jósef hafi borðað úr í Egyptalandi! Kaffibrauðið rann ljúflega niður, en hér er allt bakað á staðnum, bæði brauð og kökur og í meira lagi ljúffengt. Eftir kaffið var komið að einu af því allra skemmtilegasta sem við gerum á Eiðum - að fara út að vaða og busla í vatninu. Þó að sólin hafi falið sig bak við skýin var lygnt og prýðilegasta veður til að bleyta sig. Þegar menn komu upp úr voru þeir svo sendir beint í heita sturtu. Kvöldmaturinn var grænmetissúpa og pitsasnúðar en eftir hann var frjáls tími, notaður af flestum til ýmissa leikja, en nokkrir völdu að fylgjast með seinni hálfleiknum í leik Úrúgvæ og Hollands á HM sem sýndur var á tjaldi. Kvöldvakan var svo í umsjón herbergja 1, 2, 6 og 7 að þessu sinni og að henni lokinni voru melónur og bananar í kvöldsnarlinu. Nú er bænastund lokið og leiðtogar að lesa fyrir börnin kvöldsöguna á herbergjum. Góðum degi við Eiðavatn að ljúka.
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að fylgjast með ykkur
Takk fyrir.
Kveðja frá Vopnafirði.Gyða og Keli.(foreldrar LovísuLíf)
Gyða Jósepsdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.