Bátafjör og ratleikur

Börnin voru vakin kl. hálfníu í morgun og upp úr því fórum við út að fánastöng og drógum fánann okkar að húni. Eftir morgunmatinn var hópnum skipt í tvennt, annar helmingurinn fór á báta á Eiðavatni á meðan hinn hópurinn fór í skemmtilega leiki á íþróttavellinum. Svo skiptu hóparnir um hlutverk. Allir skemmtu sér konunglega bæði á bátum og í leikjum. Fiskurinn í hádeginu rann ljúflega niður hjá langflestum og eftir matinn fengum við að sjá annan hluta leikritsins um Jósef og bræður hans. Eftir góðar umræður um söguna gerðum við skálar úr leir sem nú bíða þess að verða þurrar svo hægt verði að mála þær síðar í vikunni. Vinaböndin gerðu líka stormandi lukku og gengur maður nú ekki um húsið öðruvísi en að sjá krakka hnýta vinabönd í öllum skúmaskotum. Eftir kaffitímann fóru svo allir út í ratleik.
Strákaherbergin fjögur sáu um kvöldvökuna í kvöld og ríkti mikil gleði og kátína í hópnum meðan á henni stóð. Það er líka gaman að segja frá því að hópurinn er mjög duglegur að taka undir sönginn með okkur. Líflegur og skemmtilegur hópur sem nú er kominn í ró og allflestir komnir í draumaheiminn.

P.s. Nú erum við búin að búa til myndaalbúm fyrir 4. flokk og hvetjum ykkur endilega til að skoða myndirnar sem þar eru. Við munum svo bæta við myndum eftir því sem tækifæri gefast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband