Fjórði dagur - fáránleikar og fornar slóðir

Krakkarnir voru vaktir að venju kl. 8.30 á þessum skýjaða fimmtudegi. Eins og siður er hjá leiðtogunum í sumarbúðunum er búið að grannskoða veðurspá fyrir hvern dag og af þeirri rannsóknarvinnu töldum við víst að rigna myndi á okkur í dag. En til allrar hamingju brást veðurspáin og datt ekki dropi úr lofti fyrr en eftir kvöldmat þannig að ekkert var að því að verja góðum hluta af deginum úti í Guðs grænni náttúrunni. Eftir fánahyllingu og morgunmat var skundað niður á fótboltavöll þar sem var keppt í svokölluðum fáránleikum, en þar er keppt í furðulegum íþróttum eins og skósparki, vítaspyrnukeppni með bundið fyrir augun, hestbakskapphlaupi og fleirum slíkum furðugreinum. Það má sjá myndir frá þessum leikum í albúmi 4. Í hádegismat fengum við steiktan fisk með grænmeti og mæltist vel fyrir hjá börnunum. Eftir hádegismat var hin venjubunda fræðsla, þar sem leiðtogarnir fóru með mikinn leiksigur í sögunni af Jósef og bræðrum hans. Að því loknu tók við föndurstund, þar sem krakkarnir máluðu skálarnar sem þeir leiruðu í fyrradag og þegar málningarvinnunni lauk hófst mikil fjöldaframleiðsla á vinaböndum sem hafa reynst góðar gjafir í leynavinaleiknum sem hefur staðið yfir alla vikuna.
Að þessu sinni var kaffitíminn með harla óvenjulegum hætti. Klukkan hálf fjögur fengu allir bakpoka sem innihélt stóra pizzasnúða og kókómjólk og héldu í leiðangur að gömlum torfbæjarrústum sem eru skammt frá sumarbúðunum. Var þar farið í skemmtilegan ratleik og nestið borðað. Í ratleikinn komu nokkrir óboðnir en engu að síður velkomnir gestir, þar sem þrír gæsaungar röltu sér til okkar og  fylgdust grannt með þessum skemmtilegu og líflegu krökkum hlaupa um rústirnar og var engu líkara en ungarnir vildu líka taka þátt. Gæsaungarnir hafa reyndar verið mjög fyrirferðamiklir hjá okkur, því í gærkvöldi komu fimm ungar til okkar heim í sumarbúðir og voru ófáanlegir að fara aftur til sinna blóðforeldra, þannig að Bogi og Hildur, urðu steggur og gæs í nokkra klukkutíma uns þau náðu að sameina fjölskylduna á ný seint í gærkvöld.
Eftir rústaferðina góðu var komið heim í grjónagraut og slátur og þá tók við kvöldvaka  sem herbergi 8 og 9 sáu um. Það var að sjálfsögðu mikið líf og fjör á vökunni, mikið hlegið, sungið og trallað. Dagurinn endaði svo sem kvöldkaffi þar sem voru niðurskornir ávextir og áttum svo rólega stund í salnum. Krakkarnir voru ekki lengi að sofna eftir líflegan dag.

Takk fyrir allar skemmtilegu kveðjurnar sem þið hafið sent okkur. Eins og nokkrir foreldrar hafa  bent á komu sjónvarpsmenn til okkar í sumarbúðirnar og tóku myndir af okkur þegar við vorum á bátunum á vatninu. Fréttina má sjá í heild sinni með því að smella hér.

Í dag voru settar inn fleiri myndir á síðuna okkar. Albúm 3 og albúm 4 voru sett inn í dag og innihalda myndir frá því í gær og í dag. Að sjálfsögðu megið þið hala niður myndunum úr sumarbúðunum í tölvurnar ykkar og nota að ykkar vild -  gerið það endilega sem allra fyrst.

Krakkarnir eru orðnir spenntir að taka á móti foreldrum sínum á morgun og bjóða þeim upp á kaffi sem verður hér á milli kl. 15.30 og 16 á morgun. Vikan hefur gengið áfallalaust fyrir sig með öllu og ákaflega skemmtilegur hópur sem kveður sumarbúðirnar á morgun. Um það eru allir sammála, bæði leiðtogar og stúlkurnar í eldhúsinu sem töluðu um að það væri eftirtektarvert hversu kurteis börnin væru.  Við vonum svo sannarlega að sem flestir komi aftur á næsta ári og eigi hér aftur skemmtilega viku.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband