Hátíð og húllumhæ

Hér í sumarbúðunum við Eiðavatn er það enn gleðin sem öll völd hefur.
Hópurinn vaknaði eldhress við fagurt gítarspil og söng Boga. Ekki amalegt það.
Þá tók við morgunverðurinn og alltaf er sumarbúðablandan jafn vinsæl.
Eftir góða morgunstund saman þar sem hópurinn stillti strengi sína var haldið út á vatn og fengu allir að reyna sig á árabátunum. Ljóst er að hér er öflugur siglingahópur á ferðinni, þó sumum hafi gengið verr að skila sér aftur í land en öðrum, enda ævintýralegt að taka sér sinn tíma í að komast til baka (sér í lagi hafi maður verið upptekinn við að kanna hólmann).
Dagarnir hér við Eiðavatn eru allir sérstakir, en þessi er sérstaklega sérstakur. Enda er í dag mikill hátíðardagur: sparidagurinn sjálfur. Því fengum við dýrindis kjúkling og franskar í hádegismat. Að hádegisverði afstöðnum var tekið til við að undirbúa guðsþjónustu en krakkarnir spiluðu þar lykilhlutverk:
sá um tónlist, bænir, ritningalestur, leikrit, skreytingar og fleira til.
Góðri guðsþjónustu fylgir gjarnan glæsilegt messukaffi og ekki vorum við svikin af því. Kristjana og Guðbjörg eru alveg að toppa sig þessa daganna.
Brennómótið er ómissandi þáttur af sumarbúðaupplifuninni og var hart tekist á, en þó bar kappið ekki fegurðina ofurliði.
Eftir kvöldmat er stórleikur á dagskránni: Eiða-Quidditch! Eiða-Quidditch er sérstök útgáfa af kappleiknum Quidditch sem að spilar stórt hlutverk í sögunum af Harry Potter.
Þá verður eins boðið upp á að horfa á stórleik dagsins á HM: England - Uruguay.
Kvöldvakan verður í umsjá herbergja 5,6 og 8. Hláturinn mun vafalaust óma um húsið og sungið verður dátt.
Rúsínan í pulsuendanum er svo óvænt vidjókvöld sem tekur við að lokinni kvöldhressingu. Það vantar svo sannarlega ekki stuðið og stemmninguna hér við Eiðavatn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er gaman að lesa hvað það er gaman hjá ykkur :)

Góða skemmtun og ég bið að heilsa henni Kristjönu Völu minni

Kv Mamma,pabbi og Viktoría.

Hugga Ketel (IP-tala skráð) 19.6.2014 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband