Ævintýraflokkur - 1. dagur

Hingað er kominn öflugur hópur, sannkallaður ævintýraflokkur. 
Dagurinn byrjaði ævintýralega, því hvað er ævintýralegra en að kynnast nýjum vinum? Hópurinn hristi sig saman með skemmtilegum leikjum og að því loknu var dýrindis lasagna borið fram ala Kristjana Björnsdóttir. 
Enginn svekktur með það.  
Bogi er maður margra hæfileika og sýndi það og sannaði eftir hádegi þegar hann leiðbeindi hópnum í brjóstsykursgerð. Meðfram því leiddi Hjalti mannréttindafræðsluleikinn ‘Taktu skref áfram’, sem gaf krökkunum tækifæri til að samsvara sig með fólki í ólíkum aðstæðum og sköpuðust virkilega skemmtilegar samræður út frá honum sem sýndu svo ekki um munaði að í þessum hópi ævintýralegra einstaklinga eru allir meðvitaðir og þenkjandi varðandi hinu ýmsu siðferðilegu álitaefni. 
Þá var eins leikjasmiðja úti þar sem allir fengu næga útrás. 
Kaffitíminn er alltaf yndislegur hér við Eiðavatn, þó merkilega lág prósenta íbúa drekki í raun kaffi. Sem er reyndar auðvitað hið besta mál, svona miðað við meðalaldurinn hér í sumarbúðunum. 
Eiða-Kubb er ekkert venjulegt kubb og því fengu krakkarnir að kynnast. Í Eiða-Kubb þarf maður að takast á við sérstakar þrautir og útkoman oft hin skrautlegasta. 
Uppáhaldstími unglinganna er sá frjálsi og hann er alltaf nýttur vel í allskyns leiki. 
Kvöldmaturinn var dýrindis súpa og ekki veitti af því að fá smá auka orku, því eftir kvöldmat þurfti að undirbúa kvöldvöku. Kvöldvakan var leidd af stúlkunum í herbergi 1,2,3 og 4 og var mikið hlegið, enda skemmtunin gríðarleg! 
Í framhaldinu var hin notalegasta helgistund fyrir svefninn og var hópurinn sáttur og sæll þegar hann hélt í rúmið að loknum fyrsta deginum. Ýmis ævintýri liggja þó í loftinu og ljóst að þessi dagur var aðeins upphitun fyrir það sem koma skal. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband